þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hámarks upphafsráðgjöf fyrir næstu loðnuvertíð

30. nóvember 2021 kl. 11:24

Mynd/Þorgeir Baldursson

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur birt upphafsráðgjöf um veiðar á loðnu á vertíðinni 2022/23.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur birt upphafsráðgjöf um veiðar á loðnu á vertíðinni 2022/23. Ráðgjöfin hljóðar upp á 400 þúsund tonn sem er í samræmi við gildandi aflareglu strandríkja að stofninum.

Hafrannsóknastofnun segir frá.

Þessi ráðgjöf byggir á mælingum á stærð ókynþroska hluta loðnustofnsins, eins og tveggja ára, í september síðastliðnum í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar og systurstofnunar hennar á Grænlandi.

Samtals mældust um 130 milljarðar af ókynþroska eins og tveggja ára loðnu sem er nægjanlegt magn til að gefa hámarks upphafsráðgjöf sem aflareglan leyfir, eða 400 þúsund tonn. Þetta er sama upphafsráðgjöf og ICES gaf fyrir ári síðan fyrir núverandi vertíð en þá var vísitalan 146 milljarðar.

Þessi upphafsráðgjöf verður endurskoðuð að loknum mælingum á þessum hluta stofnsins sem fyrirhugaðar eru í september 2022.