fimmtudagur, 25. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framlenging á augum eftirlitsmanna

Guðsteinn Bjarnason
19. janúar 2021 kl. 07:00

Eftirlitsmaður Fiskistofu stýrir einum af hinum nýju drónum stofnunarinnar. MYND/Fiskistofa

Fiskistofa tekur dróna í notkun við eftirlit

Fiskistofa keypti nokkra dróna í haust og verða þeir meðal annars notaðir við eftirlit með veiðum á grunnslóð. Eftirlitsmenn hafa fengið kennslu og tilsögn í meðferð tækjanna og eru að hefja notkun þeirra.

„Þetta er gerbylting á öllum okkar störfum,“ segir Sævar Guðmundsson, deildarstjóri landeftirlits hjá Fiskistofu.

Hann segir kostnaðinn við drónana ekki mikinn miðað við ávinninginn, en með notkun þeirra muni bæði mannafli og tími nýtast miklu betur.

„Við erum að færa okkur framar í tækninni og gera eftirlitið skilvirkara. Kostnaðurinn er lítill miðað við ávinninginn sem við höfum af þessu.“

Hann segir það hafa legið í loftinu um nokkurt skeið að Fiskistofa muni taka upp þessa tækni.

„Við höfum verið að kynna okkur hvað aðrir hafa verið að gera í kringum okkur. Drónar hafa verið notaðir með góðum árangri við eftirlit í Svíþjóð á grunnslóð, en einnig hafa Danir og fleiri nýtt þessa tækni. Þetta er bara eðlileg framþróun við eftirlit.“

Fiskistofa er með tuttugu eftirlitsmenn víða um land, en starfsstöðvarnar eru fimm auk höfuðstöðvanna á Akureyri.

Sævar segir að drónar séu komnir á flestar starfstöðvarnar og verði notaðir eftir atvikum í almennt eftirlit á vegum stofnunarinnar og við eftirlit byggt á áhættumati og greiningum á frávikum.

Fjölbreytt verkefni

„Við erum náttúrlega með eftirlit við löndun á hafnarsvæðum. Við erum með eftirlit á grunnslóð. Við erum með eftirlit með lax- og silungsveiðum líka, það er stór hluti af starfi eftirlitsins. Við höfðum aðgang að dróna til að skanna veiðiár fyrir nokkrum árum til að sjá hvort það væri genginn eldisfiskur í hyli. Þetta mun nýtast okkur við eftirlit með öllu slíku. Þetta mun nýtast vel við að fylgjast með ólöglegum veiðum með netum við sjó, lax- og silungsveiðar. Það er einnig okkar hlutverkað fylgjast með framkvæmdum við veiðiár, þannig að ekki sé verið að skaða hrygningarsvæðið eða hefta göngu fisks.“

Sævar segir drónana líka geta komið að góðu gagni við að fylgjast með selveiðum og álaveiðum sem nú eru orðnar leyfisskyldar.

„Það er svo sem ekki forgangsverkefni að fylgjast með álaveiðum, en það er mjög snúið og þetta mun klárlega nýtast okkur við það. Það er bannað að veiða ál núna nema með sérstökum leyfum. Hann er kominn á válista. Svo getur þetta nýst okkur líka við eftirlit og viðbrögð við slysasleppingum á laxfiskum.“

Auðveldara verður að fylgjast með til dæmis malarnámi og framkvæmdum við veiðivötn.

„Við getum þá flogið upp með veiðiánum þar sem erfitt er að komast að jafnvel á venjulegum farartækjum,“ segir Sævar.

Drónarnir munu einnig koma að góðu gagni við að fylgjast með meðafla í veiðum á grunnslóð.

Talsverð flugdrægni

Að sögn Sævars eru drónarnir ósköp hefðbundnir, sambærilegir þeim sem björgunarsveitir og löggæsluaðilar eru með. Ekkert í líkingu við það tæki sem Landhelgisgæslan var með við flugtilraunir sumarið 2019 í samstarfi við EMSA, Siglingaöryggisstofnun Evrópu, en þar kom Fiskistofa að samstarfinu með áhættugreiningar.

„Það er talsverð flugdrægni á þessu og við erum bara að fikra okkur rólega inn í notkun á þessum tækjum.“

Enginn eigi að þurfa að óttast neitt, svo lengi sem menn fara eftir lögum og reglum. Öll tilskilin leyfi hafi verið fengin frá Samgöngustofu og farið verði í einu og öllu eftir kröfum Persónuverndar.

Þessi búnaður falli þó ekki undir ákvæði persónuverndarlaga um rafrænt eftirlit þar sem hann er ekki skilinn eftir á staðnum til að vakta einhverja starfsemi.

„Þetta bara framlenging á augum eftirlitsmanna. Öllu myndefni er strax eytt nema það sýni fram á brot og þar erum við með skýra verkferla. Það er þá sett í brotamálagátt og gætt að öllum persónuverndarákvæðum.“