mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekkert banaslys fjórða árið í röð

Guðjón Guðmundsson
21. febrúar 2021 kl. 13:00

Enginn sjómaður lést við störf á árinu 2020 og er það fjórða árið í röð sem svo háttar til. Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, fagnar þessari niðurstöðu.

Það sem skiptir sköpum í þessum frábæra árangri er aukin öryggisvitund sjómannanna sjálfra, áhersla útgerðanna á öryggismál en ekki síður starfsemi Slysavarnaskólans, uppfræðsla og þjálfun sem og nákvæmari veiðurspár, stóraukin öryggisvitind, öruggari skipafloti, öryggisbúnaður og öflugar bjargir.

Hilmar, sem hefur helgað sig forvarnamálum sjómanna, segir að í alþjóðlegum samanburði sé staðan góð á Íslandi. Einkar ánægjulegt sé að á síðasta ári fækki enn frekar slysum á sjó. Í gegnum tíðina hafa Íslendingar mátt sjá á eftir fjölda sjómanna sem hafa farist við störf sín. Mikil breyting hefur orðið á síðustu ár. Síðastliðin tíu ár eru banaslys á sjómönnum að meðaltali undir einum á hverju ár. Fjórir sjómenn fórust árið 2012 en frá árinu 2017 hafa ekki orðið banaslys til sjós hér við land.

Mikið dregur úr slysatíðni

Mikið dró úr slysatíðni sjómanna á síðasta ári. Skráð atvik hjá Rannsóknanefnd samgönguslysa voru í fyrra 93 talsins en voru 106 árið 2019 og 157 árið 2018. Stofnunin tók til rannsóknar 58 slys í fyrra. Tilkynnt atvik til Sjúkratrygginga Íslands voru samkvæmt bráðabirgðatölum 153 talsins en voru 172 árið 2019 og 204 árið 2018. Enn er mikið misræmi milli tilkynntra slysa til Rannsóknanefnar samgönguslysa og Sjúkratrygginga Íslands enda þótt skipstjórnendum sé skylt að tilkynna öll slys til nefndarinnar.

Hilmar segir að þessar tölur nái yfir alvarlega slys jafnt sem minni háttar áverka. Mikið frávik á skráningum slysa hjá Sjúkratryggingum Íslands og Rannsóknarnefnd samgönguslysa komi niður á rannsóknaþætti slsysa til sjós sem geti leitt til aukinna forvarna á þessu sviði.

Annað sem vekur athygli í uppgjöri síðastliðins árs er mikil fjölgun á drætti báta og skipa til hafnar. Að meðaltali voru dregnir 45 bátar og skip til hafnar á ári á árabilinu 2009-2019 og einungis 18 árið 2019. Í fyrra brá svo við að alls voru dregnir 80 bátar og skip dregin í land á árinu.

80 sjóför 

80 bátar og skip voru dregin til hafnar á síðasta ári sem er næstu tvöfalt fleiri tilvik  í samanburði við síðustu ár. Að meðaltali voru dregnir 45 bátar og skip til hafnar á ári á árabilinu 2009-2019 og einungis 18 árið 2019.

Stór hluti af þeim bátum sem dregnir eru að landi eru strandbátar. Samgöngustofu hefur tekið saman gátlista fyrir strandveiðar sem skiptist í fjóra þætti; búnað bátsins, fjarskipti, neyðar- og björgunarbúnað og fyrirbrottför.

Búnaður bátsins

Meðal atriða sem þarf að gæta að er hvort gróður hafi sest að í tönkum sem geti orsakað stíflu í olíukerfum og síum. Þetta gerist stundum eftir langt stopp. Hreinsa þarf eldsneytisolíukerfi, olíugeyma, lagnir go síur sérstaklega vel eftir langa legu báts. Athuga þarf hvort olíumælar sýni rétt eldsneytismagn. Ef eldsneytismælir er bilaður þarf að vera hægt að mæla handvirkt. Athuga þarf ástand rafgeyma og hvort lensidælur og lagnir frá þeim séu í lagi. Hafa þarf til vara olíu- og vatnssíur og reimar ásamt verkfærum til að skipta þessum hlutum út. Hafa þarf varabirgðir af smurolíu og gæta þess að landfestar og dráttartóg séu í góðu ásigkomulagi. Gæta þarf að ankeri séu til taks, aðgengileg og tilbúin til noktunar. Menn þurfa að vera vissir um að stýuri og neyðarstýri séu í lagi sem og siglingaljós.

Fjarskipti

Tryggja þarf að öll fjarskiptatæki séu í lagi sem og loftnet fyrir talstöð AIS og síma. Athuga þarf að AIS tækið sendi réttar upplýsingar um auðkenni báts og nafn. Gæta þarf þess að ef nafni og auðkenni báts hefur verið breytt að það sé uppfært í AIS.

Neyðar- og björgunarbúnaður

Losunarbúnaður björgunarbáta þarf að vera í góðu lagi og björgunarbúningar og -vesti aðgengi. Handslökkvitæki þrufa að vera aðgengileg og betra að hafa þau fleiri en færri um borð. Neyðarútgangar verða að vera hindurnarlausir og greiðfærir og tryggja þarf að neyðarstigi sé í lagi. Sjúkrakassi þarf að vera yfirfarinn og tryggja að neyðarblys og flugeldar séu um borð. Neyðarsendar þurfa að vera í lagi og vasaljós tiltæki.

Fyrir brottför

Athuga þarf að lögskráning sé samkvæmt reglum, trygging sé gild fyrir áhöfn og að réttindi og ryggisþekking skipverja sé í lagi. Athuga þarf veðurspá og tryggja að áhöfn sé vel úthvíld fyrir brottför. Gæta þarf að þekking á stjórnbúnaði báts og stöðugleika sé til staðar. Tryggja þarf að næg eldsneytisolía sé um borð og allur sjóbúnaður sé í lagi. Kveikja skal á AIS tæki fyrir brottför og tilkynna hana til strandstöðvar á rás VHF 09. Muna þarf að stilla talstöð á VHF 16 til að uppfylla skyldu um hlustvörslu. Klæðast skal „fleytibúnaði“ við vinnu á þolfari. Uppfært sjókort skal vera af svæðinu þar sem veiðar eru stundaðar.

Umfjöllunin var fyrst birt í Öryggisblaði Fiskifrétta þann 21. janúar síðastliðinn.