fimmtudagur, 3. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blautu störfin að hverfa

Guðsteinn Bjarnason
24. október 2020 kl. 09:00

Þóroddur Bjarnason. Mynd/Guðsteinn

Sjávarútvegserindi Þekkingarseturs á Zoom.

Þóroddur Bjarnason félagsfræðingur segir að ákvarðanir fólks um búsetu muni í náinni framtíð líklega frekar ráðast af því hversu eftirsóknarverð byggðarlögin þykja, frekar en að atvinnumöguleikar muni ráða úrslitum

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, velti upp nokkrum hliðum á þróun íslenskra sjávarbyggða í erindi sínu í Þekkingarsetri Vestmannaeyja þann 15. október.

Algengt er að líta svo á að þéttbýlismyndun hér á landi hafi byrjað í Reykjavík með Innréttingum Skúla fógeta árið 1751.

Þóroddur bar meðal annars saman íbúafjölda í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Árið 1801 voru íbúar í Reykjavík 300 talsins, en árið 1703 voru íbúar í Vestmannaeyjum 330. Allt aftur til ársins 1200 hafi íbúafjöldi Vestmannaeyja yfirleitt verið á bilinu 300 til 500 íbúar.

„Er þá ekki upphaf þéttbýlis miklu eldra,“ spurði Þóroddur, og nefndi að íbúar Vestmannaeyja hafi á þessu tímabili öllu verið álíka margir og nú búa á Hólmavík. Þar eru nú 329 íbúar.

„Þorp þar sem allt snýst um sjávarútveg er ekki óskaplega gamalt fyrirbæri,“ sagði hann, en tók síðan að skoða hvort kvótakerfið hafi í reynd haft þau miklu neikvæðu áhrif á sjávarbyggðir landsins sem margir telja.

Áhrif kvótakerfis

Íbúaþróun sjávarbyggðanna fyrir og eftir tilkomu kvótakerfis sýnir að áhrif þess eru mjög ólík eftir því hvernig byggðarlögin eru. Þóroddur segir sjávarbyggðir á Suðvesturhorni landsins ekki hafa orðið fyrir miklum áhrifum af kvótakerfi, og hið sama megi segja um staði annars staðar á landinu þar sem íbúafjöldinn er 500 eða meira. Hins vegar séu greinileg áhrif á íbúaþróun smærri staða, þar sem íbúar eru innan við 500.

Hvað Vestmannaeyjar sérstaklega varðar þá sagði Þóroddur einn helsta styrkleika Eyjanna vera mannfjöldann.

Nú er hins vegar eitthvað nýtt að gerast í sjávarbyggðunum: „Blautu störfin“ hverfa en í litlu þorpunum sé þess vart að vænta að til verði önnur betur borguð.

Eftir tuttugu ár

Hrafn Sævaldsson spurði Þórodd hvernig hann sæi fyrir sér Vestmannaeyjar eftir 20 ár?

Þóroddur svaraði því til að byggðaþróun hafi hingað til ráðist mikið af því hvar vinnu er að fá, en það sé að breytast. Vinnan er að aftengjast stöðunum. Fólk getur sinnt vinnu sinni hvar sem er, og þá er frekar spurt um samfélagið á hverjum stað, hvernig það er og hvert fólk geti hugsað sér að búa þar.

Covid 19 setti svip sinn á sjávarútvegserindi Þekkingarseturins að þessu sinni, eins og á flest annað í samfélaginu. Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur undanfarin ár staðið fyrir sjávarútvegserindum einu sinni í mánuði, en vegna ástandsins hafa þau legið niðri um tíma og nú var gripið til þess ráðs í fyrsta sinn að hafa fjarfund.

Þóroddur flutti erindi sitt heiman frá sér á Akureyri og áheyrendur sátu flestir heima hjá sér víðs vegar um landið.