sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ker fyrir um 100 milljónir í rangri notkun

Guðjón Guðmundsson
8. febrúar 2021 kl. 13:00

Kerin virðast vera ruslageymsla í sumra augum. Mynd/aðsend

Umbúðamiðlun í átaki vð að endurheimta eignir sínar.

Af um 70 þúsund fiskikerjum í eigu Umbúðamiðlunar ehf., UMB, áætlar félagið að um  1-2 þúsund ker séu í rangri notkun vítt og breitt um landið.  UMB ætlar að fá þá sem starfa í sjávarútvegi og vinna með ker daglega til að átta sig á því að kerin eru eingöngu ætluð undir fisk og ís.  Öllum verði að vera ljóst að óheimilt sé að láta af hendi ker UMB til annarra en þeirra sem hafa heimild til notkunar.

Brynjar Guðmundsson, eftirlitsmaður hjá Umbúðamiðluninni, segir að fyrirtækið sé nú að auka eftirlit með rangri notkun á kerjum.

Brynjar segir að svo virðist sem sumir telja kerin sjálfsagðan hlut af umhverfinu sem enginn eigi og nota megi í hvaða tilgangi sem er.

„Við höfum við séð kerru gerða úr kerjum frá okkur og einnig höfum við heimsótt bændur sem hafa ker heima í hlaði.  Bera þeir við að kerin hafi þeir fengið frá aðilum tengdum sjávarútvegi.  Þetta ætlum við stoppa,“ segir Brynjar.

Röng notkun af ýmsum toga

Brynjar segir að um borð í skipum og bátum séu ker í notkun undir fisk eða ís án þess að leyfi eða samningur um það sé við UMB. Algengt sé að ker séu notuð við geymslu netum, línu og öðrum veiðafærum í skúrum landsins. Einnig séu þau gjarnan notuð undir rusl frá útgerðum og vinnslum. Þau séu notuð við flutninga á öðru en fiski á milli staða, til dæmis varahlutum.

„Rót vandans er innan sjávarútvegsins sjálfs sem skýtur skökku við þar sem greinin sjálf mun bera kostnaðinn,“ segir Brynjar.

Hann segir að ónýt ker séu eign UMB og óheimilt sé að nota þau þar til þau hafi verið afskráð úr kerfi Umbúðamiðlunar og ráðstafanir gerðar sem við á.  Ástæðan fyrir þessu er við notkun  á ónýtum kerjum geta valdið slysi og tjóni. Þess vegna sé það ekki síst öryggisatriði sem rekur Umbúðamiðlun nú út í eftirlitsátak með kerjum frá fyrirtækinu.

„Það er hægt að leita til okkar og fá ker fyrir lítið verð; ker sem ekki eru lengur notuð undir matvæli og tekin hafa verið úr umferð og afskráð,“ segir Brynjar.