þriðjudagur, 1. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiða úr um 1.200 tonnum

Guðjón Guðmundsson
1. nóvember 2020 kl. 13:00

Von hefur starfrækt harðfiskverkun í Hafnarfirði frá árinu 2002. Aðsend mynd

Crunchy Fish hollustusnakk að ná útbreiðslu á markaðnum

Von harðfiskverkun í Hafnarfirði hefur sett á markað nýtt vörumerki, Crunchy Fish, sem hefur fengið góðar viðtökur meðal líkamsræktar- og útvistarfólks. Um er að ræða harðfisk í bitum og skífum í handhægum pakkningum

„Með þessum pakkningum höfðum við til yngri kaupenda og fólks sem hugsar um heilsuna og er mikið á ferðinni. Varan er einstök að því leyti að hún er afar próteinrík. Hver poki inniheldur um 35 grömm af harðfiski sem inniheldur 30 grömm af próteini. Meðal einstaklingur þarf á bilinu 40-60 grömm af próteini á dag þannig að hver poki fer nálægt því að uppfylla dagsþörfina. Varan er einnig mjög rík af b-12 vítamínum. Þetta er því gott hollustusnakk,“ segir Jóhannes Egilsson, framkvæmdastjóri Vonar harðfiskverkunar.

Stefnt á erlendan markað

Von hefur starfrækt harðfiskverkun í Hafnarfirði frá árinu 2002 en vörumerkið Crunchy Fish  var kynnt síðastliðið vor. Það er nú komið í sölu í helstu stórmörkuðum, eins og Krónunni, Hagkaup og Nettó auk þess sem það fæst í ákveðnum líkamsræktarstöðvum.

Varan fæst í tveimur tegundum. Annars vegar í þunnum skífum sem eru lyktarlitlar miðað við harðfisk og hins vegar í bitum sem eru með annarri áferð og öðruvísi undir tönn. Hvort tveggja er unnið úr íslenskum þorski.

Öll framleiðslan er í Hafnarfirði. Unninn er harðfiskur úr 1.000-1.200 tonnum af þorski upp úr sjó á ári. Úr einu kílói af fiski fást 100 grömm af harðfiski sem skýrir verðlagninguna á harðfiski sem í huga margra þykir hátt.

„Við erum dálítið að nota íslenska markaðinn sem próf fyrir útrás á erlenda markaði. Okkar markmið er að koma vörunni á markað erlendis þar sem er mikil eftirspurn eftir hollustusnakk. Það er þolinmæðisverk að setja nýtt vörumerki á markaðinn og við gerum okkur grein fyrir því að við sigrum ekki heiminn á einni nóttu. En við teljum þessa vöru eiga talsverða möguleika jafnt innanlands sem erlendis,“ segir Jóhannes.