Eldisrisinn SalMar, stór hluthafi í fiskeldisfyrirtækinu Arnarlaxi, mun setja upp eldisstöðvar djúpt úti fyrir ströndum Noregs. Það virðist aðeins upphafið að næsta skrefi í norsku laxeldi – nýtingu úthafsins til eldis og margföldunar á framleiðslu á eldislaxi.
Stærstu laxeldisfyrirtæki Noregs horfa nú til þess að auka framleiðslu sína verulega með því að bæta við eldisstöðvum í úthafinu. Ástæðan fyrir þróun þessarar tækni eru tímabundnar takmarkanir á frekari leyfisveitingum til sjóeldis á laxi við norsku ströndina.
Ein á leiðinni - fimm í smíðum
Hér er ekki um framtíðaráform að ræða, heldur þvert á móti. Eldisrisinn SalMar hefur látið smíða úthafseldisstöð í Kína – sem nefnd er Ocean Farm 1 – og samningar um smíði fimm slíkra til viðbótar hafa verið undirritaðir. Fjárfesting fyrirtækisins í þessum miklu mannvirkjum er á milli 30 og 40 milljarðar króna samkvæmt frétt Undercurrent News.
Í viðtali við Bard Skjelstad, eins af yfirstjórnendum fyrirtækisins, kemur fram að SalMar telur möguleika til mikillar framleiðsluaukningar með þessari nýju eldistækni. Hún muni jafnframt leysa mörg þeirra vandamála sem SalMar er að kljást við eins og staðan er nú; takmarkað eldisrými og staðsetning eldisins, ókostir vegna nálægðar við önnur eldissvæði, óhagstætt hitastig á eldissvæðum og erfiðir straumar. Eins og kunnugt er á SalMar stóran hlut í Arnarlaxi.
Fréttin tengist umfjöllun um AquaNor 2017 – risavaxinnar sjávarútvegssýningar í Þrándheimi – en þar kynnti SalMar framtíðaráform sín og nýja tækni – en það gerðu fleiri fyrirtæki jafnframt. Eru þær hugmyndir bæði tengt hefðbundnu laxeldi við ströndina, og áþekkar hugmyndir um eldi í úthafinu.
Risarnir í startholunum
Eldisrisinn Marine Harvest stefnir á úthafið. Eins Erko Seafood sem vinnur með verkfræðistofunni Global Maritime að sérstakri útfærslu þessarar tækni. Akva Group er enn annað stórfyrirtæki sem vinnur að því að færa eldið út á dýpra vatn – undir verkefnaheitinu Atlantis Subsea. Einnig má nefna Nordlaks sem hafa, ásamt Salmar, fengið vilyrði fyrir nýjum rekstrarleyfum sem tengd eru nýsköpun sem á að leysa margar af þeim áskorunum sem fiskeldi standur frammi fyrir. Havfarm eins og þeirra nýsköpunarverkefni heitir á að geta leyst sömu áskoranir og vandamál og til dæmis Ocean Farm 1.
Við fyrstu sýn virðast þessar nýju eldisstöðvar eiga fátt sameiginlegt með hefðbundinni eldistækni – um risastór mannvirki er að ræða þar sem SalMar metur framleiðslugetu hverrar einingar 1,6 milljónir tonna á líftíma hennar sem metinn er 25 ár. Hver framleiðslueining, eins og hún er hugsuð, eru sex eldisstöðvar í þyrpingu á sama svæði (eða fleiri), og því árleg framleiðslugeta gífurleg. Ef öll áform stóru fyrirtækjanna ganga eftir um laxeldi í úthafinu er því ljóst að framleiðsla Norðmanna á eldislaxi, en hún var 1,2 milljónir tonna í fyrra, gæti tvöfaldast innan áratugar. Þá hafa fyrirtækin engin áform um að færa eldið – hætta strandeldi fyrir úthafseldi. Um klára viðbót verður að ræða, enda er yfirlýst stefna norskra yfirvalda að þróa eigi fiskeldi áfram á komandi áratugum. Hugmynd stjórnvalda er að fimmfalda framleiðsluna, að framleiða fimm milljónir tonna af eldislaxi, en þó aldrei áður en helstu vandamál eldisins eru að fullu leyst – laxalúsin og slysasleppingar eru þar framarlega í röðinni.
Tækniundur
Þessum nýju eldisstöðvum er best lýst sem tækniundri – sem byggir að hluta á þeirri tækni sem hefur verið þróuð af olíufélögum við olíuvinnslu úti fyrir ströndum Noregs, og víðar. Mannvirkin eiga af standa af sér verstu veður, en eru svo tæknivædd að aðeins þrír til sjö starfsmenn verða staðsettir um borð til að hafa eftirlit með þeim skilaboðum sem 20.000 nemar og fjöldi myndavéla senda frá sér á hverjum tíma.
Þá verða eldisstöðvarnar ekki aðeins notaðar til að framleiða 1,5 milljónir laxa hver á ári, eins og framleiðslugeta þeirra segir til um, heldur verða þær nýttar til margvíslegra rannsókna einnig.