föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskurinn flýgur þrátt fyrir kórónu

Guðsteinn Bjarnason
23. desember 2020 kl. 09:00

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, segir „flugfiskinn“ eftirsótta vöru sem hafi heldur betur sannað sig á tímum heimsfaraldurs. MYND/Gígja Einarsdóttir

Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, bíður þess með óþreyju að heimsfaraldurinn klárist. Hann segir aðstæður til þess að fljúga héðan með fisk vera einstæðar á heimsvísu.

Þessa dagana fljúga tvær fraktvélar flestalla daga vikunnar á vegum Icelandair Cargo fram og til baka yfir Atlantshafið með íslenskan fisk á markað til neytenda. Flogið er til Boston í Bandaríkjunum og Liége í Belgíu.

„Það má orða það þannig að við drógum fraktvélarnar okkar tvær út úr bílskúrnum og settum þær í flug allan sólarhringinn meira og minna,“ segir Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.

Áður en kórónuveirufaraldur skall á gegndu fraktvélarnar ekki neinu aðalhlutverki í þessum útflutningsgeira, heldur farþegavélar félagsins sem voru með nokkuð þéttriðið net áfangastaða beggja vegna hafsins. Langstærsti hluti útflutnings var fluttur um borð í farþegakerfinu fyrir COVID faraldurinn, þannig vandinn var gríðarlegur þegar farþegakerfið fór niður um 95% á örskömmum tíma.

Með því að auka fraktflugið og reyna að bæta upp það framboð með þeim sem hvarf þegar farþegaflugið datt niður tókst að halda fisknum inni á markaði, sem Gunnar segir gríðarlega mikilvægt.

„Þetta er auðvitað dýrari lausn, en við ætlum okkur í framtíðinni að færa þessi flug aftur inn í þetta hefðbundnara umhverfi sem er hagkvæmara fyrir okkur og þá sem kaupa þjónustuna.“

Hann segist bíða óþreyjufullur eftir því að covid klárist og ástandið komist aftur í eðlilegt horf.

„Við erum að fljúga tveimur fraktvélum núna, en þegar allt er eðlilegt þá erum við að flytja 70% af fiskinum í leiðakerfinu hjá Icelandair. Það er bæði hagkvæmt kostnaðarlega og býður líka upp á meiri dýpt inn á markaðinn. Við getum flutt vöruna á mjög skömmum tíma langt inn í land í Bandaríkjunum og þess vegna í Evrópu ef að markaðir eru til staðar, þannig að dreifingin getur verið mjög mikil.“

Með þessu hafi tekist að halda vörunni inni á markaði, betur en samkeppnisaðilum íslenska flugsins í Norður-Ameríku hafi tekist.

„Við höfum náð að halda okkur inni á markaði sem hefur verið að þjást vegna þess að flutningskerfið fyrir ferskvöru frá Evrópu til Ameríku, það eiginlega bara hvarf, hrundi. Eins og við vitum er það ekki bara Icelandair sem er að þjást út af covid, það eru öll flugfélög. Þannig að framboðið frá Norður-Atlantshafinu hefur bara hrunið, þannig að markaðurinn er gjörbreyttur og aðgengið að honum allt annað.“

Menn mættu bara

Þó nokkrir áratugir eru liðnir síðan flugfélög hér á landi tóku fyrst að þreifa fyrir sér með að flytja fisk frá Keflavík til Bandaríkjanna og Evrópu.

„Þetta byrjaði í raun og veru þannig að menn fóru að nýta pláss í vélunum sem var verið að fljúga hvort eð er til Bandaríkjanna og Evrópu. Menn mættu bara með fiskinn út í Keflavík og sagan segir að þeir hafi bara sjálfir hent honum um borð, hvað sem til er nú í því. Þetta var allt miklu tilviljanakenndara en síðan smá þróaðist þetta. Þetta varð aldrei neitt fyrir alvöru fyrr en fyrir svona 15-20 árum,“ segir Gunnar Már.

„Þarna í upphafi kom varan kannski í misjöfnu ástandi. Pakkningarnar og annað voru ekki að styðja við þessa vöru eins og það gerir í dag.“.

Hann segir Icelandair Cargo hafa lagt mikla vinnu í að tryggja gæði vörunnar með réttri kælingu og vönduðum umbúðum. Þetta hefur verið gert í samvinnu við útflytjendur, umbúðaframleiðendur, Matís og fleiri. Flutningskerfið hafi smám saman verið þróað þannig að gæði fisksins séu tryggð alla leið til kaupenda.

„Þannig að varan er mjög fersk þegar hún kemur að landi. Hún er unnin hratt og síðan er leiðin stutt út á flugvöll. Þaðan kemur varan yfirleitt um hádegisbilið og fer svo til Evrópu eða Ameríku þegar allt er eðlilegt að kvöldi til. Hún er komin til þeirra sem kaupa fiskinn einhvern tímann þegar líður á morguninn og er kominn í dreifingu yfirleitt fyrir hádegi. Þannig að tæknilega getur hún verið komin á borð neytanda í Ameríku eða Evrópu um kvöldið daginn eftir, eða 36 til 48 tímum eftir að hún er veidd.“

Þarna segir hann skipta máli að t.d. í Bandaríkjunum sé siglingin frá sumum miðum til lands löng, jafnvel 2-3 sólahringar og því varan mun lengur á leiðinni til lands en fiskurinn frá Íslandi, „þannig að ekki einu sinni local-fiskurinn er svona ferskur. Tala nú ekki um ef þú ferð lengra inn í land.“

Dýrasti fiskurinn

Fiskurinn sem fluttur er flugleiðis héðan er allt ferskur fiskur, og mest þorskhnakkar.

„Þetta er auðvitað dýrasti hlutinn, hnakkarnir, og þessi flutningur er dýr. En hann er dýr af því að hann býr til gæðin. Neytendur eru tilbúið að borga fyrir hærra verð bestu bitana ef gæðin eru í lagi.“

Hann segir að nú orðið sé mikið lagt upp úr því að kælikeðjan haldi alla leið.

„Við erum að flytja vöruna inn í umhverfi sem getur verið heitt þegar vélin lendir og það þarf að taka út fiskinn og setja hann inn í vöruhús og annað. Við auðvitað stjórnum ekki ferlinu á erlendu stöðvunum.“

Icelandair Cargo hefur, í samvinnu við Matís og Sjávarklasann og fleiri, gert miklar rannsóknir á því hvernig best sé að fara með fiskinn svo hann þoli flutninginn, hvernig best sé að pakka honum og hverju þurfi að gæta að.

„Við erum búnir að fara yfir það með viðskiptavinum okkar og þeir auðvitað tekið þátt í því. Ef fiskurinn er rétt kældur, þannig að hann sé í kringum núll gráðurnar, og pakkað í þessar umbúðir sem við höfum lagt áherslur á, að gelmotta sé til og allt það, þá þolir hann þennan flutning mjög vel. Þá hafa hitasveiflur lítil áhrif á flutninginn. Nema auðvitað ef fiskurinn gleymist úti á hlaði til dæmis í langan tíma. Þá auðvitað segir það sig sjálft að hann þolir það ekki. En það er ekki venjulegur hluti af ferlinu og kemur sem betur fer afar sjaldan fyrir. En ef ferlið er eins og það á að vera þá hefur þessi hitabreyting lítil sem engin áhrif á hann.“

Gríðarlegt forskot

„Þetta er það sem við sérhæfum okkur í og stöndum svolítið fyrir,“ segir Gunnar og er stoltur af því að tekist hafi að byggja upp flutningskerfi „sem styður svona vel við íslenskan sjávarútveg. Að geta aðgreint sig frá öðrum vörum sem eru í samkeppni á markaðnum í gæðum er auðvitað gríðarlegt forskot. Við viljum taka þátt í því að það sé hægt, og til þess að það sé hægt þarf að vera með skothelda keðju sem heldur alla leið hvað sem á dynur, og áreiðanlega.“

Hann segir áreiðanleika vera langmikilvægasta þáttinn í þessum viðskiptum.

„Þú getur ekki verið með þetta bara stundum og stundum ekki. Flóknasti hluturinn í að byggja upp svona leiðakerfi er kannski einmitt sá að byggja það upp jafnt og þétt þannig að þú getir afhent lítið magn á hverjum degi allt árið í kring. Þess vegna höfum við lagt svona mikla áherslu á að nota farþega leiðakerfið af því þá erum við ekki háðir því að vera með fulla fraktvél. Í fraktvélinni þarf að vera með 30 tonn af hnökkum til þess að geta flogið ferðina, en þegar notast er við farþegaflugið er í raun ekkert lágmark af því þú ert með aðra sem búa til tekjur af fluginu.“

Sannar sig í faraldri

„Nú er þetta orðin vara sem er mjög eftirsótt á ákveðnum mörkuðum, hefur þróast og þroskast mjög vel og býður upp á tækifæri sem fáir hafa,“ segir Gunnar Már.

„Þetta er alla vega sífellt stærri hluti af þessum útflutningi og núna í covid-tímanum hefur það sannað sig sem mjög stöðugur bisness, kannski öllum að óvörum.“

Hann segir ástæðu þess vera þríþætta. Stutt er á miðin við Ísland, fjarlægðir milli fiskvinnslu og flugvallarins eru stuttar, að minnsta kosti í samanburði við það sem þekkist víða erlendis, og svo er það leiðakerfi Icelandair sem Gunnar Már segir einstakt í sinni röð.

Gæðavara þolir hærra verð

Gunnar nefnir að kolefnisfótspor fiskútflutnings sé minna þegar flogið er með fiskinn heldur en þegar farnar eru aðrar leiðir.

„Við fengum Sjávarklasann til að gera rannsókn á þessu fyrir okkur, og það kom okkur á óvart að fótsporið var minna fyrir neytendur í Evrópu að taka íslenskan fisk í flugi heldur en að flytja norskan fisk frá Noregi. Ástæðan er sú að ferlið allt, frá veiðum og yfir í búðarborðið, er umhverfisvænna af því að það er stutt á miðin hér og fiskurinn fer að langmestu leyti í farþegaflugi sem er hvort eð er verið að fljúga. Kolefnissporið dreifist þannig á marga, og af því hann flýgur djúpt inn á markaðinn þá er stutt fyrir trukkinn að fara. Svo er fiskur líka með lítið fótspor í samanburði við önnur prótein sem eru í boði í verslunum út um allan heim, kjötvöru og annað.

Hann segir hagkvæmni fyrir þjóðarbúið einnig ótvíræða.

„Þetta er auðvitað unnin vara, og ég held að það sé ákveðið tap í því fyrir útveginn að senda vörur á markað óunnar, sem jafnvel eru settar þá inn á markað sem ekki einu sinni íslenskar. Það verða aldrei sömu gæðin. Ég veit ekki á hvaða forsendum menn gera það, en við erum að búa til premium vöru og hún þarf að vera í sem bestu ástandi þegar hún kemur inn á markaðinn. Þá skiptir minna máli að varan kosti meira fyrir neytendur heldur en ef þú ferð bara ódýrustu leiðina.“

Hann segir að í framtíðinni verði lögð æ meiri áhersla á gæði vörunnar og verðlagning verði í samræmi við það.

„Sem þýðir að jafnvel þótt við séum með dýrari mannafla sem vinnur vöruna, og jafnvel þó við séum með óhagstæða krónu sem gerist annað slagið, þá eigum við að þola það. Og því sérhæfðari sem varan er því meiri líkur eru á að við þolum einhverjar sveiflur og þolum meiri kostnað en þeir sem við erum að keppa við. Ég tala nú ekki um ef við færum í almennilegt markaðsstarf og reyndum að búa þessari vöru til brand, almennilegt vörumerki á markaðnum. Við höfum að mínu mati ekki gert það vel og getum gert miklu betur. Þá værum við í stöðu til að geta varið meiri kostnað alltaf, vegna þess að neytendur eru tilbúnir til að borga fyrir það sem stendur upp úr.“

Mest í miðri viku

Gunnar segir stærsta vandamálið kannski hafa verið það að flugplássið er jafnan takmarkað.

„Við erum háðir farþegafluginu, en það líka snýr að því að allir vilja fara á sama degi, og það gengur auðvitað ekki upp.“

Mesta eftirspurnin sé eftir því að fá pláss í miðri viku, á miðvikudögum eða fimmtudögum.

„Það er ekki þar með sagt enginn vilji hina dagana. En það er mikill þrýstingur á þessa daga og svo aðeins minni á aðra daga.“

Þetta segir hann ráðast af smásölunni erlendis, þar sé fólk meira að kaupa sér fisk á fimmtudögum og föstudögum heldur en til dæmis á þriðjudögum.

„En það er ágætis dreifing á þessu núna. Styrkleikurinn í þessu ferli er að geta boðið vöruna á hverjum degi jafnt og þétt, en svo eru auðvitað sumir dagar vikunnar er meiri eftirspurn eins og gengur og gerist, eftir því hvernig kauphegðun neytenda er hverju sinni á markaðnum.“

Gunnar Már segir sum fyrirtæki sérhæfa sig í flugfisknum og nefnir, Iceland Seafood, Danica og Bacco sem dæmi um íslensk fiskútflutningsfyrirtæki sem nýta sér flugið mikið.

„Þessi fyrirtæki kaupa yfirleitt fisk af framleiðendum og selja hann. Eric the Red hefur líka verið vaxandi í þessu. Þeim fjölgar sem vilja fara þessa leið.“

Minni fyrirtæki af ýmsu tagi nýta sér einnig flugið og Gunnar Már segir vel tekið á móti öllum. Kaupendur vörunnar úti eru síðan dreifingarfyrirtæki sem þjóna bæði veitingastöðum og verslanakeðjum.

„Við reynum að gera það sem við getum til þess að koma fiskinum á markað. Við lítum á þetta sem stórkostleg tækifæri vegna þess að það er enginn sem getur í raun keppt við gæðin í ferskleikanum,“ segir Gunnar.

„Og það er út af þessu einstaka leiðakerfi sem er til staðar þegar allt er eðlilegt, og þessari nálægð við miðin ásamt nálægð vinnslunnar við flugvöllinn. Þetta er bara einstakt. Þetta er hvergi svona. Þetta saman gerir þessa afurð gríðarsterka.“

Smásalan jókst á móti

Þegar heimsfaraldurinn skall á riðlaðist hins vegar allt leiðakerfi farþegaflugsins.

„Já, það nú eiginlega bara hvarf.“

Gunnar segir eftirspurn frá veitingastöðum hafa gefið töluvert eftir á covid-tímum, en á móti hefur smásalan verið sterkari en fyrirfram hefði mátt búast við.

„Í raun og veru höfum við séð aukningu í smásölu. Bandaríkjamegin hefur magnið haldist ótrúlega vel og Evrópa hefur verið að koma sterkt inn aftur eftir að hafa dottið aðeins niður fyrst í covid. Hún hefur verið að koma sterkt inn aftur og hefur verið fín síðustu mánuði. Ég get alveg fullyrt að okkur finnst við vera að sjá betri niðurstöðu en við þorðum að vona í upphafi.“

Almenningur hafi því greinilega verið að kaupa frekar fisk í búð frekar en á veitingastöðum.

„Já, veitingabransinn eiginlega þurrkaðist út á tímabili. Hann er aðeins að koma til baka þó hann sé ekki svipur hjá sjón, en hann á eftir að koma og þá auðvitað þurfum við að vera tilbúin. Í búðunum hafa svo verið betri heimtur en við kannski þorðum að vona.“

Fraktvélar Icelandair Cargo hafa undanfarna mánuði flogið nánast daglega fram og til baka yfir hafið, með viðkomu í Keflavík til að flytja fisk til Bandaríkjanna og Evrópu. MYND/Hildur María Jónsdóttir

Umfjöllunin birtist fyrst í Tímariti Fiskifrétta.