laugardagur, 5. desember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framleiðsla gæti hafist næsta sumar

Guðjón Guðmundsson
9. nóvember 2020 kl. 07:00

Unnt verður að framleiða í kringum 1.500 tonn af afurðum, ef allt gengur eftir. Aðsend mynd

Íslandsþari fengið lóð sunnan Húsavíkur

Íslandsþari ehf. hefur fengið úthlutað lóð sunnan Húsavíkur á iðnaðarsvæði þar sem jarðvarmi frá Hveravöllum er leiddur til bæjarins. Fyrirtækið ráðgerir að afla stórþara úti fyrir Norðurlandi, þurrka hann með jarðvarma og vinna úr honum meðal annars alginöt sem er eftirsótt vara í lyfja- og matvælaiðnaði.

„Við erum ásamt Íslenskum verðbréfum í viðræðum við fjárfesta og við vonumst til þess að það verði fréttir af þeim viðræðum undir lok nóvember. Áætlaður kostnaður fyrir heildarverkefnið er 2,5 milljarðar króna og planið er að vinna að fjármögnuninni í áföngum,“ segir Snæbjörn Sigurðarson verkefnisstjóri.

Á fyrstu stigum eru viðræður við fjölbreyttan hóp fjárfesta sem tengjast m.a. sjávarútvegi. Á seinni stigum er til skoðunar að ræða við stærri fagfjárfesta og jafnvel lífeyrissjóði.

Rannsóknir eru undirstaðan

Snæbjörn segir mikinn áhuga á verkefninu og margir sem fylgjast með framgangi þess. Tvö síðastliðin sumur hafa verið gerðir út rannsóknaleiðangrar í samstarfi við Hafrannsóknastofun. Í þeim hefur meðal annars verið lagt mat á magn og þéttleika stórþarans við Norðurland. Stórþarinn vex almennt á klapparbotni á um 5-25 metra dýpi. Landgrunnið úti fyrir Norðurlandi er því ákjósanlegur staður til slíkrar vinnslu. Stórþarinn er ekki sleginn heldur er kambur dreginn í gegnum þaraskóginn sem grípur elstu plönturnar en skilur þær yngri eftir. Eftirtekjan er um fjórðungur af massanum sem kamburinn fer í gegnum.

90 störf gætu orðið til

Íslandsþari hefur verið í góðu sambandi við Norðurþing og atvinnuþróunararm Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og notið stuðnings þeirra við undirbúning verkefnisins.

„Ég tel að verkefnið muni leiða af sér góð störf og fjölbreytt, jafnt almennt störf og sérfræðistörf sem auðvitað mættu vera fleiri á landsbyggðinni. Verkefnið er náttúruvænt og sjálfbært og gæti leitt af sér 90 störf inni á þessu svæði og yrði þar með einn af stærri vinnustöðunum þar. Gangi allt að óskum og viðræður við fjárfesta skili árangri ætti niðurstaða að liggja fyrir í nóvember. Verði hún jákvæð hefjum við uppbyggingu strax á nýju ári. Vonandi verður þá fyrsta framleiðslan í húsi þegar líður á sumarið,“ segir Snæbjörn.

Framleiðslugetan verður byggð upp í áföngum á næstu fimm til sex árum og verður í lok þess tíma unnt að framleiða í kringum 1.500 tonn af afurðum, algínötum og öðrum lífvirkum efnum. Ársvelta þegar verksmiðjan verður komin í fulla framleiðslugetu er 5,4 milljarðar króna.

Sjá einnig frétt 640.is sem sagði fyrst frá.