föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ferskur fiskur eins og hvert annað súrál

Guðjón Guðmundsson
27. desember 2020 kl. 09:00

Ketill er sjálfum sér samkvæmur. Hér heldur hann á frauðplastkassa með ferskum karfa sem flogið er í betri matvöruverslanir í París. Mynd/gugu

Ein af umsvifamestu sjálfstæðu fiskvinnslum landsins er Erik the Red Seafood í Keflavík. Þar stýrir öllu ferlinu Ketill Helgason.

Ferskur fiskur eins og hvert annað súrál

Ein af umsvifamestu sjálfstæðu fiskvinnslum landsins er Erik the Red Seafood í Keflavík. Þar stýrir öllu ferlinu Ketill Helgason. Hann hefur í mörg horn að líta; fiskvinnslan er á tveimur stöðum í Keflavík með samtals um 50 starfsmenn en auk þess er Ketill stöðugt í sambandi við kaupendur víða um heim og kaupir hráefni á fiskmörkuðum. Hann hefur líka ákveðnar skoðanir á því sem lýtur að útflutningi á óunnum fiski í gámum.

Ketill hélt um taumana hjá Rauða hernum svonefnda á Vestfjörðum seint á tíunda áratug síðustu aldar. Rauði herinn samanstóð af fyrirtækinu Rauðsíðu efh. á Þingeyri og dótturfélögunum Rauðfeldi á Bíldudal, Rauðhamri á Tálknafirði og Bolfiski í Bolungarvík. Fyrirtækin fóru i þrot 1999. Ketill fluttist til hafnarborgarinnar Dalian í Kína og stýrði þar vinnslu á uppþíddum fiski fyrir Bandaríkjamarkað og Evrópu í 12 ár.

Stál og hnífur

Ketill stofnaði Erik The Red með eigendum fyrirtækisins Stormur Seafood í Hafnarfirði árið 2014 í Hafnarfirði. Fyrirtækið fluttist til Keflavíkur í ársbyrjun 2018. Áhersla var á vinnslu á ferskum fisk; þorski, ýsu, ufsa og fleiri tegundum. Í byrjun voru 6-7 manns í vinnu og allt unnið í höndunum. Bara stál og hnífur. Fyrirtækið hefur vaxið á hverju ári. Um 25 manns vinna við ferskfiskvinnslu á Hafnargötu og annar eins fjöldi við frystingu í frystihúsinu í Bolafót. Í ferskfiskvinnslunni hefur tækjabúnaður aukist, þar á meðal kominn hausari og flakari frá Curio og afköstin hafa stóraukist.

Á þessu ári stefnir í að unnið verði úr 7.500 tonnum sem er að stærstum hluta keypt á markaði. Erik the Red er stærsti kaupandinn á íslenskum fiskmörkuðum sem fullvinnur hráefnið.

Íslenskt upprunavottorð á uppþíddan rússafisk

„Stærsti einstaki kaupandinn á innlendum fiskmörkuðum er gámaútflutnings fyrirtæki. Þessi útflutningur hefur aukist mikið á síðustu misserum en ekki verður mikill virðisauki eftir í landinu. Mér finnst að það eigi ekki að fara fiskur óunninn úr landi. Héðan eigi einungis að fara afurðir. Kaupendur erlendis eiga ekki að geta keypt íslenskar fiskafurðir annars staðar en á Íslandi. Menn eiga hvergi að geta keypt íslenskan fisk sem unninn er í öðru landi en á Íslandi. Ástæðan er sú að með því móti náum við að mæta samkeppni frá erlendum aðilum sem beita misjöfnum ráðum til þess að lækka verð á afurðunum. Erlendur aðili sem kaupir til dæmis 10 tonn af óunnum fiski frá Íslandi fær upprunavottorð um að þetta sé íslenskt hráefni. Ef brotavilji er fyrir hendi má auðveldlega nota þetta upprunavottorð á fisk frá Rússlandi eða annars staðar frá og jafnvel á uppþíddan fisk,“ segir Ketill sem þekkir dæmi þess að verslanir sem kaupa uppþíddan fisk geri þá kröfu að verkandinn skaffi þeim líka fisk með íslensku upprunavottorði.

„Þess vegna þurfa þessar erlendu vinnslur einnig að kaupa íslenskan fisk og kaupa hann óunninn. Leyfum þeim að hafa fyrir því , og kaupa þetta sem afurðir frá okkur. Með reglugerð sem tæki á þessum viðskiptum myndi verð á íslenskum sjávarafurðum hækka. Með því að senda hráefnið óunnið út erum við komnir í samkeppni við sjálfa okkur. Fiskurinn fer til Hollands og Þýskalands þar sem greiddar eru 7-8 evrur á tímann í laun. Hvernig eigum við að geta keppt við það? Við getum ekki keppt við það. Það eina sem við getum gert er að vinna allan fisk hérna heima. Kaupendurnir vilja fá íslenskan fisk en þeir eiga bara að geta fengið hann nema frá Íslandi í formi afurða,“ segir Ketill.

Tvö hátæknihús til að vinna gámafiskinn

Hann kveðst ekki viss um að þessi umfangsmikli gámaútflutningur hafi leitt til verðhækkana á innlendum mörkuðum, það sé erfitt að sjá það. Ketill segir að gámaútflutningurinn sé þó talinn nema um 50 þúsund tonnum á ári. Nýlega hafi verið opnað hátæknivinnsla á Dalvík sem kostaði með tækjabúnaði um sex milljarða króna. Þar verða unnin um 20  þúsund tonn á ári.

„Það væri hægt að reisa tvö svona hús á Íslandi með fjárfestingu upp á tólf millljarða og vinna allan þennan útflutta og óunna fisk í þessum tveimur húsum. Þetta yrði talsverð stóriðja og menn þyrftu þá ekki að sækja að vatnið yfir lækinn í leit sinni að stóriðjutækifærum. Samherji væri vart að reisa þetta fullkomna fiskiðjuver á Dalvík nema að fullvissa væri fyrir því að það verði rekið með hagnaði. Megnið af öllum þeim tækjum sem eru í nýja húsinu á Dalvík eru smíðuð á Íslandi. Þannig skapar húsið afleidd og verðmæt störf. Við eigum kvóta fyrir tvö hús af þessu tagi til viðbótar og þurfum ekki að flytja einn sporð inn. Markaðir taka fúslega við íslenskum sjávarafurðum gæðanna vegna,“ segir Ketill.

Ketill segir gámaútflutning á fiski varasaman að mörgu leyti og nefnir sem dæmi að hann hafi sett stórt fiskvinnsluhús á Íslandi á hausinn. Það hús hafi selt sínar afurðir til áratuga til ákveðinnar stórverslanakeðju erlendis. Skyndilega hafi dregið úr þessum viðskiptum og ástæðan var sú að stórverslanakeðjan hóf að kaupa óunninn fisk frá Íslandi og vinna hann sjálf erlendis. Fiskvinnslan hét Toppfiskur.

Íslenskur fiskur og japanskur kokkahnífur

„Við erum bara í samkeppni við sjálfa okkur. Ein af auðlindum Japans er stál sem kallast annars vegar „blue steel“ og hins vegar „white steel“. Úr þessu stáli eru gerðir heimsins bestu kokkahnífar. Í Japan eru lög sem kveða á um bann við útflutning á þessu stáli. Þeir vilja ekki að aðrir hafi aðgang að stálinu og geti hafið fjöldaframleiðslu á sams konar hnífum. Vissulega er hægt að kaupa litla stálbúta til þess að smíða einstaka hnífa en ekki það magn af stáli sem dugar fyrir iðnað. Ég vil að það verði sett reglugerð sem kveði á um að allur fiskur sem fluttur er út ferskur frá Íslandi sé pakkaður í frauðplastkassa. Bannað verði að flytja út fisk í 350 kg körum eins og hvert annað súrál fyrir iðnver í Hollandi, Þýskalandi, Bretlandi, Póllandi og fleiri löndum. Við lögðum Breta í Þorskastríðunum en þeir eru ennþá að taka af okkur ferskan fisk til þess að vinna sjálfir.“

Ketill segir að stjórnmálamenn ættu að sjá tækifærin sem liggja í þessu, bæði til sóknar og eins til að vernda íslenskan fiskiðnað.

„Virðisaukinn mun hlaupa á tugum milljarða króna. Þetta mun leiða af sér fjölgun starfa, beint og óbeint, þjónustufyrirtæki í tækniiðnaði, umbúðafyrirtæki, sölu- og markaðsfyrirtæki munu njóta góðs af.  Það myndu allir hagnast á þessu til lengri tíma litið, jafnvel „gámakarlarnir“ því þeir eru flestir ef ekki allir þrælklárir og yrðu fljótir að taka þátt í þessum breytingum og beina orkunni í þjóðhagslega hagvæman farveg.  Þetta er spurning um þjóðarhag , ekki afkomu nokkurra fyrirtækja,“ segir Ketill.