þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kanna hvort um einn eða fleiri stofna sé að ræða

Guðjón Guðmundsson
21. nóvember 2020 kl. 09:00

Merkt grálúða. Sjómönnum er bent að hafa samband við Hafrannsóknastofnun ef þeir veiða merktar grálúður á næstu misserum. Mynd/Guðjón Már Sigurðsson.

Grálúður merktar á djúpslóð í haustralli Hafrannsóknastofnunar

Á haustralli á djúpslóð sem lauk nýverið voru um 400 grálúður merktar. Þetta er liður í rannsókn á því hvort grálúða í Norður-Atlantshafi sé einn stofn eða fleiri. Ennfremur er unnið að erfðafræðirannsóknum sem lúta að sömu markmiðum í samstarfi við Norðmenn, Grænlendinga og Kanadamenn.

„Við ákváðum að nýta túrinn til að merkja allar þær grálúður sem við fengum. Vanalega nýtum við þær til gagnasöfnunar með því að taka kvarnir og gera ýmsar mælingar. En grálúða sem kom upp lifandi var merkt og sleppt. Þetta gæti orðið liður í áformum um stærri rannsókn á stofngerðum grálúðu,“ segir Guðjón Már Sigurðsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Merktar voru um 400 grálúður með hefðbundnum slöngumerkjum sem skotið er inn í bakið. Hafrannsóknastofnun treystir svo því að sjómenn skili merkjunum. Guðjón Már vonast til þess að hægt verði að halda merkingunum áfram í hauströllunum enda hafi það lítinn viðbótarkostnað í för með sér.

Veiðum stýrt út frá 5 stofnum

Nú er veiðum á grálúðu stýrt út frá þeirri hugmynd að við Kanada og vestur Grænland sé einn stofn, annar við austur Grænland sem sennilega er sá sami og við Ísland, og enn aðrir við Færeyjar, Noreg og Rússland. Eins og veiðunum er stýrt er því gengið út frá því að um fimm mismunandi stofna sé að ræða.

„En síðan flækist nú málið því grálúður, sem merktar voru sem ungviði við Svalbarða, hafa veiðst hér við land og grálúður sem hafa verið merktar hér við land hafa veiðst við Grænland og jafnvel Kanada. Það eru því alveg líkur til þess að um einn stóran stofn sé að ræða en það er þó ekki vitað. Með merkingunum ætlum við að reyna að ráða í ferðir grálúðunnar frá Íslandsmiðum eða hvort þær fari yfir höfuð eitthvert annað,“ segir Guðjón Már.

Tveir stofnar?

Hafrannsóknastofnun merkti lúður í kringum 1970 og nokkrar þeirra endurheimtust við Kanada. Lítillega var merkt í kringum 1990 en lítið var um endurheimtur þá. Þá hafa verið gerðar tvær erfðarannsóknir á grálúðu og í kjölfarið voru settar fram tvær kenningar um stofngerðirnar. Önnur rannsóknin var gerð í Noregi og bentu niðurstöðurnar til að um tvo stofna væri að ræða; einn væri vestan Hornbjargs og annar austan við Horn. Guðjón Már setur varnagla við niðurstöðurnar því þær byggðu á mjög takmarkaðri sýnatöku.

„Í kjölfar fundar í nóvember á síðasta hófst samstarf við hafrannsóknastofnanirnar í Noregi og Grænlandi, auk aðkomu hafrannsóknarstofnunar Kanada og höfum verið að taka mikið af erfðasýnum. Matís er einnig þátttakandi í erfðafræðihluta verkefnisins. Merkingarnar nú eru síðan annar vinkill  af þeirri rannsókn. Grænlendingar merktu grálúður núna í sumar í rækjuleiðangri í sama tilgangi“ segir Guðjón Már.

Miklir hagsmunir í húfi

Rannsóknin getur skipt miklu máli sé ætlunin að stýra veiðunum út frá réttum einingum.

„Aðgerðir okkar við veiðistýringu við Ísland geta haft lítið að segja ef stór hluti nýliðunar kemur frá Noregi, svo dæmi sé tekið. Sömu hagsmunir ráða hjá samstarfsþjóðunum. Ein kenningin er sú að uppvaxtarsvæði grálúðu sé við Grænland og Noreg en fullorðnu dýrin haldi sig hér við land áður en þau snúa aftur á hrygningarslóðir. Ég tel nokkuð víst að grálúða hrygni líka hér við land. Þessar rannsóknir snúast því um mikla hagsmuni og mikilvægt að ná utan um þetta til þess að stýra veiðunum með sem skynsömustum hætti.

Í gildi er samkomulag milli Íslands og Grænlands um grálúðuveiðar sem byggir á því að verið sé að veiða úr sama stofni.