miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ástand sjávar lesið úr loðnukvörnum

Guðsteinn Bjarnason
20. nóvember 2021 kl. 09:00

Loðnulirfuháfurinn kemur úr kafinu. MYND/Hafrannsóknastofnun, Svanhildur Egilsdóttir

Kvarnir úr loðnulirfum sendar til Kanada til rannókna.

Fátt er um skýringar á því hvernig miklar sveiflur verða í stofnstærð loðnu. Hafrannsóknastofnun vinnur nú að rannsóknum á reki loðnulirfa.

Niðurstöður loðnuleiðangurs Hafrannsóknastofnunar urðu mörgum kærkomnar eftir rýra loðnuvertíð síðasta vetur og loðnubrest tvö ár þar á undan. Hrygningarstofninn mældist nú 1.833.000 tonn og þar með þótti óhætt að ráðleggja veiði upp á 904.200 tonn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stofnstærðin hefur sveiflast hratt upp eða niður, en vísindamenn á Hafrannsóknastofnun hafa enn ekki þá þekkingu á hegðun loðnunnar til þess að átta sig á því hvað veldur því að svona stór stofn geti skyndilega sprottið upp úr pínulitlum stofni árið áður.

„Við höfum það ekki í hendi að skýra þetta. Í rauninni ekki,“ segir Birkir Bárðarson fiskifræðingur, en hann hefur stýrt loðnuleiðöngrum stofnunarinnar undanfarin ár. „Upplagið í allri okkar ráðgjöf er einfaldlega það að það komi nógu margar loðnur til hrygningar til að ef aðstæður eru til staðar að þá sé nóg ungviði til að ná þessum stofnstærðum.“

Enginn veit

Af hverju þetta gerist akkúrat núna veit sem sagt enginn.

„Við getum bara spekúlerað. Við höfum séð vott af kólnun í hafinu fyrir norðan land og víðar á svæðum loðnunnar, og við spyrjum okkur hvort það geti verið tengsl þar á. Við erum að reyna að átta okkur á því,“ segir Birkir.

Ýmislegt fleira getur líka spilað inn í, svo sem fæðuframboð og afrán.

„Það er mikið étið upp af þessu. Sumir tala um makríl, en við höfum ekki séð sönnunargögn um mikið makrílát á loðnu þó það útiloki ekki að hann geti haft áhrif. Það má segja að þar sem mikið er af loðnu, þar er að öllu jöfnu veisla, þar sem botnfiskar leita upp í sjó til að gæða sér á loðnunni og mergð sjófugla og hvala er á svæðinu í sömu erindum. Því tengt má benda á að magn hnúfubaka hefur aukist og erum við að skoða hvernig við getum betur tekið tillit til þess í okkar ráðgjöf.“

Annað sem verið er að skoða er „hvernig straumar hafa áhrif á rek seiðanna rétt eftir klak, og á hvaða uppeldissvæði þau berast. Það er mjög áhugavert í þessu samhengi hvaða aðstæður eru það sem skapa bæði stóra og litla árganga.“

Loðnulirfuverkefnið

„Við höfum verið að safna lirfunum í kringum landið, tökum úr þeim kvarnirnar og lesum dægurhringina. Síðan notum við straumlíkan til að sjá hvernig þær hafi borist á þennan stað, og sjáum þá hvaðan þær eru að koma. Þannig getum við rakið þær til upphafspunktar,“ segir Birkir.

Annar fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, James Kennedy, stýrir þessu loðnulirfuverkefni sem gengur út á það að kanna rek seiðanna fyrstu daga og vikur ævinnar.

„Við höfum verið að safna loðnulirfum í nokkur ár, og svo eru fleiri til úr fyrri leiðöngrum,“ segir James. „Við tökum kvarnirnar út úr loðnulirfunum og teljum dægurhringina á þeim. Það gefur okkur hugmynd um það hversu gamlar lirfurnar eru, hvort þær eru nokkurra daga gamlar eða nokkurra vikna, jafnvel nokkurra mánaða gamlar. Þegar við erum komin með hugmynd um aldurinn þá notum við hafstraumalíkan og sjáum þá rek þeirra aftur í tímann.“

  • Kvarnir leynast í pínulitlum lirfunum. MYND/Hafrannsóknastofnun, Svanhildur Egilsdóttir

Hann segist reikna með að fyrstu niðurstöður úr þessum rannsóknum ættu að liggja fyrir eftir um það bil ár.

„Loðnan hrygnir um alla suðurströndina og auk þess er eitthvað um að hún hrygni við Norðurströndina. Við erum þá að reyna að draga upp mynd af því af hvaða hrygningarslóðum þær koma, hvort sumar hrygningarslóðir eru frjósamari en aðrar, og hvort lirfurnar þaðan eru líklegri til að lifa af þangað til þær komast á uppeldisslóðir. Einnig gætum við líka greint hvort þessar lirfur sem hrygnt er fyrir norðan nái því að komast á uppeldisslóðir áður en þær skolast burt. Hvort þær lifi nógu lengi til þess að verða partur af stofninum.“

Ástand sjávar

Sjálfur segist James ekki vita mikið um hafstraumslíkönin. Líffræðin sé frekar hans svið. En einn þáttur rannsóknarinnar er að taka kvarnir úr lirfum á mismunandi tímaskeiðum. Þær eru síðan sendar til Kanada þar sem hægt er að greina efnasamsetningu kvarnarinnar af mikilli nákvæmni, skoða mismunandi hluta kvarnanna og hlutföllin milli þeirra.

„Þá sjáum við hvort þetta er breytilegt. Það er nefnilega þannig að efnahlutföllin milli einstakra hluta kvarnanna geta verið ólík eftir því hvernig ástandið hefur verið á hafinu, til dæmis eftir því hvort selta hefur verið meiri eða sinkinnihald til dæmis. Þannig að við erum að skoða hvort hægt sé að sjá það, út frá því hvernig kvarnirnar eru gerðar, hvernig ástand hafsins hefur verið á þeim slóðum þar sem lirfurnar veiddust.“

  • Fiskifræðingarnir James Kennedy og Birkir Bárðarson. Myndir/Aðsendar

Ef þetta reynist gerlegt, þá er næsta skref að skoða kvarnir úr fullorðnum loðnum sem koma til hrygningar og athuga hvort hægt sé að rekja þær til hrygningarslóða þeirra.

„Þá sjáum við mögulega hvort lirfur frá ákveðnum hrygningarslóðum verða fjölmennari í fullorðna stofninum miðað við lirfur frá öðrum hrygningarslóðum.

James segir niðurstöðurnar úr þessum rannsóknum væntanlega færa okkur mun betri skilning á hegðun loðnunnar og afdrifum hennar í hafi.

„Þetta skiptir líka máli út frá mögulegum breytingum í hafinu út af hlýnun og slíku. Út frá þessari vitneskju ættum við að geta spáð fyrir um hvað muni gerast á svæðum sem eru mikilvæg fyrir loðnuna, ef veruleg hætta er á að þar verði miklar breytingar vegna loftslagsbreytinga.“