mánudagur, 27. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bylting um borð í Tjaldi frá Rifi

10. september 2021 kl. 07:00

Tjaldur á veiðum fyrir skemmstu. Mynd/Þorgeir

Breytingar hafa verið gerðar á kælikerfinu í línubátnum Tjaldi SH 270 sem er mun umhverfisvænna á eftir.

Tjaldur er í eigu K.G. fiskverkunar og er gerður út frá Rifi í Snæfellsbæ en starfsmenn KAPP sáu um að skipta um kælimiðilinn, sem var freon og er mjög mengandi efni. Með breytingunni minnkar magn kælimiðilsins um 99% og því komið fyrir í litlu einangruðu kælikerfi í stað þess að það sé í lögnum um allt skip.

Freyr Friðriksson, eigandi KAPP, segir í tilkynningu að um nýja aðferð sé að ræða þar sem að tvö kerfi verði notuð í stað eins áður; annars vegar kælikerfi og hins vegar flutningskerfi.

„Kælikerfið er eftir breytinguna með annan kælimiðil sem skilur eftir sig mun minna umhverfisspor en freon. Þar sem kerfin tvö liggja þétt saman myndast hliðarkæling, sem stundum er kallað kuldaberi. Með þessari aðferð minnkar hætta á að F-gös leki úr flutningskerfinu," segir Freyr og bætir við að um sé að ræða umhverfivæna, ódýra og einfalda lausn sem minnkar hættunna á losun F-gasa út í andrúmsloftið, en F-gös eru manngerðar gastegundir sem framleiddar eru til notkunar í margvíslegum iðnaði og eru tugþúsund falt meiri umhverfisáhrif en hliðstætt magn af koltvísýringi.

Endurnýting

Að sögn Freys, þá er möguleiki er að nýta stóran hluta af kælikerfinu sem fyrir er í skipum en í mörgum tilfellum, eins og í Tjaldi, þá var tækifærið notað til að endurnýja gamlar koparlagnir í nýjar öruggari lagnir og sama átti við um kælipressuna fyrir sjálft kælikerfið. Við þessa breytingu var freonið sem notað er um borð minnkað úr tvö þúsund kílóum í 30 kíló.