miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á annað hundrað Trefjabátar í Noregi

Guðjón Guðmundsson
10. apríl 2021 kl. 09:00

Högni Bergþórsson, tæknilegur framkvæmdastjóri Trefja. Myndir/Gígja Einarsdóttir.

Verkefnastaða bátasmiðjunnar Trefja í Hafnarfirði er góð. Fullbókað er út árið og pantanir komnar í nýsmíði báta fyrir næsta ár

Stærsti einstaki markaður Trefja er Noregur, þar sem eru á annað hundrað báta frá Trefjum í notkun, en að sögn Högna Bergþórssonar, tæknilegs framkvæmdastjóra Trefja, er heimamarkaðurinn ekki síður mikilvægur. Nú er til að mynda í lokafrágangi 30 tonna bátur, 12 metra langur og 6 metra breiður, fyrir íslenska útgerð sem verður sjósettur á næstu vikum.

Trefjar er með tvær stórar smíðaskemmur í Hafnarfirði. Í annarri er unnið að uppsteypu báta og hinni að samsetningu og fullnaðarfrágangi bátanna. Í þeirri skemmu geta verið allt frá 5 og upp í 12 bátar í einu eftir stærð þeirra. Þegar blaðamann bar að garði voru átta bátar í samsetningu og frágangi og verið var að steypa upp þrjá ellefu metra báta fyrir Noregsmarkað í steypuskemmunni.

„Síðustu þrjú árin höfum við styrkt okkur enn frekar í sessi í löndunum í kringum okkur. Það er til að mynda spennandi nú um stundir að fylgjast með hvernig spilast úr málunum á Bretlandi í kjölfar útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Við finnum að margir sjómenn þar eru uggandi yfir framtíðinni. Margir eru að reka sig á núna að markaðshöftin sem er verið að setja á þá í Evrópu eru grimm. En þetta mun eflaust ná einhverju jafnvægi og við sjáum ennþá tækifæri innan bátaflotans þar,“ segir Högni.

Á fjórða tug báta til Bretlands

Skömmu fyrir jól var afhentur stærsti báturinn sem Trefjar hafa smíðað fyrir Bretlandsmarkað. Þetta var 15 metra bátur sem fór á Suðausturstönd Englands. Bátar af þessari stærð eru fyrst og fremst á krabba- og humarveiðum í gildrur. Bretland er orðinn rótgróinn markaður fyrir Trefjar. Fyrsti báturinn var afhentur þar árið 2002 og eru þeir nú orðnir á fjórða tug talsins. Þar hefur einn viðskiptavinur til að mynda keypt fimm báta frá Trefjum til að mæta nauðsynlegri endurnýjun.  Trefjabátarnir á Bretlandsmarkað eru flestir 10 og 12 metra langir.

„Við höfum bent á tækifæri í gildruveiðum á humar hér við land á minni bátum um áratuga skeið en eiginlega talað fyrir daufum eyrum. Þær eru svo ekki uppörvandi nýjustu fréttir af hruni humarstofnsins. En við höfum dálítið furðað okkur á því að enginn hafi stundað humarveiðar í gildrur því aflaverðmætin eru almennt talsvert meiri. Menn geta þá gert mun meiri verðmæti úr minna magni.“

Raunar voru stundaðar tilraunaveiðar á Ingu P. SH á Breiðafirði síðastliðið haust og gengu þær framar vonum. Lagðar voru 70 gildrur vestur af Öndverðarnesi og fékkst humar í flestar gildrur. Högni segir að þegar veiðar á þessari sömu tegund í gildrur er borin saman í Bretlandi megi sjá að tilraunaveiðarnar í Breiðafirði voru að gefa frábæran afla.

Þarna sér Högni tækifæri í nýsköpun og nýrri útgerð en þá þurfi að sjálfsögðu að koma til viðhorfsbreyting. Svo virðist sem humarstofninn þoli ekki þá sókn með togskipum sem verið hefur síðustu áratugi og þess vegna hljóti menn að endurskoða fyrirkomulag veiðanna. Gildruveiðar af þessu tagi þurfi ekki heldur að einskorðast við humar heldur megi einnig meðfram stunda veiðar á beitukóngi og nú síðast grjótkrabba sem virðist í mikilli útbreiðslu í kringum landið.

  • Trefjar er með tvær stórar smíðaskemmur í Hafnarfirði. Í annarri er unnið að uppsteypu báta og hinni að samsetningu og fullnaðarfrágangi bátanna.

Stóri markaðurinn fyrir báta frá Trefjum er Noregur. Þar eru nú á annað hundrað Trefjabátar í notkun og fjöldi báta sem smíðaður var fyrir breska kaupendur hefur farið notaður til Noregs og annarra Evrópulanda, eins og Frakklands.

Högni segir að breytingar á reglugerðum innan fiskveiðistjórnunarkerfa hinna ýmsu landa hafi mikil áhrif á markað fyrir nýja báta. Oft komi hik á menn og stundum leiða breytingarnar til tækifæra sem menn sáu ekki fyrir. Hann nefnir að nú standi fyrir dyrum breytingar í Noregi sem miði að því að draga úr framsali aflaheimilda innan smábátakerfisins. Samkvæmt frumvarpi til laga í Noregi verður miðað að því að draga úr svigrúmi til að sameina kvóta milli báta.

„Þetta gerir þó sennilega ekki annað að verkum út frá okkar bæjardyrum séð en að eftirspurnin breytist hvað viðvíkur bátastærðum. Norskum stjórnvöldum virðist nú umhugað að draga úr samþjöppun innan sjávarútvegsins og stefna að sem mestri dreifingu aflaheimilda um hinar dreifðu byggðir.“

Af á annað hundrað bátum frá Trefjum í Noregi er nokkur fjöldi í eigu Íslendinga sem hafa sest þar að og stunda þar veiðar. Högni segir að þótt Íslendingar séu í miklum minnihluta í þessum hópi beri mikið á þeim því þeir séu yfirleitt með stærstu bátana og í mesta rekstrinum.  Íslendingum hefur í flestum tilvikum gengið vel að ná fótfestu í rekstri minni báta í Noregi.

Trefjar eru meðal þeirra þriggja bátasmiða sem smíða flesta báta fyrir norska smábátaútgerð. Þessa stöðu má ekki síst rekja til góðs árangurs Trefjabátanna þar um slóðir og góðrar þjónusta gagnvart viðskiptavinum bátasmiðjunnar. Svona hlutir spyrjist út og menn viti að Trefjar bjóði upp fjölmargar útfærslur og gæði. Endurtekin viðskipti sýni líka að orðsporið sé á rökum reist.

„Við seldum fyrsta bátinn til Noregs líka um 2002 og það þótti saga til næsta bæjar að Norðmenn keyptu íslenskan bát. Að þeir keyptu báta af litla bróður lengst úti í Dumbshafi þótti öfugsnúið og nær að Íslendingar keyptu báta af Norðmönnum. Það var því erfitt að komast inn á þennan markað í byrjun. Hefðirnar í útfærslum voru líka að okkar mati í mörgum tilfellum gamaldags. Við höfum holað þennan stein með góðum árangri. Núna er mjög sjaldgæft að Norðmenn sækist eftir eldri útfærslum sem tíðkuðust áður. Þeir taka núna lausnirnar sem við erum með.“

„Árið er uppselt“

Þótt Noregur sé stærsti einstaki markaðurinn fyrir Trefjar eru stærstu einstöku verkefnin að jafnaði á Íslandi. Högni segir að verkefnin innanlands lúti að smíði báta innan krókaaflamarkskerfisins. Fyrirtækið bjóði einnig upp á lausnir fyrir báta innan aflamarkskerfisins en þær hafa ekki náð almennum hljómgrunni.

Stór hluti af verkefnum Trefja hefur líka verið smíði á þjónustubátum fyrir olíuiðnaðinn – verkefni sem lögðust talsvert í dvala fyrir fáeinum árum þegar heimsmarkaðsverð á olíu hrundi. Einnig hafði fyrirtækið talsvert umleikis í kringum smíði á ferðaþjónustubátum sem líka hefur hægst á vegna heimsfaraldursins. En sem fyrr segir er verkefnastaðan góð.

„Þetta ár er uppselt og við erum komnir með talsvert af verkefnum inn á árið 2022. Þarna er um að ræða smíði á bátum af öllum stærðum jafnt fyrir innanlandsmarkað og erlenda markaði. Menn sjá núna fyrir að landið fari að rísa á ný. Samdráttur í fisksölu hefur heldur ekki orðið jafnmikill og menn óttuðust í upphafi faraldursins. Markaðirnir hafa aðlagast ástandinu og salan færst til.“

Undanfarið ár hefur samfélagið verið meira eða minna lokað út af heimsfaraldrinum. Á þessum viðsjárverðu tímum lauk Trefjar engu að síður smíði á nýjum Einari Guðnasyni ÍS fyrir Íslandssögu á Suðureyri. Báturinn var afhentur í febrúar, nákvæmlega einu ári eftir að samið var um smíði hans og hefur farið vel af stað í veiðum. Þá er að ljúka smíði á stórum bát fyrir útgerð Sigurðar Aðalsteinssonar um þessar mundir. Í framhaldinu verður kláraður 30 tonna bátur sem fer til Noregs.