sunnudagur, 25. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður gangur að komast í veiðarnar

Guðjón Guðmundsson
8. október 2020 kl. 07:00

Kristján Freyr Pétursson skipstjóri. Mynd/Þorgeir Baldursson

Sólrún EA lengdur og kominn með nýja vél.

Línubáturinn Sólrún EA frá Árskógssandi er nýkominn úr lengingu og vélarskiptum og hefur gert það ágætt í fyrstu túrunum eftir breytingar. Kristján Freyr Pétursson skipstjóri segir skipið stöðugra á siglingu og það nái meiri keyrslu á sömu eyðslu og á gömlu vélinni.

Þeir eru þrír á Sólrúnu og landa aflanum á Árskógssandi. Hann er seldur á fiskmarkaðnum á Dalvík þar sem ágætt verð hefur fengist  að undanförnu. Báturinn er gerður út af samnefndri útgerð á Dalvík.

Kristján Freyr var að draga þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn. Hann sagði ágætan gang í veiðunum en þær væru reyndar rétt farnar af stað eftir breytingarnar á bátnum.

„Við erum svona að slípa þetta til og rétt að komast af stað. Við skiptum um vél og svo sá Siglufjarðar Seigur ehf. um að lengja hann. Hann var einn af styttri bátunum sem smíðaðir voru inn í 15 tonna kerfið. Við lengdum ekkert botninn á honum heldur aftan á kasssann og settum á hann smá svalir. Hann er rétt tæpir 14 metrar núna á lengd,“ segir Kristján Freyr.

Úr 14 í 20 kör í lest

Hann segir að með þessu breytist aðstaðan um borð mikið. Pláss verður fyrir 20 kör í lest í stað 14 áður sem munar talsverðu þegar fiskirí er gott. Sólrún EA er með beitingarvél og krókarnir eru 15.000 talsins.

„Báturinn er í raun gerbreyttur. Vélin er töluvert sparneytnari. Við vorum með 19 lítra Cummins vél en nú er kominn í bátinn 13 lítra Scania vél. Slagrýmið er miklu minna en við erum að keyra á 9,5 mílum en fórum mest á 8 til 8,5 mílum á gömlu vélinni á um það bil sömu eyðslu. Báturinn er fljótari í förum, fyrr kominn á miðin og fyrr kominn heim.“

Þeir halda sig oft inni í Eyjafirðinum á haustin í verri veðrum en fara líka 15-20 mílur út fyrir Gjögurtá þegar viðrar. Kristján Freyr segir ágætlega hafa gefið í róðrunum eftir breytingar þó ekki sé hægt að tala um mokfiskirí. Þeir hafa verið að koma með 4-5 tonn úr róðri en það eigi eftir að aukast því nú nýlega voru síðustu rekkarnir settir upp. Þeir voru því að taka fyrstu stóru lögnina eftir breytingu. Beitan er síld, smokkur og sauri sem er drjúgur þar sem er mikil ýsugegnd. Fiskurinn er vænn og ýsan nokkuð stór en smærri fiskur innar á firðinum.

Fínt verð á markaðnum

„Þetta er búið að vera mikið til helminga ýsa og þorskur. Við erum með ýsukvóta en við sækjumst meira eftir þorski. Á haustin höfum við dálítið skipt út þorski fyrir ýsu því það er oft svo mikil ýsugegnd hérna. Það er hætta á því að við fáum ekki neitt ef við þurfum að vera á miklum flótta undan ýsunni.“

Kristján Freyr er ánægður með verð sem hefur fengist. Síðasta sala hafi gefið rétt um 400 krónur fyrir stóran, óslægðan þorsk. Ágætlega hefur viðrað til veiðanna en Kristján segir að báturinn hafi breyst talsvert í sjó við breytingarnar.

„Hann er allur annar á siglingu, miklu stöðugri á stefnu og stýrir og siglir allur mikið betur. Við breyttum á dekkinu eins og við vildum hafa það og öll umgengni hefur batnað mikið. Þetta er að koma ágætlega út. Við höfum farið út á milli klukkan eitt og þrjú á næturnar og verið komnir í land um fjögurleytið síðdegis með brakandi ferskan fisk beint á markað,“ segir Kristján Freyr.