sunnudagur, 11. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gott ár þvert á hrakspár

5. mars 2021 kl. 07:00

Óhætt er að segja að vel hafi spilast úr síðasta ári í sjávarútvegi. Mynd/Þorgeir Baldursson

Íslenskur sjávarútvegur kom vel frá síðasta ári þrátt fyrir mótbyr.

Þegar árið 2020 hefur verið gert upp er ljóst að niðurstaða íslensks sjávarútvegs er mun betri en spár gerðu ráð fyrir þegar heimsfaraldurinn var að grafa um sig í fyrra. Í fyrstu hagspám á þeim tíma var gert ráð fyrir einum mesta samdrætti í sjávarútvegi um áratuga skeið en það gekk ekki eftir.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 270 milljörðum króna á árinu 2020 og jókst um 10 milljarða frá fyrra ári. Jafngildir það aukningu upp á tæp 4% í krónum talið. Aukningin skrifast öll á þá lækkun sem varð á gengi krónunnar, enda dróst útflutningsverðmæti sjávarafurða saman um tæp 7% í erlendri mynt. Samdráttinn má helst rekja til rúmlega 4% samdráttar í útfluttu magni.

Þetta kemur fram í greiningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

„Þar spilar COVID-19 að sjálfsögðu hlutverk, en erfitt er að festa fingur nákvæmlega á hversu mikil þau áhrif voru. Áhrifin af loðnubresti voru þó talsverð, sem kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir þar sem loðnubrestur varð annað árið í röð. Ástæða þess er að talsvert hafði verið um birgðasölu á árinu 2019, sér í lagi á frystum loðnuhrognum sem er verðmæt afurð,“ segir í greiningunni.

Markaðir erfiðir

Aðstæður á mörkuðum versnuðu til muna vegna COVID-19 og var verð á sjávarafurðum að jafnaði ríflega 2% lægra á árinu 2020 en 2019, mælt í erlendri mynt. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar námu útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta rétt rúmlega þúsund milljörðum króna á árinu 2020. Það er um 33% samdráttur frá árinu 2019 á föstu gengi, en á þann kvarða hafa útflutningstekjur þjóðarbúsins ekki verið minni frá árinu 2013. Áhrifin af COVID-19 sjást hjá flestum útflutningsgreinum, en áhrifin voru vissulega mismikil.

Sterkar stoðir

Reiknað var með 12% samdrætti í útflutningi á sjávarafurðum í fyrstu spám sem birtar voru eftir að faraldurinn skall á. Raunin varð rúmlega 4% samdráttur, eins og á undan greinir. Hefðu spár ræst, hefði útflutningsverðmæti sjávarafurða verið um 22 milljörðum króna minna á árinu 2020 en raunin varð, að öðru óbreyttu, er niðurstaða SFS.