þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Horfa björtum augum til framtíðar

Guðsteinn Bjarnason
25. apríl 2022 kl. 13:00

Unnið að stækkun Ísafjarðarhafnar. MYND/Guðmundur M. Kristjánsson

Stækkun Ísafjarðar vel á veg komin

Mikil uppbygging iðnaðarsvæðis í vændum á Suðurtanga. HG flytur þangað alla starfsemi sína frá Hnífsdal og Arctic Fish hafa tryggt sér stóra lóð.

Framkvæmdir upp á um það bil milljón króna eru vel á veg komnar í Ísafjarðarhöfn. Guðmundur Kristjánsson hafnarstjóri segist reikna með að auknum umsvifum fylgi auknar tekjur til hafnarinnar.

„Við erum að veðja á það og horfum björtum augum til framtíðar, þótt allt sé að fara til andskotans annars staðar.“

Ekki síst er það aukin aðsókn stórra skemmtiferðaskipa á undanförnum árum sem varð til þess að ráðist var í þessar framkvæmdir.

„Við getum þá farið að taka þau að bryggju sem gefur okkur meiri tekjur heldur en ef við látum þau liggja hér úti á akkeri. Þannig að í okkar viðskiptaplani gerum við ráð fyrir að við verðum búnir að ná okkar hlut í þessari framkvæmd á tíu árum, bara í auknum viðskiptum.“

Verið er að lengja aðalviðlegukantinn í Sundahöfninni um 320 metra og þessa dagana er að ljúka vinnu við að reka niður stálþilið.

„Næst er að steypa kant og polla, og svo er eftir að dýpka. Dýpkun var boðin út síðasta vetur og við erum búnir að semja við Björgun um dýpkun. Dýpkunartímabilið á að standa yfir frá maí til október.“

Suðurtanginn hækkaður

Stækkaður Sundabakki verður þá tilbúinn til notkunar fyrir áramót. Við dýpkunina verður um það bil 500 þúsund rúmmetrum dælt upp úr Sundunum hjá okkur það efni fer í að hækka land á Suðurtanganum

„Við gerum ráð fyrir að spá um hækkandi sjávarstöðu muni hafa áhrif á Ísafirði eins og annars staðar, þannig að Suðurtanginn verður hækkaður.“

  • Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri með Þorgerðina úr Verbúðinni í baksýn. MYND/Sheng-Ing Wang

Á Suðurtanga er síðan mikið iðnaðarhverfi í uppbyggingu. Meðal fyrirtækja sem þar ætla að koma sér fyrir er Hraðfrystihúsið Gunnvör.

„Þeir eru handhafar einna stærstu lóðarinnar á Suðurtanga og ég veit ekki annað en að þar stefni þeir á að byggja þar undir alla sína starfsemi í framtíðinni. Arctic Fish eru líka mjög stórir lóðarhafar á Suðurtanga, og mörg önnur smærri fyrirtæki. Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að megnið af þeim lóðum undir iðnaðarstarfsemi þar sé uppurinn.“

Hampiðjan flytur

Hampiðjan ætlar einnig að flytja starfsemi sína á Suðurtanga.

„Þeir eru að byggja þar stórt hús til þjónustu við fiskiskipaflotann en þeir eru líka að gera sig gildandi í þjónustu við laxeldið. Það er í örum vexti og þarf aukna þjónustu í kringum það.“

Ísafjarðarhöfn er einnig að fara í töluverðar framkvæmdir í Súðavík, á Þingeyri og á Suðureyri.

„Í Súðavík ætlum að búa til land undir kalkþörungaverksmiðju og hafnarandstöðu innan við Langeyri í Súðavík. Á Þingeyri er það endurnýjun og lenging á stálþili, aðallega út af vöntun á viðlegurými í kringum þjónustu við laxeldið. Líka stendur fyrir mikil uppbygging á hafnarmannvirkjum við Brjót á Suðureyri, meðal annars í tengslum við Fisherman.“