þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjárfesting fyrir allt að fjóra milljarða

Guðjón Guðmundsson
9. maí 2021 kl. 09:00

Halldór Halldórsson hefur veitt Íslenska kalkþörungafélaginu forstöðu síðan um mitt ár 2018. Aðsend mynd

Íslenska kalkþörungafélagið fær leyfi til nýtingar í Ísafjarðardjúpi.

Orkustofnun hefur veitt Íslenska kalkþörungafélaginu hf. leyfi til nýtingar á kalkþörungaseti á hafsbotni í Ísafjarðardjúpi. Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir þetta talsverð tímamót því strax árið 2014 undirritaði félagið viljayfirlýsingu um kalkþörunganám og byggingu verksmiðju við Súðavíkurhrepp.

Djúpkalk er vinnuheiti verkefnisins. Það, eins og Íslenska kalkþörungafélagið, er í eigu Celtic Sea Minerals/Marigot á Cork á Írlandi. Fyrirtækið hefur frá árinu 1991 sérhæft sig í þróun, framleiðslu og markaðssetningu á náttúrulegu lífrænu dýrafóðri, fæðubótarefnum, gróðuráburði og hráefni til vatnshreinsunar og matvælaiðnaðar úr kalkþörungum úr hafinu við strendur Írlands. Félagið annast markaðssetningu og sölu afurða Kalkþörungafélagsins og svo verður einnig um afurðir Djúpkalks.

Fréttavefurinn www.bb.is sagði fyrstur frá.

Landfylling og bryggja

Í viljayfirlýsingunni frá 2014 sagði að stefnt yrði að því að hefja vinnslu árið 2018 og segir Halldór þetta til marks um hve tímafrekt ferli af þessu tagi sé. Nú sé stefnt að því að vinnsla geti hafist haustið 2025.

„Nú höfum við leyfið sem er lykillinn að næstu skrefum. Næsta skref eru samningar við Súðavíkurhrepp. Þar á eftir hefst vinna við landfyllingu og bryggju og í framhaldinu verður sótt um leyfi fyrir starfsrækslu verksmiðjunnar til Umhverfisstofnunar.  Miðað við okkar reynslu gæti það ferli verið talsvert tímafrekt. Í kjölfar þess þurfum við að fá raforku flutta inn á svæðið með nýjum streng sem kæmi frá Ísafirði.   Verksmiðjan hefur ekki verið hönnuð nema í grófum dráttum. Kostnaðarmat okkar hluta hefur alltaf verið í námunda við þrjá milljarða króna,” segir Halldór.

Þá er ótalinn kostnaður við landfyllingar og bryggjusmíðina sem talinn er geta verið nálægt hálfur milljarður. Ráðgert er að bryggjan verði innanvert við Langeyri í Súðavík. Heildarkostnaður við verkefnið yrði því á bilinu 3,5-4 milljarðar króna. Ríki og sveitarfélag stæðu straum af kostnaði við landfyllingu og bryggjugerð en fengju kostnaðinn til baka með gjöldum og skyldum fyrirtækisins.

Raforka eða gas

Halldór segir að vonir séu nú bundnar við það að bygging verksmiðjunnar sjálfrar geti hafist ekki síðar en eftir eitt ár. Horft er til þess að verksmiðjan verði rafknúin en orkuflutningsgeta til Súðavíkur er ekki fyrir hendi. Raforkuþörf verksmiðjunnar undir fullum afköstum verður um 10 megavött.

„Núna er flutningsgetan eitt megavatt eftir lélegri tréstauralínu yfir fjall í 500 metra hæð og hún á það til að slitna í vetrarveðrum. Við höfum verið í viðræðum við Landsnet og Orkubú Vestfjarða í mörg ár en það hefur ekkert gerst í þessum efnum. Það eru tvær leiðir í stöðunni; annað hvort að setja upp nýja línu á staurum yfir fjallið eða leggja jarðstreng meðfram veginum frá Ísafirði út Skutulsfjörð og inn Álftafjörð. En verði ekki gerð bragarbót á raforkuflutningi til Súðavíkur neyðumst við til þess að keyra verksmiðjuna á gasi. Þótt undarlegt megi virðast yrði orkukostnaður svipaður enda hefur raforka hækkað talsvert innanlands. Við eigum auðveldlega að geta keyrt verksmiðjuna á innlendri orku en það þarf þá að huga að grunngerðinni og við lítum svo á að það sé hlutverk Landsnets. Vestfirðir eru alveg sérlega illa settir hvað varðar lélegt raforkukerfi. Hér hefur fjöldi atvinnutækifæra farið í vaskinn vegna þessa," segir Halldór.

30 manns starfa í verksmiðju Kalkþörungafélags Íslands á Bíldudal þar sem framleiðslugetan er 120.000 tonn á  ári. Gert  er ráð fyrir að svipaður fjöldi starfi í verksmiðjunni í Súðavík þegar rekstur hefst. Um yrði að ræða tvöföldun á framleiðslugetu og markaðirnir fyrir afurðirnar eru góðir.

Í skýrslu sem KPMG vann fyrir sveitarfélagið um hagrænan ávinning af kalkþörungaverksmiðju á Súðavík, segir m.a. að sköpun hátt í þrjátíu starfa undir fullum afköstum verksmiðjunnar geti leitt til þess að nálega 90 manns muni að einhverju leyti hafa lífsviðurværi sitt af starfseminni.

„Þá áætlar KPMG að árlegar greiðslur til ríkissjóðs geti numið um 65 milljónum króna og að sveitarfélögin muni hafa um 89 milljónir króna í tekjur þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf orðin til. Jafnframt gerir KPMG ráð fyrir að á sama tíma verði greiðslur til Súðavíkurhrepps vegna hafnargjalda og annarra gjalda um 56 milljónir króna á ári.,“ segir m.a. í skýrslunni sem kynnt var íbúum á fundi árið 2017.

Kalkþörungar myndast úr plöntum sem kalkgerast á sjávarbotni þegar þær drepast. Þeir eru ekki óþrjótandi auðlind frekar en annað í náttúrunni.

„Við höfum sótt kalkþörunga í Arnarfjörð frá árinu 2005 og höfum líklega tekið 5-6% af magninu sem þar er á okkar skilgreindu svæðum. Við Ísland er talið að séu um 600 milljónir rúmmetra af kalkþörungum. Við höfum leyfi til þess að taka 2,5 millljónir rúmmetra í Arnarfirði fram til ársins 2033 svo það er ekki gengið hart fram gagnvart náttúrunni," segir Halldór.