miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aflamark ýsu aukið og veiðidögum á grásleppu fækkað

23. apríl 2021 kl. 12:52

Ýsa veidd á línu. (Mynd: Alfons Finnsson).

Veiðidögum á hrognkelsaveiðum fækkað úr 40 dögum í 35 daga, en aflamark ýsu aukið um 8.000 tonn.

Ákveðið hefur verið að auka aflamark í ýsu úr 44.419 tonnum í 52.419 tonn, eða um 8.000 tonn. „Sú fækkun verður dregin frá því aflamarki sem annars yrði úthlutað á fiskveiðiárin 2021/2022“, segir á vef ráðuneytisins.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greindi frá þessu á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þá hefur Fiskistofa greint frá því að veiðidögum á hrognkelsaveiðum verði fækkað úr 40 dögum í 35 daga: „Þetta þýðir að bátar sem hófu veiðar 23.03.2021 þurfa að draga öll netin sín upp 26.04.2021“, að því er segir á vef Fiskistofu.

Ráðuneytið segir að tilefni þessarar ákvörðunar séu „erfiðleikar sem rekja má til mikillar ýsugengdar á veiðisvæðum við Ísland en þann 21. apríl var búið að veiða rúmlega 90% aflaheimilda í ýsu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.“

Bæði Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofa hafi tekið undir að nauðsynlegt sé að bregðast við vandanum.  Í áliti Hafrannsóknarstofnunar segir: 

„Eins og fram hefur komið telur ráðuneytið ekki aðrar færar til að taka á vandanum, að óbreyttum lögum, en sú að aflamark verði aukið. Hafrannsóknastofnun leggst ekki gegn því að aflamark verði aukið á yfirstandandi fiskveiðiári enda verða heimildirnar dregnar frá því aflamarki sem annars yrði úthlutað á fiskveiðiárinu 2021/2022, samkvæmt samþykktri aflareglu.

Stofnunin bendir á að aukningin nú gæti valdið því að svipaður vandi komi upp á næsta fiskveiðiári og því mikilvægt að öllum verði ljóst að aukningin nú verði til frádráttar á komandi fiskveiðiári. Slík skilaboð samhliða úthlutun gætu stuðlað að því að ekki verði farið í aukna beina sókn í ýsustofninn sem aukið getur á mögulegan vanda á komandi fiskveiðiári.“