fimmtudagur, 25. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frjósemi blendinga staðfest

Guðsteinn Bjarnason
19. febrúar 2021 kl. 09:35

Blendingurinn sem kemur á hverju sumri inn á Skjálfanda. Mynd/Maria Iversen

Merkar rannsóknir á afkvæmum steypireyðar og langreyðar.

Eitt af þeim átta blendingsafkvæmum steypireyðar og langreyðar sem veiðst hafa hér við land á síðustu áratugum reyndist vera annarrar kynslóðar blendingur.

Vísindamenn hér á landi hafa nú staðfest að í það minnsta eitt blendingsafkvæmi steypireyðar og langreyðar hefur sjálft eignast afkvæmi.

Áður var vitað að þessar tvær tegundir hafi eignast blendingsafkvæmi og fundist hafa dæmi um að kvenkyns blendingar hafi verið með afkvæmi í móðurkviði. Þó var talið líklegast að þau afkvæmi væru vart lífvænleg.

„Við staðfestum það að annarrar kynslóðar blendingur hafi fundist. Þetta er í fyrsta sinn sem það fæst staðfest,“ segir Christophe Pampoulie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Niðurstöður rannsókna hans og annarra sérfræðinga, frá Hafrannsóknastofnun, Matís og fleiri stofnunum, á þessum blendingum voru birtar í ágúst síðastliðinum í vísindatímaritinu Evolutionary Applications.

Móðirin oftast steypireyður

Rannsóknirnar leiddu einnig í ljós að sjö af þessum átta blendingum sem hafa fundist komu úr kviði steypireyðarkýr, þannig að faðirinn var langreyður. Hjá aðeins einum blendingnum var þetta öfugt: Móðirin langreyður og faðirinn steypireyður.

„Við vitum ekki af hverju móðirin er oftast steypireyður, en tveir möguleikar koma til greina. Annað hvort er útskýringin sú að tæknilega getur steypireyðarkarl ekki frjóvgað langreyði vegna þess einfaldlega að kynfærið er of stórt. Hin skýringin gæti svo verið sú að langreyðar eru miklu fjölmennari í hafinu. Alls eru um það bil 100 þúsund langreyðar í Norður-Atlantshafi, en um 24 þúsund steypireyðar. Hér á okkar svæði er ástandið enn verra því við Ísland eru um 40 þúsund langreyðar en bara þrjú þúsund steypireyðar. Þannig að mögulega er skýringin sú að kvendýrin finni bara ekki nein karldýr til að makast við af sömu tegund.“

Þetta eru váleg tíðindi, segir Christophe, því steypireyður er í nokkurri útrýmingarhættu og stofninum hefur ekki tekist að ná sér almennilega eftir að veiðar voru bannaðar. Það hefur gengið hægar hjá steypireyði að fjölga sér en flestum öðrum hvalategundum.

Stærstu dýr jarðar

Steypireyður og langreyður eru tvær stærstu dýrategundir jarðar. Steypireyðurin er langstærst og getur orðið um 30 metra löng og allt upp í 190 tonn að þyngd, en langreyðurin er um fjórðungi minni. Útlitsmunurinn er nokkur, en þó getur verið erfitt að greina úr fjarlægð hvort tiltekinn hvalur er steypireyður eða langreyður.

Vitað er um fáeina blendinga lifandi í hafinu. Einn kemur á hverju sumri inn á Skjálfanda og mögulega heldur annar sig við Vestmannaeyjar.

„Sumir þessir blendingar líta út eins og steypireyðar,“ segir Christopher, „en þessi sem kemur inn á Skjálfanda er stór og blár eins og steypireyður en með stóran bakugga eins og langreyður. Hann heldur sig þar í hópi steypireyða.“