mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hafró hættir við umreikning

Guðsteinn Bjarnason
8. febrúar 2021 kl. 07:00

Mynd/Þorgeir Baldursson

Hafrannsóknastofnun hefur hætt við að nota umreikning á upplýsingum úr afladagbókum við ráðgjöf um grásleppuveiðar.

Á nýliðnu ári var gerð tilraun til þess að umreikna magn af söltuðum hrognum ár hvert yfir í lífmassa hrognkelsa, og var það gert með upplýsingum úr afladagbókum og byggt að hluta á upplýsingum sem fengnar voru frá Landssambandi smábátaeigenda.

„Umreiknistuðullinn sem notaður var hefur verið gagnrýndur og talinn vera of lágur,“ segir í nýrri tækniskýrslu Hafrannsóknastofnunnar þar sem gerð er grein fyrir nýrri ráðgjafarreglu.

„Eins eru sögusagnir um að fjöldi tunna hafi verið vanmetinn. Þetta skapar óvissu um útreikninga á afla fyrir þetta tímabil jafnframt sem eðli þessara aflaskráninga er allt annað en fyrir seinni ár. Af þessari ástæðu telur Hafrannsóknastofnun áreiðanleika þessara gagna fram til 2007 ekki þess eðlis að hægt sé að byggja ráðgjöf á þeim, og telur rétt að miða aðeins við aflagögn þar á eftir frá Fiskistofu.“

Hafrannsóknastofnun hefur kynnt fyrir hagsmunaaðilum þessar niðurstöður sínar úr endurskoðun á stofnmati og ráðgjafarreglu hrognkelsis.

Eftir að hafa skoðað möguleika þess að nota vísitölur fyrir hrognkelsi frá nokkrum mismunandi leiðöngrum í mat á stærð stofnsins varð niðurstaðan sú að stofnmæling botnfiska að vori væri enn „eini leiðangurinn sem gæfi nothæfar vísitölur til grundvallar að ráðgjöf.“

Þá voru nokkrar mögulegar ráðgjafareglur skoðaðar, en ákveðið að nota svipaða ráðgjafareglu og áður.

„Stofnunin telur að ef þessari nýju ráðgjafarreglu verði fylgt séu miklar líkur á að hrognkelsastofninn verði nýttur á sjálfbæran hátt í samræmi við markmið varúðarnálgunar,“ segir í fréttatilkynningu.

Ráðgjafarreglan verði þó endurskoðuð komi í ljós „að veiðistuðullinn sem reglan byggir á sé ekki að leiða sjálfbærar nýtingar í samræmi við markmið varúðarnálgunar.“