þriðjudagur, 1. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Berst fyrir auknu veiðarfærafrelsi

Guðsteinn Bjarnason
14. nóvember 2020 kl. 09:00

Nýr formaður Samtaka smærri útgerða við bát sinn, Sverri SH. Aðsend mynd

Örvar Marteinsson tekinn við formennsku Samtaka smærri útgerða.

Nýr formaður Samtaka smærri útgerða segir hagsmuni smábáta sem gerðir eru út allt árið um margt ólíka hagsmunum þeirra sem einkum róa á sumrin. Hann sagði sig úr Landssambandi smábátaeigenda á síðasta ári.

„Við höfum verið að berjast fyrir því að krókaaflamarksbátar mættu veiða í þorskanet, með því fengjum við aukið veiðarfærafrelsi,“ segir Örvar Marteinsson, nýr formaður Samtaka smærri útgerða (SSÚ). „Við erum að borga sömu auðlindagjöld og allir aðrir en erum samt sem áður heftir við það að mega eingöngu veiða á króka.“

Örvar sagði sig úr Landssambandi smábátaeigenda (LS) eftir aðalfund haustið 2019.

„Við vorum búnir að reyna að berjast þar fyrir málefnum þeirra sem eru að róa allt árið og eru að reka fyrirtækin sín á ársbasis. Við höfðum verið felldir með tillögurnar okkar trekk í trekk síðustu ár.“

LS hafi verið að breytast

Hann segist ekki vilja lasta LS á nokkurn hátt enda hafi þáverandi formaður og framkvæmdastjóri verið að vinna að ákveðnum mjög góðum hlutum, en upplifun sín hafi verið sú að félagið hafi verið að breytast nokkuð.

„Þeim er að fækka þarna sem eru í þessum bransa allt árið, og hinum er þá að fjölga, hlutfallslega í það minnsta, sem eru kannski mest á strandveiði og þvíumlíku. Okkur fannst ekki lengur vera hlustað á okkar sjónarmið. Þannig að við sögðum okkur úr því félagi og gengum til liðs við SSÚ.“

Samtök smærri útgerða (SSÚ) voru stofnuð árið 2013 þegar hópur sjómanna klauf sig út úr Landssambandi smábátaeigenda. Rúmlega tuttugu bátar eru innan SSÚ, en Örvar bendir á að þessir bátar séu samtals með um 35 prósent af krókaaflamarkinu.

„Það er ríflega þriðjungur, en auðvitað eru þetta ekki nærri eins margir bátar og í LS enda er þar gríðarlegur fjöldi sem er eingöngu að róa á sumrin.“

Rangfærslur vaða uppi

Eitt af því sem hann sér fram á að þurfa að standa í er að leiðrétta alls kyns vitleysu og rangfærslur um sjávarútveginn sem hann segir vaða uppi í samfélaginu. Sem dæmi nefnir hann þráláta umræðu um skaðsemi aflamarkskerfisins.

„Það er alveg merkilegt að menn vilji færa hlutina aftur til 1984 eða eitthvað þar sem menn lágu bara á skrifstofunni í bænum og ráðuneytum að reyna að væla út styrki fyrir sjávarútveginn. Nú er það sem betur fer hætt, en um leið og útgerðarmönnum var í rauninni gefið þetta tæki til þess að gera sjávarútveginn arðbæran þá er það úthrópað eins og einhver meinsemd.“

Örvar er skipstjóri á línubátnum Sverri SH-126, öðrum af tveimur bátum Sverrisútgerðarinnar sem faðir Örvars, Marteinn Gíslason, stofnaði fyrir nærri tveimur áratugum. Hinn báturinn er Glaður SH-226, sem er nokkru smærri handfæra og grásleppubátur.

Hann segir útgerðina á Sverrisbátum hafa gengið ágætlega undanfarið, en hann gerir út frá Ólafsvík. 

„Það er að vísu mest búið að vera ýsa hérna heima við, en það hefur verið ágætis afli þegar við komumst á sjó. Aftur á móti er tíðin búin að vera alger hryllingur, og var það líka í fyrra alveg frá 1. desember. Ég ætla rétt að vona það sé ekki að sigla í sama horf. Það eru ekki nema örfáar ferðir sem við höfum komist frá því um miðjan október.“