þriðjudagur, 1. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bretland og Grænland semja

12. nóvember 2020 kl. 10:00

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir nýja samkomulagið opna fyrir samstarf á milli þjóðanna um fiskveiðistjórnun. Mynd/EPA

Þriðji samningur Breta við strandríki í Norður-Atlantshafi á stuttum tíma

Bretland og Grænland hafa gert með sér fiskveiðisamning. Þetta er eitt skref Bretlands á leið út úr sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins en á meðan hefur verið gert hlé á samningaviðræðum Bretlands og ESB um sjávarútvegsmál.

Samningur númer þrjú

Þetta er þriðji samningur Breta við strandríki í Norður-Atlantshafi á stuttum tíma. Í september og október komust Bretar að samkomulagi við Norðmenn og Færeyinga.  Í Grænlandi er verið að endurskoða núverandi samning við Evrópusambandið sem tók gildi 2016 og rennur út í árslok.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir nýja samkomulagið opna fyrir samstarf á milli þjóðanna um fiskveiðistjórnun. Í samkomulaginu er sérstaklega bent á nauðsyn þess að fylgt verði ábyrgri fiskveiðistjórnun í lögsögu Grænlands til að tryggja viðgang fiskistofnanna og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Leitast verður við að nota vísindalega nálgun við fiskveiðar til að lágmarka áhrif á lífríki hafsins.

Vanmáttugt ESB

Grænlendingar kusu um það árið 1982 að ganga úr Evrópusambandinu og varð það að veruleika þremur árum síðar.

Daniel Kawczynski, þingmaður Íhaldsflokksins og Brexit-sinni, fagnaði samkomulaginu og sagði það draga fram í dagsljósið hve vanmáttugt ESB væri að ná samkomulagi við Bretland í sjávarútvegsmálum.

„Noregur, Færeyjar, Ísland og Grænland hafa öll sýnt hvernig hægt er að semja ólíkt þeirri kreddu og ófyrirleitni sem ESB hefur sýnt af sér.“