sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekkert bann við hvalveiðum

22. febrúar 2021 kl. 14:00

Hvalveiðar í atvinnuskyni hófust að nýju árið 2006 og hafa verið umdeildar. Mynd/HAG

Leyfilegur heildarafli á langreyði og hrefnu á árunum 2019 - 2023 skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Það má skilja af svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni um stórhvalaveiðar að bann við þeim veiðum á þessu ári komi ekki til greina. Svarið var birt á vef Alþingis nýlega.

Ágúst Ólafur beindi þessari fyrirspurn til ráðherra auk þess sem hann vildi vita hvort Hvalur hf. hafi orðið uppvís að brotum á reglum eða lögum sem lúta að hvalveiðum. Við því segir í svari ráðherra að „Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki upplýsingar um að viðkomandi leyfishafi hafi brotið gegn lögum eða reglugerðum sem lúta að hvalveiðum.“

Í skýringum við svari er lítur að banni við hvalveiðum er vísað til þingsályktunar um veiðarnar frá þingvetrinum 1998–1999, þar sem Alþingi ályktaði að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til.

Í viðauka við reglugerðina segir að leyfilegur heildarafli á langreyði og hrefnu á árunum 2019 - 2023 skuli nema þeim fjölda dýra sem kveðið sé á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.