miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Búast má við samþjöppun áfram

Guðsteinn Bjarnason
23. október 2021 kl. 08:00

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki komust flest vel í gegnum covid-tímann, en þó misvel. Deloitte kynnti stöðuna árið 2020 á hinum árlega Sjávarútvegsdegi.

Afkoman í íslenskum sjávarútvegi hefur verið sterk undanfarin tvö ár og fjárfestingar miklar. Þetta kom á Sjávarútvegsdeginum sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök atvinnulífsins og Deloitte stóðu fyrir.

„Það er ljóst að greinin er að njóta ábata af þeim miklu fjárfestingum sem ráðist hefur verið í, bæði í skipum og fiskvinnslu. Þá er jafnframt þekkt að veikari króna styður útflutningsgreinar eins og sjávarútveginn,“ sagði Jónas Gestur Jónasson endurskoðun hjá Deloitte þegar hann kynnti greiningu sína á þriðjudag, en þetta var í áttunda sinn sem þessi dagur er haldinn.

Jónas Gestur sagði það magnað að sjá hve íslenskum sjávarútvegi gekk almennt vel árið 2020 að komast í gegnum erfitt tímabil bæði heimsfaraldurs og loðnubrests annað árið í röð.

„Það sýnir kannski hvað við eigum gríðarlega gott hæft fólk í greininni. Þegar ákveðnir markaðir lokuðust þá fundu menn bara aðrar leiðir til að koma afurðunum á markað. Menn náðu að aðlagast ótrúlega vel að aðstæðum,“ sagði Jónas í stuttu spjalli við Fiskifréttir.

Arðgreiðslur tvöfaldast

Á árinu 2020 greiddu sjávarútvegsfyrirtækin eigendum sínum 21,5 milljarð í arð, en sú upphæð er nærri fimm sinnum hærri en sjávarútvegurinn greiddi í veiðigjöld á árinu og meira en öll bein opinber gjöld sjávarútvegsins.

Veiðigjöldin námu 4,8 milljörðum, tekjuskatturinn var 7,3 milljarðar og tryggingagjald varð um 5,3 milljarðar, þannig að samtals urðu bein opinber gjöld um 17,4 milljarðar.

Arðgreiðslur ársins 2020 voru ríflega 11,5 milljörðum hærri en árið áður. Dótturfélög Samherja greiddu hins vegar 10,5 milljarða í arð til móðurfélagsins og er það nærri helmingur allra arðgreiðslna ársins en Samherji greiddi ekki eigendum sínum arð úr móðurfélaginu.

Heildartekjur í sjávarútvegi urðu 284 milljarðar á árinu 2020, sem er um 4 milljörðum meira en árið á undan. Framlegð nam 72 milljörðum króna og dregst saman um einn milljarð.

Skuldir aukast

Hagnaður dróst hins vegar verulega saman, fór úr 43 milljörðum árið 2019 í 29 milljarða. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja halda sömuleiðis áfram að aukast og eru nú um 461 milljarður króna.

„Varðandi skuldastöðuna þá voru menn að borga niður langtímaskuldirnar hjá sér, en það sem gerist við veikingu krónunnar er að þá hækka þær í krónum,“ segir Jónas Gestur. „Einnig sáum við líka að vaxtaberandi skammtímalán jukust í sjávarútvegi. Þar kemur til að einhver félög sem standa veikar hafi kannski þurft á einhverri fyrirgreiðslu í banka að halda.“

Jónas sagðist fastlega reikna með því að samþjöppun í sjávarútvegi muni halda áfram eins og verið hefur undanfarin ár. Það megi sjá bara út frá skuldastöðunni. Hún sé áhyggjuefni fyrir þau fyrirtæki sem veikari eru fyrir.

„Svo er það líka þannig í minni útgerðum að eigendur eru margir að komast á aldur, og þá verða kannski kynslóðaskipti eða þá að eigendur selja sín félög eins og í öðrum atvinnugreinum.“