sunnudagur, 11. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Furðudýr finnast í djúpinu

29. mars 2021 kl. 07:00

Hveljusogfiskur er hlaupkenndur og svo lítill að hann veiðist sjaldnast í troll. MYND/Eric Ruben dos Santos

Ískóð, hveljusogfiskur og mosadýr eru meðal fágætra sjávardýra sem hafa komið í trollið í marsralli Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Ískóð er þekktast þeirra, smávaxin tegund náskyld þorski en mun minni og mjórri og ekki með skeggþráð eins og þorskurinn. Hafró segir að tveir einstaklingar hafi komið í trollið, annar að degi en hinn að nóttu. Þetta sé í fyrsta skipti sem ískóð fannst á norðaustursvæði.

  • Mosadýrið minnir á kóraldýr. MYND/Eric Ruben dos Santos

Hveljusogfiskur er afar sérstakur, eins og hlaupkenndur svo stundum er erfitt að sjá að þar sé um fisk að ræða. Hafró segir hann oft svo lítinn að hann veiðist ekki í troll. Í Facebookfærslunni segir: „Íslenska heitið kemur af því að hann minnir á hvelju (marglittu) og hann er með ugga á kvið sem myndar sogskál.“

Mosadýrið minnir aftur á móti á kóraldýr og er agnarsmátt. Þetta er botndýr sem vinnur kalk úr sjónum til að byggja stoðgrind: „Þegar mörg hundruð eða þúsundir svoleiðis dýra byggja saman þá verður til form sem líkist kóral,” segir í færslu Hafró.

  • Ískóð fannst í fyrsta sinn á norðaustursvæði í marsralli. MYND/Eric Ruben dos Santos