fimmtudagur, 3. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blikur á lofti í sölumálum næstu árin

Guðjón Guðmundsson
15. nóvember 2020 kl. 09:00

Af sem áður var. Neytendur eru varkárari og fara minna meðal fólks og í verslanir. Aðsend mynd

Sainsbury‘s lokar ferskfiskborðum sínum varanlega

Sainsbury‘s verslanakeðjan á Bretlandi hefur tilkynnt endanlega lokun ferskfiskborða í verslunum sínum í skugga heimsfaraldursins og hertari aðgerða þar í landi. Fiskframleiðendur fylgjast grannt með því hvort aðrar stórverslanakeðjur sigli í kjölfarið.

Kristján Hjaltason, sölustjóri hjá Norebo í Evrópu, telur að blikur verði á lofti í sölumálum á fiski næsta eina árið og jafnvel tvö.

Kristján býr og starfar í Berlín í Þýskalandi. Þar hefur einnig verið gripið til hertra aðgerða sem og í Frakklandi og öðrum Evópuríkjum. Evrópusambandið hefur hins vegar komið sér saman að halda landamærum opnum ólíkt því sem gerðist í fyrstu bylgju faraldursins þegar sum lönd gripu til aðgerða af því tagi. Almennt eru verslanir opnar í þessum löndum með fjöldatakmörkunum en veitingahús bjóða einungis upp á „take-away“ þjónustu.

Skemmri viðbragðstími

„Flest lönd eru að grípa til svipaðra aðgerða og í Bretlandi. Í grunninn hafa aðgerðirnar nú svipuð áhrif á fisksölu og var í fyrstu bylgjunni í mars. Veitingahús- og kaffihúsamarkaðurinn er í öldudal. Þó er jákvætt að þessi veitingastaðastarfsemi, eins og til dæmis „fish&chips“, er opin fyrir „take-away“ þjónustu. Staðirnir eru núna tilbúnir til að veita þessa þjónustu sem þeir voru ekki í mars. Neytendur eru líka stilltari inn á þjónustu af þessu tagi en áður. Neytendur eru varkárari og fara minna meðal fólks og í verslanir. Heimsendingar frá verslunum hafa einnig aukist mikið. Verslanir og veitingahús virðast betur undir þessa starfsemi búin en var í mars.  Neysla innan heimilanna hefur aukist mikið og neysla utan þeirra minnkað. Aðgerðirnar hafa minni áhrif á mötuneyti því hvarvetna er reynt að halda atvinnustarfsemi og skólum gangandi. Þótt gripið hafi verið til harðra aðgerða er okkar tilfinning sú að afleiðingar fyrir fiskframleiðendur séu ekki jafn slæmar og þær voru í mars vegna þess að markaðir eru betur undirbúnir eftir að hafa aðlagað sig að breyttum tímum,“ segir Kristján.

Rekur 1.400 verslanir

Í mars lokuðu allar stórverslanakeðjur í Bretlandi ferskfiskborðum sínum. Þær voru síðan opnaðar aftur í sumarbyrjun. Nú hefur Sainsbury‘s keðjan tilkynnt varanlega lokun ferskfiskborða í verslunum sínum. Sainsbury‘s rekur um 600 stórverslanir og um 800 minni verslanir. Önnur stórverslanakeðja sem er fyrirferðarmikil í Bretlandi, Tesco, rekur ríflega 7.000 stórverslanir um allan heim.

„Loki aðrar verslanakeðjur ferskfiskborðum sínum gæti það valdið vandamálum fyrir hefðbundna ferskfisksölu. Þetta á sérstaklega við um dýrari tegundir sem gjarnan hafa farið inn á veitingahúsamarkaðinn og neytendur matreiða síður inni á heimilunum.“

Kristján segir að kauphegðun hafi jafnframt breyst í þá veru að minna sé keypt úr ferskfiskborðum en meira af pökkuðum, kældum fiskafurðum. Allt miðast að því að stytta viðveruna inni í verslununum. Á mörgum mörkuðum í Evrópu mun salan á pökkuðum, kældum fiski aukast.

Sala á frystum fiski tók strax kipp í mars og hefur haldist mikil á öllum mörkuðum, jafnt í smásölu og heimsendingarþjónustu. Nokkuð ljóst sé að sala á frystum fiski muni aukast enn frekar.

Stöðugleiki í verði

Þegar Fiskifréttir ræddu við Kristján í júlí síðastliðnum og báðu hann um að leggja mat á framtíðina taldi hann víst að heimsbyggðin þyrfti að lifa í óvissu vegna Covid-19 næstu 6-12 mánuði. Núna líti út fyrir að ástandið muni vara í eitt og jafnvel allt að tvö ár. Jafnvel þótt bóluefni sé á næsta leiti taki umtalsverðan tíma að tökum á ástandinu og kauphegðun breytist ekki hratt. Það muni til að mynda taka veitingahúsamarkaðinn umtalsverða tíma að ná fyrra jafnvægi.

Kristján segir að þrátt fyrir allt sé framboð og eftirspurn fyrir mikilvægustu tegundirnar, þorsk og ýsu, í ágætu jafnvægi. Framleiðendum hafi tekist býsna vel síðastliðið hálft ár að laga sig að nýjum aðstæðum og seljendur og kaupendur náð að stilla saman strengina.

Afurðaverðið á mörgum vörum lækkaði strax í mars þegar faraldurinn blossaði upp og framleiðendur fundu fyrir því, á meðan að verð á flökum fyrir smásölu hafi haldist óbreytt. Kristján segir að síðustu mánuði hafi verið jafnvægi og stöðugleiki í verði. Það sem hafi breyst er að meiri munur er nú á verði á mismunandi vörum. Það sem flæki stöðuna fyrir seljendur, þ.e.a.s. heildsala, er að dreifendur halda minni birgðir og minnka þannig sína áhættu sem óhjákvæmilega er vegna óvissunnar með veitingahúsamarkaðinn. Framleiðendur finni því fyrr fyrir því verði mikil aukning á eftirspurn. Framleiðendur þurfi því að vera í viðbragðsstöðu hvað þetta varðar.