þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flöskuháls í vinnslunni

Guðjón Guðmundsson
22. apríl 2022 kl. 14:00

Baldvin Njálsson GK er nýjasta viðbótin í fiskiskipaflota Íslendinga og hér á veiðum fyrir skemmstu. Mynd/Bergþór Gunnlaugsson

Met í aflaverðmætum í síðasta túr Baldvins Njálssonar GK.

Nýr Baldvin Njálsson GK gerði góðan túr í lok síðasta mánaðar. Ágætlega fiskaðist en ákveðinn flöskuháls var í vinnslu skipsins í þessum fyrsta heila túr eftir að skipið kom nýtt til landsins frá Spáni. Verð eru í hæstu hæðum og áhöfnin skilaði því meti í aflaverðmætum. Hásetahluturinn var tæpar fjórar milljónir króna.

„Það þurfti 850-900 tonn í fyrra til að ná 300 milljónum króna. Við vorum með um 620 tonn upp úr sjó núna en það gerði samt 385 milljónir króna,“ sagði Arnar Óskarsson sem var skipstjóri í túrnum.

Arnar segir að þetta hafi verið talsvert undir getu og túrinn hefði auðveldlega átt að skila um 900 tonnum upp úr sjó. Þetta sé þó allt á réttri leið. Flöskuhálsinn er sem fyrr segir vinnslan og trollið var ekki ósjaldan uppi í sjó fullt af stórum vertíðarfisk sem beið þess að verða unninn. Arnar segir að mikinn vinnslubúnað í skipinu og þótt ekki hafi komið upp bilanir þurfi að fínstilla hlutina og beinlínis bara læra á tækin.

„En þetta gengur alltaf betur og betur og það sem tók okkur hálftíma að laga fyrir mánuði tekur okkur mun skemmri tíma núna. Veðrið hafði líka lagast en tíðin síðasta vetur er búin að vera hryllileg. Það gerði fimm daga brælu á suðvesturmiðum svo við fórum bara norður fyrir land meðan það gekk yfir. Á leiðinni suður aftur átti varla að vera hægt að sigla í þessu veðri. En þetta er stórt skip og gríðarlega gott sjóskip,“ segir Arnar.

Hann segir mikla breytingu samfara vinnslubúnaðinum öllum. Þegar hann gengur eins og klukka eins og hann á að gera dregur mjög úr vinnuálagi á alla.

Furðulega lítill kvóti

„Þetta er reyndar búin að vera dálítið sérstök vertíð. Fiskurinn er að skila sér á vertíðarsvæðinu en mér finnst þetta samt máttlausari vertíð en oft áður. Það er ekki þessi mokveiði fyrir innan línu á Selvogsbankanum sem oft hefur verið á minni bátunum. Þetta er eitthvað öðruvísi núna. Við höfum verið að leggja okkur eftir ufsa og fengum um 200 tonn í síðasta túr. Það finna allir fyrir skerðingunni í þorskinum og ýsukvótinn er furðulega lítill en það er nægur kvóti í ufsa. Svo er það karfinn. Melsekkurinn hefur varla verið snertur í fjögur eða fimm ár. Þarna lá næstum allur flotinn alltaf í mikilli karfaveiði en nú getur enginn snert á þessu vegna kvótaleysis. Menn þurfa bara að dýfa niður í tíu mínútur til þess að fá tólf tonn eða þaðan af meira. Það er algjörlega galið hve ýsu- og karfakvótarnir eru litlir.“

  • Arnar Óskarsson, skipstjóri.

Arnar segir menn hafi aldrei séð önnur eins fiskverð og núna. Það hafði orðið mikil verðhækkun fyrir innrásina í Úkraínu og síðan hafi verðið hækkað enn frekar. Eftirspurnin er mikil og framboðið minna. Skerðingar eru á þorskkvótum í Barentshafi og hérna heima og auðvitað muni um allan Rússafiskinn sem lýtur innflutningstakmörkunum. Þetta eigi ekki einungis við um þorsk heldur hafi orðið hækkun á nánast öllum bolfisktegundum.

Þorsteinn Eyjólfsson og hans áhöfn tóku svo við skipinu í byrjun mánaðarins og eftir fyrstu vikuna voru aflaverðmætin komin upp í ríflega 100 milljónir króna. Það er því ljóst að menn eru að ná tökum á tækninni og bjart framundan í útgerð Baldvins Njálssonar.