miðvikudagur, 3. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Koma sér fyrir djúpt inni á markaðnum

19. nóvember 2020 kl. 07:00

Bjarni Ármannsson

Iceland Seafood fjárfestir fyrir tæpa þrjá milljarða á Írlandi.

Iceland Seafood hefur eignast að fullu stærsta fiskvinnslufyrirtæki á Írlandi, Oceanpath. Þá hefur  Oceanpath keypt Carr & Sons sem er umfangsmikill framleiðandi gæðaafurða úr laxi á Írlandi fyrir smásölumarkaðinn.

Klára að kaupa Oceanpath

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood, segir þessi kaup styrkja stöðu fyrirtækisins á írska markaðnum og opna ný tækifæri til þróunar og þjónustu. Um er að ræða viðskipti upp á 2,8 milljarða íslenskra króna.

Samkvæmt viljayfirlýsingu um kaup Oceanpath á Carr & Sons, sem var undirrituð í lok ágúst síðastliðins, er kaupverðið 6,5 milljónir punda, tæpur 1,2 milljarðar. Carr & Sons starfrækja vinnslu í Killala á vesturströnd Írlands og selja afurðir sínar að mestu leyti í írskar verslanir. Ársalan á síðasta ári nam tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna og hagnaður fyrir skatta var um 160 milljónir. Afurðirnar eru að hluta seldar undir merkjum Carr & Sons en að stórum hluta undir merki Nolan Quality Seafoods sem er stærsta vörumerkið á Írlandi fyrir reyktan lax.

Keyptu 67%

Iceland Seafood keypti 67% hlut í Oceanpath í marsmánuði 2018 og hefur síðan náð góðri fótfestu á markaði fyrir sjávarafurðir á Írlandi. Samhliða kaupunum á Carr & Sons nýtir Iceland Seafood kauprétt sinn á 33% hlut í Oceanpath sem var í eigu Ecock Holding Ltd. Eftir þau viðskipti er Oceanpath í fullri eigu Iceland Seafood. Kaupverðið er 9 milljónir punda, um 1,6 milljarður íslenskra króna og er 60% þess greitt með reiðufé og afgangur með hlutabréfum í Iceland Seafood. Í framhaldi af ákvörðun um kaup á eftirstandandi hluta í Oceanpath tók stjórn Iceland Seafood ákvörðun um hlutafjáraukningu og gefnir voru út 58.477.341 nýir hluti sem afhentir verða seljendum Oceanpath. Ken og Trevor Ecock, sem stofnuðu Oceanpath fyrir þremur áratugum, verða áfram í stjórnendateymi Oceanpath á Írlandi. 

Kaupa og byggja upp

„Við erum gríðarlega ánægð með að styrkja stöðu okkar á írska markaðnum,” segir Bjarni. „Carr & Sons er vel staðsett fyrirtæki á markaðnum fyrir sjávarafurðir og kaupin styrkja okkur á írska markaðnum og opnar ný tækifæri til þess að þróast og þjóna viðskiptavinum okkar enn betur.  En ánægður viðskiptavinur er besti langtíma mælikvarðinn á það sem við erum að gera.Kaupin eru partur af þeirri vegferð sem við hjá Iceland Seafood erum á.  Að kaupa og byggja upp virðisaukandi fyrirtæki sem eru djúpt inni á markaðnum og nálægt viðskiptavininum og sem gefa okkur tækifæri til að nýta okkar þekkingu og styrk í innkaupum, framleiðslu og markaðsmálum.  Við teljum að Carr & Sons passi mjög vel við þá stefnu.”