mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hólmadrangur eykur framleiðslu

Guðjón Guðmundsson
14. maí 2021 kl. 10:00

Innmötun við suðupottana í verksmiðju Hólmadrangs. Aðsend mynd

Birtir yfir rækjumarkaði á Bretlandi.

Það birtir til á erlendum mörkuðum fyrir rækjuafurðir eftir verulegan samdrátt í eftirspurn allt síðasta ár og framan af þessu ári vegna heimsfaraldursins. Rækjuvinnslan Hólmadrangur ehf. á Hólmavík sér sig þannig knúna til að bæta við sig starfsmönnum um þessar mundir. Stór hluti afurða fyrirtækisns er flutt til Bretlands og Evrópu. Með batnandi stöðu þar í Bretlandi með tilliti til Covid 19 hefur eftirspurn aukist jafn og þétt.

Fjórar rækjuverksmiðjur eru í rekstri allt árið á Íslandi og ein er í rekstri hluta úr ári. Heilsársverksmiðjurnar eru Kampi á Ísafirði, Hólmadrangur á Hólmavík, Dögun á Sauðárkróki og Rammi á Siglufirði. Meleyri á Hvammstanga er í rekstri hluta úr ári.

Sigurbjörn Rafn Úlfarsson, rekstrarstjóri Hólmadrangs, segir stöðuna nokkuð bjarta. Það sem þó skyggi á í augnablikinu sé fremur dræmt framboð af rækju. Þegar eftirspurn eftir rækju minnkaði í Evrópu í faraldrinum sneru mörg skip, sem áður höfðu verið við rækjuveiðar, sér að öðrum veiðiskap. Sinn tíma taki að snúa því aftur við. Þau eru þó mörg hver núna í sínum fyrstu löndunum á rækju.

Samlokumarkaðurinn hrundi

„Verksmiðjan hefur verið á hálfum afköstum frá því heimsfaraldurinn reið yfir í marsmánuði í fyrra. Núna sjáum við að það er farið að birta yfir og það eru að opnast markaðir í Bretlandi í takt við aukinn kraft í bólusetningum. Svo fer það líka saman að ef sumarið er hlýtt og sólríkt á Bretlandi og Evrópu eykst fiskneyslan. Þá vilja menn gjarnan sitja úti við, sötra kalt hvítvín og gæða sér á sjávarréttasalati. Rækjan okkar passar mjög vel inn í þetta mynstur. Með allt þetta í huga erum við því að búa okkur undir það að auka afköstin eftir því sem eftirspurnin eykst,“ segir Sigurbjörn.

Viðskiptavinir Hólmadrangs eru að stórum hluta framleiðendur samloka, veisluþjónustur, hótel og veitingahús. Rækja og annar skelfiskur hefur ekki verið sú vara sem neytendur leita helst eftir í matvöruverslunum þegar sóttvarnaaðgerðir standa yfir. Sala á samlokum í Bretlandi dróst saman um 75% á síðasta ári og framleiðendur samloka eru stórir rækjukaupendur. Nú horfir hins vegar til betri vegar.

Hólmadrangur fær rækju mest frá Kanada og úr Barentshafinu sem er öll MSC vottuð. Í eðlilegu árferði kaupir fyrirtækið um 5.000 tonn af iðnaðarrækju en á síðasta ári einungis um 2.500 tonn. Þetta er rækja í milliflokki og smærri rækja. Stærri rækjan er yfirleitt soðin í skelinni úti á sjó og fryst og mikið af henni fer til Japan. Hólmadrangur hefur ekki unnið rækju af Íslandsmiðum síðan 2018. Flutningskostnaður frá löndunarstöðvum reyndist of hár miðað við framboðið til að vinnslan stæði undir því. 2018 var ekki heldur komin MSC vottun á íslenska rækju eins og er í dag. Íslenska rækjan er því mun verðmætari vara núna en hún var fyrir MSC vottun.