mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hærra en meðalverð á makríl

Guðjón Guðmundsson
13. febrúar 2021 kl. 09:00

Norskir bátar í upphafi loðnuveiða á dögunum. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Hátt verð sem norsk og færeysk fyrirtæki hafa verið að greiða fyrir loðnu af Íslandsmiðum hefur vakið athygli.

Um síðustu helgi var sett nýtt met þegar Pelagos P/F í Færeyjum greiddi 227 ÍSK fyrir kílóið af loðnu úr norska loðnuskipinu Gerda Marie. Þetta er meira en 45 krónum hærra verð en meðalverð hefur verið á makríl frá Norges Sildesalgslag á þessu ári. Meðalverð makríls er að jafnaði 2-3 sinnum hærra til neytenda en loðnuverð.

Sérfræðingar sem Fiskifréttir ræddu við segja ekkert réttlæta svo há verð. Staðan sé í rauninni sú að allt sé í biðstöðu. Litlar hreyfingar eru á  sölu á bak við þessi háu verð sem einstök fyrirtæki eru nú að greiða fyrir loðnu og menn séu að taka mikla áhættu með þessu. Það sem hugsanlega skýri þessi háu verð sé skortur á mörkuðum og viss spenningur sé í upphafi loðnuvertíðar. Staðan sé hins vegar sú að úti á mörkuðunum bíði menn eftir því að sjá hver framleiðslan verði. Það hafi áhrif á markað fyrir frysta loðnu nái Norðmenn að veiða sín 41 þúsund tonn sem fari öll í frystingu. Nú taki menn þá áhættu að kaupa loðnuna á metverðum, frysti hana en eigi svo eftir að selja hana.

Snakk í Austur-Evrópu

Stór markaður fyrir loðnu er í Austur-Evrópu þar sem hún er til að mynda þurrkuð og krydduð og borðuð sem snakk. Menn spyrja sig þeirrar spurningar hvers vegna kaupendur til að mynda í Austur-Evrópu ættu að kaupa loðnu á þessum verðum þegar makríll af bestu gæðum fæst á svipuðu verði eða jafnvel lægra verði.

Íslenskar uppsjávarvinnslur hafa verið að kaupa loðnu af norskum skipum en á talsvert lægra verði en hefur verið að fást fyrir aflann í Noregi og Færeyjum enda minna til kostað að landa hér við land en að sigla með aflann annað. Engu að síður hafa Norðmenn verið að fá talsvert hátt verð fyrir sína loðnu hér miðað við gæði loðnunnar þessa dagana, að mati heimildarmanna.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 11. febrúar.