miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Aldrei meira flutt út af frystum þorski í Noregi

18. apríl 2021 kl. 14:00

Fyrstu þrjá mánuði ársins nam útflutningur frystra þorskafurða 25.400 tonnum sem er 10% meira en yfir sama tímabil í fyrra. Aðsend mynd

Norska sjávarafurðaráðið telur að lokanir veitingastaða hafi leitt til aukinnar eftirspurnar hins almenna neytanda eftir frosnum fiski.

Útflutningsverðmæti frystra þorskafurða hefur aldrei verið hærra í einum mánuði en marsmánuði síðastliðnum í Noregi. Aldrei hefur heldur verið flutt út jafnmikið magn frystra þorskafurða í einum mánuði. Norska sjávarafurðaráðið telur að lokanir veitingastaða hafi leitt til aukinnar eftirspurnar hins almenna neytanda eftir frosnum fiski.

Flutt voru út frá Noregi 11.900 tonn af frystum þorski að verðmæti um 7 milljarðar ÍSK í marsmánuði. Þetta er 22% aukning í magni frá mars 2020 og útflutningsverðmætin eru þó ekki nema 3% hærri.

Fyrstu þrjá mánuði ársins nam útflutningur frystra þorskafurða 25.400 tonnum sem er 10% meira en yfir sama tímabil í fyrra. Útflutningsverðmæti voru þó 9% lægri en í fyrra.  Sala á frystum þorski frá Noregi hefur aukist innan Evrópu á kostnað sölunnar í Asíu. Fyrstu þrjá mánuði ársins fór 67% af afurðunum á markaði innan Evrópu sem er aukning úr 60% fyrir sama tímabil í fyrra.