föstudagur, 22. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvetja til aukinna ufsaveiða

Guðjón Guðmundsson
20. maí 2020 kl. 07:00

Ufsafiskerí á Íslandsmiðum. Mynd/Þorgeir Baldursson

Sjømat Norge hefur átt viðræður við Fiskarlaget Nord, sem eru hagsmunasamtök fiskiskipaflotans, um það hvernig hvetja megi til aukinna veiða á ufsa.

Heildarsamtök útgerðar og fiskeldisfyrirtækja í Noregi, Sjømat Norge, sjá fyrir sér stækkun markaðar með ferskan ufsa. Stine Akselsen, fagstjóri hjá Sjømat Norge, segir ufsa fýsilegan valkost fyrir marga kaupendur meðan efnahagslægð í kjölfar kórónuveirufaraldursins setur mark sitt á gangverk heimsins.

Akselsen segir að til þess að geta boðið ferskan ufsa og aukið verðmæti hans á mörkuðum verði að tryggja afhendingaröryggi og gæði vörunnar. Allra best væri af ufsanum er landað lifandi beint í vinnslu eða landað í geymslukvíar til vinnslu síðar.

Akselsen bendir á að með því að landa ufsanum lifandi fyrir vinnsluna eða í geymslukvíar sé tryggt að hráefnið sé af hæstu gæðum og það auki líkurnar á því að betra verð fáist fyrir ufsann.

„Við erum háð því að annar raunhæfur valkostur finnist eins og staðan er núna. Markaðurinn og vinnslan óskar eftir ufsa þar sem hann er ódýrari kostur. En ef við eigum að ná árangri verður flotinn að vera samstíga í þessu.

Sjømat Norge hefur átt viðræður við Fiskarlaget Nord, sem eru hagsmunasamtök fiskiskipaflotans, um það hvernig hvetja megi til aukinna veiða á ufsa.

Roger Hansen, talsmaður samtakanna, segir hugmyndina góðra gjalda verða. Hann treystir sér samt ekki til að segja hvort flotinn sé tilbúinn til að landa lifandi ufsa eða ufsa í geymslukvíar. Fjölmörg atriði geta haft áhrif á möguleika útgerðar til slíkra hluta.