mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrirtækið náð góðri fótfestu í Rússlandi

Guðjón Guðmundsson
3. febrúar 2021 kl. 07:00

OptimICE krapakerfið sem KAPP hefur framleitt fyrir Kamtsjatkaflot. Aðsend mynd

KAPP afhendir krapakerfi fyrir rússneska útgerð.

KAPP ehf., framleiðandi kæli- og frystibúnaðar, hefur nýlega lokið framleiðslu á vélbúnaði  sem afhentur var til nýrrar verskmiðju sem staðsett er í  Petropavlovsk-Kamtsjatka í Rússlandi.  Ennfremur fólst verkefnið í uppsetningu á kælibúnaði fyrir tvö af skipum á sama svæði.

Freyr Friðriksson, eigandi KAPP, segir verkefnið hafa verið talsverða áskorun í miðjum heimsfaraldri en með góðu starfsfólki og skipulagningu hafi allt gengið upp að lokum.

„Þetta var mjög stórt verkefni. Við skrifuðum undir samningana í febrúar á síðasta ári, korteri fyrir Covid.  Verkefnið hefur verið mjög skemmtilegt en um leið mikil áskorun. Við kláruðum verksmiðjuna í desember.   Samningurinn snerist um framleiðslu á stærstu OptimICE kerfum,  sem við framleiðum og þau urðu á endanum fjögur, ásamt tveimur kerfum sem sett voru í togara á svæðinu.  “ segir Freyr.

OptimICE er ískrapakælikerfi með forkælingu sem hefur náð fótfestu víða um heiminn og stór hluti íslenska ísfiskiskipaflotans hérlendis er með búnað af þessu tagi.  Hraðkælingin er fljótandi krapi, framleiddur um borð eða sem staðsettur er í verksmiðjuhúsi og  kælir aflann mun hraðar en hefðbundinn flöguís og heldur honum undir frostmarki allan veiðitúrinn eða í móttöku og vinnslurás fiskvinnsluhúsa.

Líta til Íslands

Freyr segir rússneskar sjávarútvegs og fiskvinnslur á hraðri leið í átt að betri meðhöndlun á afla með kælingu.  Þær horfi mjög til Íslands í þeim efnum.

Kapp hefur kynnt sínar tæknilausnir víða, þar á meðal á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg í Rússlandi. Freyr segir sýningar af þessu tagi góðan glugga til kynningar þótt sjaldnast komist á viðskiptasambönd á sýningunum sjálfum. Þarna takist kynni og í framhaldinu geta þau leitt til viðskiptasamninga.

Verkefnið í Kamtsjatka nú er á fjórða hundrað milljóna króna virði.

Mikil áskorun

Freyr segir að það hafi verið mikil áskorun að klára verkefnið fyrir Rússana í miðjum heimsfaraldri. Vegna sóttvarnaaðgerða var KAPP skipt niður í fjórar framleiðslueiningar og unnið í  hópum að verkefnum.  Verkefni af þessu tagi kalla einnig á ferðalög og á þessum sérstöku tímum hafi það tekið fjóra sólarhringa að komast frá Íslandi til Kamtsjatka til að fylgja verkinu eftir.

„Ég hef lagt leið mína á þessari slóðir fimm sinnum á síðustu tveimur árum í gegnum önnur verkefni en segja má að okkur hafi gengið vel á þessu svæði undanfarin ár. Þetta er þó stærsta verkefnið okkar hingað til í Rússlandi,“ segir Freyr.