mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrekja ítrekað burt háhyrninga

Guðsteinn Bjarnason
1. maí 2021 kl. 09:00

Háhyrningar halda sig mikið við Vestmannaeyjar. MYND/Nicholai Xuereb

Hegðun grindhvala við Vestmannaeyjar rannsökuð í sumar.

Þær Anna Selbmann og Filippa Samarra reyna að komast að því hvað grindhvölum gengur til þegar þeir ráðast í hópum að háhyrningum.

Tvær skýringar þykja helst koma til greina á því hvers vegna grindhvalir hópast saman til þess að hrekja burt háhyrninga. Annað hvort vilji grindhvalirnir komast í fæðuna sem háhyrningarnir eru að gæða sér á, eða þá að grindhvalirnir sjái ógn í háhyrningunum og reyni þess vegna að hrekja þá burt.

„Ég er rétt að byrja að skoða þessi samskipti,“ segir Anna Selbmann. „Við höfum séð þessa hegðun við Vestmannaeyjar. Þar höfum við fylgst með háhyrningum í tíu ár en við höfðum aldrei séð grindhvali þar fyrr en 2014.“

Núna sjást grindhvalir þar reglulega og stundum þegar fylgst er með háhyrningum þá sjást grindhvalirnir koma askvaðandi.

„Venjulega gerist það þegar háhyrningarnir eru að éta þá sjáum við grindhvalina koma. Við sjáum þá koma úr mikilli fjarlægð því þeir eru margir saman og hreyfa sig hratt þannig að við sjáum mikinn gusugang, og þá annað hvort hverfa háhyrningarnir bara eða við sjáum grindhvalina elta þá á miklum hraða. En við vitum ekki alveg um hvað þetta snýst, og ætlum að reyna að komast að því.“

Rannsakað í Noregi

Anna er doktorsnemi og verkefni hennar í sumar verður að finna skýringar á þessu. Leiðbeinandi hennar er Filippa Samarra, en þær stunda rannsóknir sínar í Vestmannaeyjum þar sem aðstæður eru góðar til þess að rannsaka atferli þessara glæsilegu tegunda.

  • Anna Selbmann og Filippa Samarra fylgjast með háhyrningum og grindhvölum við Vestmannaeyjar

Anna segir að svipað atferli, þar sem grindhvalir hrekja burt háhyrninga, hafi sést bæði í Miðjarðarhafi og við Noreg.

„Þar hefur fólk getið sér til að annað hvort sé þarna á ferðinni samkeppni um fæðu þannig að grindhvalirnir séu á höttunum eftir því sem háhyrningarnir eru að éta, eða þá að þeir séu að veitast að þeim til að hrekja þá burt vegna þess að þeir líti á háhyrningana sem afræningja.“

Hreinlega öskrandi

Rannsóknirnar í Noregi hafi skilað mjög áhugaverðum niðurstöðum.

„Þær hafa sýnt fram á að grindhvalirnir laðast mjög að hljóðum háhyrninga. Ef hljóðin eru spiluð þá flykkjast grindhvalirnir að hátalaranum. Það sem við ætlum að prófa núna er þveröfugt, nefnilega hvort háhyrningarnir sýna einhver viðbrögð við hljóðum úr grindhvölum. Grindhvalirnir hafa mjög hátt í sjónum. Þeir eru hreinlega öskrandi.“

Reynt verður að koma merkjum á háhyrningana, eða að minnsta kosti einn í hverjum hópi.“

„Merkið tekur upp hljóðin og skráir hreyfingu hvalanna. Síðan myndum við spila hljóð úr grindhvölum og sjá hvort háhyrningarnir fari burt frá þeim hljóðum.“