miðvikudagur, 28. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ferskur fiskur á disk Manhattan-búa

Guðjón Guðmundsson
26. september 2020 kl. 13:00

Gunnar Örlygsson (t.v.) og Ketill Helgason handsala samninginn. Mynd/gugu

Erik the Red og IceMar herja á New York og Kanada.

Fiskvinnslan Erik the Red Seafood ehf. í Reykjanesbæ og IceMar ehf. hafa gert með sér samkomulag um að síðarnefnda fyrirtækið selji ferskan fisk fiskvinnslunnar til Kanada og New York í Bandaríkjunum. Um er að ræða sölusamninga sem hlaupa á nokkur hundruð milljónum króna á ári.

Endanlegur kaupandi í New York er Fresh Direct sem er með verslun á netinu, gerir út 750 flutningabíla á Manhattan-svæðinu og dreifir ferskum mat beint á heimilin á Manhattan svæðinu. Þar reka þeir gríðarstóra vörugeymslu í New York en í sl 4 ár hefur IceMar sinnt Fresh Direct með úrvali af ferskum fiskafurðum frá Íslandi með flugi 3-4 sinnum í viku. IceMar mun einnig selja afurðir frá Erik the Red til dreifingaraðila sem þjónustar stórverslanir og veitingastaði víða í Kanada.

Ennfremur felur samkomulagið í sér framleiðslu og sölu á frystum afurðum í smásölupakkningum sem fara munu inn á  helstu verslunarkeðjur í Kanada.

Markaðir sem borga hátt verð

„Við höfum hannað þessa frystivöru saman sl. 2 ár og höfum sent nokkra gáma nú þegar inn á markaðinn. Viðtökurnar hafa verið góðar. Í næstu skrefum aukum við magnið og þar með vinnsluna og söluna. Þetta eru markaðir sem borga hátt verð,“ segir Gunnar Örlygsson, eigandi IceMar, sem jafnframt er hluthafi í fiskvinnslunni AG Seafood í Sandgerði en Arthur Galvez er meirihlutaeigandi félagsins og meðeigandi Gunnars. Arthur er jafnframt framkvæmdarstjóri AG Seafood sem sérhæfir sig í framleiðslu á frystum ýsu- og flatfiskafurðum, fyrirtækið var stofnað árið 2009.

Erik The Red og IceMar hafa verið í viðskiptum í þrjú ár og hefur það samstarf verið hnökralaust. Rætt er um að í byrjun verði um að ræða sölu á um 30 tonnum á mánuði inn á þessa markaði. Í frystu vörunni er um að ræða bita í neytendapakkningum úr þorski, ufsa, ýsu, steinbít, skarkola og bleikju.

 Örstutt frá flugvellinum

 „Það er eins og vinningur í happdrætti að eiga viðskipti við Erik the Red því fyrirtækið er staðsett við hlið alþjóðaflugvallarins. Varan fyrir markaðina í Bandaríkjunum og Kanada er því alltaf á réttum tíma á flugvellinum. Erik the Red er orðinn einn allra stærsti einstaki kaupandinn á fiskmörkuðunum og vinnslan er mjög öflug. Með því að kaupa afurðir fyrirtækisins tryggjum við afhendingaröryggið sem er mikilvægt í þessum viðskiptum. Auk þess er fyrirtækið með ferska og fallega vöru. Ólíkt mörgum stærri framleiðendum er vinnslan í gangi öllum stundum og sennilega er ekkert það hús á landinu sem sinnir ferska markaðnum betur en Erik the Red.“

Ketill Helgason, einn eigenda Erik the Red, segir IceMar ábyggilegan samstarfsaðila. Þetta sé góð viðbót við þann rekstur sem er fyrir hendi. Samkomulagið tryggi öruggar og hraðar greiðslur fyrir afurðirnar sem sé mikilvægt í þeim hraða heimi sem vinnsla og sala á ferskfiski er.

Aukning í Covid-19

Gunnar segir það gleðiefni að horfa til bæði AG Seafood og Erik The Red þar sem bæði félögin hafa aukið umsvif á erfiðum tíma vegna Covid veirunnar. Það segir eitthvað um þá menn, Ketil og Arthur, sem stýra sitt hvorri skútunni. Bæði félögin hafa gefið í, þó á móti hafi blásið. Félögin reka sjálfstæðar fiskvinnslur, kaupa hráefni sitt á fiskmörkuðum og eru til samans með yfir 100 manns í vinnu.

„Altént er AG Seafood að stækka um 30-40% á þessu ári. Ég held að það séu ekki mörg fyrirtæki í þeim sporum. En ástæðan fyrir þessu er sú að við höfum komist djúpt inn á markaðinn sem og aukið við tækjabúnað, rétt eins og Ketill hefur gert með sín félög. Það hefur hægst á veitingabransanum en við þurfum að vera í viðbragðsstöðu þegar hann tekur við sér á ný. Aukningin er mest í smásölu,“ segir Gunnar.

IceMar er fjögurra manna sölufyrirtæki á sjávarafurðum, stofnað árið 2003. Það kaupir afurðir frá góðum framleiðslufélögum vítt og breitt um landið og í traustu og góðu samstarfi við mjög öfluga viðskiptavini, bæði austan hafs og vestan. IceMar selur ein 4-5 þúsund tonn af ferskum og frystum afurðum á ári.