miðvikudagur, 26. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fáir þorskar fengust fyrir loðnu

Guðsteinn Bjarnason
13. janúar 2022 kl. 13:00

Smábátaveiðar færa líf í byggðirnar umhverfis landið. MYND/HAG

Landssamband smábátaeigenda mótmælir skerðingu til strandveiða og til almenns byggðakvóta.

Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda furðar sig á  niðurstöðu skiptimarkaðar Fiskistofu í desember, þar sem 5,3% loðnukvótans voru boðin í skiptum fyrir þorsk.

Landssamband smábátaeigenda (LS) mótmælir harðlega ákvörðun um að skerða þorskveiðiheimildir til strandveiða og almenns byggðakvóta.

Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði 21. desember reglugerðarbreytingu sem felur í sér að til strandveiða næsta sumar verði heimiluð veiði á 8.500 tonnum af þorsk í staðinn fyrir 10.000 tonn, eins og ráð var fyrir gert í fyrri útgáfu reglugerðarinnar sem upphaflega tók gildi 12. ágúst síðastliðinn. Jafnframt var byggðakvóti lækkaður úr 4.500 tonnum í 3.626 tonn.

„Við erum búnir að funda með Svandísi um málið og bindum vonir við að þetta verði endurskoðað,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS. „Þetta er hlutur sem gengur ekki upp.“

Nýta hvert einasta kíló

Hann segir strandveiðimenn vera eina hópinn sem er að nýta hvert einasta kíló með veiðum, auk þess sem strandveiðarnar nýtist byggðum landsins fullkomlega.

„Þetta er besta byggðaaðgerð sem hefur verið farið í undanfarna tugi. Þannig að það sér það hver maður að þetta dugar ekki.“

Örn segir að ákvörðun um að lækka heimildirnar hafi líklega verið tekin „í geðshræringu“ eftir að niðurstaða úr skiptimarkaði Fiskistofu lá fyrir um miðjan desember.

Á markaðnum voru boðin 35.089 tonn af loðnu og fyrir það fengust 1.079 tonn af þorski, þannig að skiptahlutfallið var að meðaltali rétt rúmlega 0,03.

„Þetta er náttúrlega algerlega yfirgengilegt,“ segir Örn. „Við reiknuðum með að það fengjust alla vega svona 6 til 7 þúsund tonn úr þessum 35 þúsund tonnum af loðnu, en Fiskistofa lokar málinu á skiptimarkaðnum á rúmlega þúsund tonnum hafandi fyrir framan sig að þorskígildastuðull fyrir loðnu sé 0,36 sem hefðu gefið nærri 13 þúsund tonn“.

Fáir bjóða

Örn bendir þó á að fáar útgerðir stundi loðnuveiðar og bjóði í loðnukvóta.

„Ég er samt ekkert að segja að það hafa verið tekinn einhver Öskjuhlíðarrúntur á þetta,“ tekur hann fram.

Þau 35 þúsund loðnutonn sem þarna voru boðin til skipta fyrir þorsk eru þau 5,3% sem lögum samkvæmt voru tekin af leyfilegum hámarksafla íslenskra loðnuskipa á vertíðinni. Þessum tonnum á að verja til línuívilnunar og til strandveiða auk annarra ráðstafana til stuðnings byggðarlögum, og koma til viðbótar við þau 5,3% sem dregin voru af leyfilegum heildarafla í þorski.

Örn segir LS leggja áherslu á að 5,3% potturinn eigi að tryggja ívilnanir til línuveiða út allt fiskveiðiárið og strandveiðarnar í 48 daga hvert sumar. Það sem eftir stendur eigi að vera í formi byggðakvóta sem löndunarívilnun fyrir dagróðrabáta.