miðvikudagur, 12. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á flótta undan gullkarfa og ýsu

15. apríl 2021 kl. 13:00

Helga María AK. Mynd/Brim

Helga María AK kom til löndunar í Reykjavík sl. mánudag og var aflinn um 130 tonn.

Ísfisktogarinn Helga María AK er nú staddur á Eldeyjarbankanum í þokkalegri veiði að sögn Friðleifs Einarssonar, skipstjóra, í viðtali við heimasíðu Brim. Yfirstandandi túr verður stuttur, að sögn Leifs, eða aðeins tæpir þrír sólarhringar á veiðum. Helga María fór frá Reykjavík að morgni þriðjudags og á að vera komin til hafnar á föstudaginn.

„Við byrjuðum þann túr hér syðra eða á Fjöllunum. Nóg var af gullkarfa að vanda en frekar lítið af ufsa. Þegar við vorum búnir að veiða karfaskammt veiðiferðarinnar hröktumst við í burtu en það kom í ljós að við vorum aðeins of snemma á ferðinni því við vorum ekki fyrr farnir en að það brast á mokveiði af ufsa,” segir Leifur en í máli hans kemur fram að að skortur á kvóta í bæði gullkarfa og ýsu sé farinn að stjórna úthaldi skipanna.

„Við flúðum norður á Vestfjarðamið. Byrjuðum í kantinum út af Patreksfirði, fórum svo í Víkurálinn og enduðum loks á Straumnesbanka. Við fengum dálítið af karfa til að byrja með en engan ufsa. Í lokin náðum við svo í þorsk á Straumnesbankanum.”

Leifur segir að sumir hafi lent í vandræðum með hafís á Vestfjarðamiðum en syðra séu það lokanirnar vegna hrygningarþorsks sem séu vandamálið.

„Mig minnir að lokunarlínan sé dregin um 63°10´norður og nær landi komust við ekki. Það hefur verið einhver veiði suðvestast við línuna og flotinn er þar,” segir Friðleifur.