þriðjudagur, 17. maí 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Kaupir fyrirtæki í Múrmansk

Guðjón Guðmundsson
29. nóvember 2021 kl. 07:00

Norebo er stærst rússneskra sjávarútvegsfyrirtækja. Aðsend mynd

Norebo samstæðan stækkar enn.

Rússneska útgerðarfyrirtækið Norebo hefur fest kaup á sjávarútvegsfyrirtækinu FEST í Múrmansk. Fyrirtækið var metið á 350 milljónir dollara, 46,4 milljarða ÍSK.

FEST er móðurfélag útgerðarfélaganna JSC Strelets, JSC Taurus og JSC Eridan. Vitalíj Orlov er eigandi Norebo Holding.

Orðrómur hefur lengi verið á kreiki um hugsanlega sölu á FEST. Rússneska fréttastofan Kommersant greindi til að mynda frá því árið 2017 að hinn sjávarútvegsrisinn í Rússlandi, Russian Fishery Company, hefði boðið 110 milljónir dollara í fyrirtækið.

Stærsti einstaki eigandi FEST er svissneskur ríkisborgari, Yuri Prutkov að nafni.

FEST samstæðan gerir út sex skip sem veiða á hverju ári í kringum 150.000 tonn af þorski, ýsu, makríl, síld, sardínu og öðrum tegundum. Þorsk- og ýsuveiðin í Barentshafinu er MSC-vottuð.

Tvö skip í pöntun

Nýjasti togari FEST er Scorpion, 61 metra langt skip sem JSC Strelets í Múrmansk gerir út. FEST er eitt margra rússneskra sjávarútvegsfyrirtækja sem taka þátt í fjárfestingakvótaverkefni rússneskra stjórnvalda. Það er með tvo 61 metra langa togara í pöntun. Upphaflega átti að taka skipin í notkun á síðasta ári fyrir veiðar á þorsk og ýsu í Barentshafi og Noregshafi. Smíði þeirra hefur dregist á langinn.

Talsverðar hræringar eru innan sjávarútvegsfyrirtækja í Rússlandi hvað varðar samruna og uppkaup. Síðastliðið sumar blessuðu samkeppnisyfirvöld í Rússlandi kaup Karat-1 OJSC á 100% hlut Saami LLC í Múrmansk sem heldur á 8.870 tonna þorskkvóta og 2.700 tonn ýsukvóta.  Karat er fyrirtæki í Múrmansk innan Norebo samstæðunnar.

Norebo er stærst rússneskra sjávarútvegsfyrirtækja og er kvótastaða þess í ufsa, þorski og ýsu yfir 420.000 tonn.

Samkvæmt Forbes voru tekjur fyrirtækisins árið 2020 60,8 milljarðar rúblna, tæpir 114 milljarðar ÍSK.