mánudagur, 25. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Draumaverkefnið komið í gang

Guðsteinn Bjarnason
25. september 2021 kl. 08:00

Mælaborð Fiskistofu auðveldar fólki að rata um gagnafrumskóginn. MYND/Fiskistofa

Ný framsetning upplýsinga á vef Fiskistofu auðveldar notendum að rata um gagnafrumskóginn. Fiskistofa kynnti fyrir stuttu kortasjá, mælaborð og rekjanleikaverkefni

Fiskistofa hefur opnað á vef sínum bæði Mælaborð og Hafsjá, auk þess sem rekjanleikaverkefni stofnunarinnar er komið í gang. Starfsmenn stofnunarinnar kynntu þessar nýjungar á föstudaginn.

Hafsjáin er kortasjá sem auðveldar aðgengi að svæðisbundum upplýsingum um veiðar og eldi, og mælaborðið auðveldar notendum aðgengi að upplýsingum um sjávarútveg í rauntíma.

„Verkefnið felst í að miðla gögnum þannig að þau verði aðgengileg í siglingatækjum sjófarenda og til skoðunar á vef,“ sagði Viðar Ólafsson deildarstjóri, sem kynnti Hafsjána, sem unnin er í samvinnu við Landmælingar Íslands og snýst um að samtengja upplýsingar frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun.

„Þarna verður hægt að sjá á korti allar skyndilokanir og reglugerðarlokanir, sem Fiskistofa hefur haldið utan um, auk þess sem þarna er að finna upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun um veiðisvæði eftir veiðarfærum og upplýsingar frá Matvælastofnun um sjókvíaeldi og skelfiskaeldi.“

  • Á Hafsjánni má til dæmis sjá botnvörpuveiðar og reglugerðarlokanir. MYND/Fiskistofa

Rekjanleiki aflans

Þorsteinn Hilmarsson sagði síðan frá rekjanleikaverkefni Fiskistofu, sem snýst um bætt eftirlit með lönduðum afla.

„Þetta hafðist með því að við gátum tengt saman rafræn gögn úr afladagbókum og löndunargögn sem eru skráð við hafnarvog við löndun aflans,“ sagði Þorsteinn.

Hann sagði að nú þegar öllum útgerðum er gert skylt að skila afladagbókum rafrænt til Fiskistofu, þá hafi opnast möguleikar á rafrænum tengingum milli afladagbóka og löndunarskráninga.

„Þetta þýðir að við náum rekjanleika á afla frá veiðiferð til löndunar.“

Hafnarvigtarmenn sjái nú samstundis hvort skráningar í afladagbók stemmi við löndunartölur og geti kannað hvort eðlilegar skýringar séu á misræmi. Rekjanleikanúmer úr afladagbók geti síðan nýst í allri meðferð aflans allt þangað til hann kemur til neytanda.

Hjáleiðir í upphafi

Þorsteinn segir að tæknilega hafi vel tekist til með þetta verkefni strax fá fyrsta degi. Kerfið virkaði eins og til var ætlast, en alltaf sé það „mannlegi þátturinn sem er erfiðastur.“ Til að koma til móts við sjómenn höfðu hafnarvigtarmenn ákveðnar hjáleiðir, bæði til að „virkja rekjanleikanúmer við löndun ef afladagbók var ekki skilað rétt og eins að menn hafi möguleika á að skila afladagbókum eftir á.“

Hann segir að gert hafi verið sérstakt átak í upphafi strandveiða í maí að leiðbeina sjómönnum. Stefnt sé að því að virkja alla sem fyrst, og verða möguleikarnir til frávika því smám saman þrengdir.

„Í fullkomnum heimi viljum við að öllum afladagbókum sé skilað áður en skráning löndunar hefst.“

Mjór er mikils vísir

„Við stefnum að því að rekjanleikanúmerið fylgi öllum okkar gögnum áfram í gegnum vinnsluferilinn.“ Það megi nota við útgáfu vottorða og sýna fram á sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar.

„Við sjáum þetta sem mjög mikilvægan þátt í framtíðinni.“

Fiskmarkaðir um heim allan séu að setja sífellt strangari reglur um uppruna sjávarafurða og því mikilvægt að geta staðið vel að allri upplýsingagjöf.

„Mjór er mikils vísir,“ sagði Þorsteinn.

Mælaborð í rauntíma

Óttar Erlingsson segir mælaborðið lengi hafa verið draumaverkefni hjá Fiskistofu. Með því fái notendur heimasíðu Fiskistofu möguleika til að sjá betur þær upplýsingar sem þar er að finna.

„Fiskistofa hefur lengi verið með mjög góðar upplýsingar á heimasíðunni en þær hafa ekki verið þannig að notendur geti lagað þær að sínum þörfum,“ sagði Óttar.

„Verkefnið gengur út á að við erum að opna gagnaveitu þar sem notandinn getur með auðveldum hætti kallað fram í rauntíma upplýsingar um sjávarútveg sem er sérsniðinn að hans þörfum. Við erum náttúrlega að vonast til þess að þetta nýtist öllum grúskurum og þeim sem vilja skoða upplýsingarnar okkar með rannsóknir eða nýsköpun í huga.“

Þetta segir hann hafa orðið mögulegt með því að setja bæði aflatölur og kvótatölur inn í mælaborðið, og stefnt sé að því að bæta þar inn gögnum smám saman.

„Forgangsverkefni okkar núna er að koma þessu þannig að það verði hægt að taka þessi gögn út úr mælaborðinu okkar þannig að notendur geti keyrt þetta í sínum eigin tölvum og nota til greiningar.“

Forskot á mörkuðum 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnaði kynninguna og sagði Fiskistofu hafa 

lagt mikið upp úr að „þróa stjórnsýsluna og birta ítarlegar upplýsingar á vef sínum.”

Í tengslum við Covid-faraldurinn hafi ráðuneytið ákveðið að styrkja sérstaklega tvö þessara þriggja verkefna, hafsjána og rekjanleikaverkefnið.

„Það segir sig sjálft að því betri sem upplýsingakerfi Fiskistofu eru,“ sagði hann, því betra verður eftirlit með nýtingu sjávarauðlindarinnar „sem gefur okkur ákveðið forskot umfram aðrar þjóðir á þessum mikilsverðu mörkuðum sem við erum að keppa á með okkar sjávarafurðir.“