miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gnótt af síld og kolmunna

Guðjón Guðmundsson
15. október 2021 kl. 09:15

Beitir NK á veiðum. Mynd/Þorkell Pétursson

Uppsjávarveiðar í glimrandi góðum gangi. Síld og kolmunni veiðist fyrir austan og stór loðnuvertíð handan við hornið.

„Við erum búnir að taka eitt hol og það voru einhver 510 tonn í því. Við erum bara að trolla hérna í björtu en látum reka í myrkrinu, segir Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK sem var þá í Rósagarðinum ásamt Bjarna Ólafssyni AK og Hoffelli í góðri kolmunnaveiði.

Það er í nógu að snúast fyrir íslenska uppsjávarflotann því veiðar á norsk-íslenskri síld hafa gengið vel austur af landinu og nú er kolmunninn að mokast upp líka. Í síðustu viku lönduðu Börkur NK og Beitir NK samtals 2.400 tonnum af síld og öll fór hún til manneldis. Börkur hafði þá veitt um 7.000 tonn á vertíðinni og sagði Hálfdán Hálfdánsson skipstjóri að þessi síldarvertíð sé búin að vera glimrandi góð og eins þægileg og hægt sé að hugsa sé enda stutt að fara og þar af leiðandi stuttir túrar. Venjulega hefjast veiðar á íslensku sumargotssíldinni um miðjan nóvember og er þá líka farið að styttast í loðnuveiðar en flestir gera ráð fyrir að þær hefjist fyrir áramót. Þar verður af nógu að taka því ekki hefur verið gefinn út stærri loðnukvóti í tæp 20 ár og þurfa menn væntanlega að hafa sig alla við til að ná honum. Tæp 700 þúsund tonn falla í skaut íslenskra skipa og hefur greiningardeild Íslandsbanka reiknað með að útflutningsverðmætin gætu numið 50-70 milljörðum króna eða jafnvel enn meira náist að veiða allan kvótann.

Er á meðan er

Sturla Þórðarson sagði, þegar Fiskifréttir heyrðu í honum, að óljóst væri hve lengi kolmunninn myndi gefa sig þarna en vonaði að það yrði bara sem lengst. Hann sagði að það gæti þó jafnvel farið svo að þeir sneru sér að síldveiðum fyrr en varði enda ekki langt að sækja á þau mið þaðan sem þeir voru núna. Það þyrfti líka að klára það sem upp á vantaði í síldinni.

Það var Þorkell Pétursson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK, og áhöfn hans sem fundu kolmunnalóð í Rósagarðinum í síðustu viku. Þorkell sagði að langt væri síðan að sést hafi viðlíka lóð á þessum árstíma þarna. Aflinn var um 1.800 tonn og fékkst hann í fimm holum á tæpum fjórum sólarhringum. Stærsta holið var 480 tonn og var þá dregið í sjö tíma.  Skipið landaði síðastliðinn sunnudag og hélt strax aftur á veiðar.

Hoffell, uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, landaði í byrjun vikunnar 1.650 tonnum af kolmunna og var fiskurinn veiddur aðeins um 70 sjómílum frá Fáskrúðsfirði. Fiskurinn fór allur í bræðslu á Fáskrúðsfirði. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að túrinn hefði verið tæpir fjórir sólarhringar frá höfn í höfn. Að lokinni löndun hélt Hoffellið til veiða á ný á svipuðum slóðum.