laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aðsókn í skips- og vélstjórn stendur í stað

Guðjón Guðmundsson
28. september 2020 kl. 11:10

Í kennslu í skipstjórn er nýttur nýr siglingahermir skólans. Mynd/Gígja

Aðsókn aukist um allt að 45% í nám hjá Tækniskólanum.

Aðsókn hefur aukist mikið í nám á öllum námsbrautum Tækniskólans að undanskyldu námi í skipstjórn og vélstjórn þar sem ásóknin er svipuð og verið hefur. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, segir 45% aukning hafi orðið á heildarfjölda nemenda í dagnám í byggingagreinum og um 30% í rafiðngreinum frá haustinu 2018.

Hildur segir ágæta aðsókn í nám í skipstjórn og vélstjórn þótt sama aukning hafi ekki orðið í þeim fögum. Ekki hefur heldur orðið viðlíka aðsóknaraukning í málmiðngreinum.

Jón Hjalti Ásmundsson, skólastjóri Skipstjórnarskólans sem er hluti af Tækniskólanum, segir aðsóknina nokkuð stöðuga.

„Það eru hins vegar fáir nemendur á efri stigunum og það hefur svo sem verið þannig í nokkur ár. En það eru tveir fullmannaðir nemendahópar í grunnnáminu, á milli 50-60 nemendur en síðan dregur alltaf verulega úr aðsókninni þegar nálgast B-réttindin,“ segir Jón Hjalti.

44 í dagnámi

Boðið er upp á fjögur námsstig í skipstjórn, þ.e. A, sem er 2ja anna nám sem veitir atvinnuréttindi til skipstjórnar á skipum sem eru styttri en 24 metrar, námsstig B, sem er 4 annir og veitir möguleika á vel launuðu starfi við sjávarútveg eða í ferðaþjónustu, námsstig C, sem er 7 anna nám með stúdentsprófi og veitir réttindi á skipum að ótakmarkaðri stærð og loks námsstig D, sem er 8 annir og veitir ótakmörkuð alþjóðleg réttindi á öll skip og stúdentspróf. Ennfremur býðst nemendum að taka áfanga með vinnu í dreifinámi. Allar námsbrautir Skipstjórnarskólans eru í boði að hluta eða í heild í dreifnámi.

Í heild eru nú um 150 nemendur í skipstjórnarnámi, þar af rúmlega 100 í dreifnámi og nærri 50 í dagnámi. Í efri áföngunum eru jafnframt hlutfallslega fleiri í dreifnámi.

„Það eru kannski 5-6 nemendur í skólastofu í dagnámi meðan það eru kannski hátt í 20 heima hjá sér eða úti á sjó í dreifnámi. Í dreifnámi er kennt í gegnum netið það sem hægt er að kenna með þeim hætti. Aðra þætti námsins, eins og kennslu á siglinga- og fjarskiptatæki, taka nemendur í lotunámi hérna í skólanum, tvisvar til þrisvar sinnum á hverri önn,“ segir Jón Hjalti.