miðvikudagur, 26. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Legusár samninganefndanna

4. desember 2021 kl. 09:00

Johán H. Williams, Willfish Ocean Management Co. Aðsend mynd

Skoðanaskipti eru gagnleg, jafnvel þótt þær skoðanir sem skipst er á séu innihaldslausar.

Það er mikilvægt að Audun Maråk, framkvæmdastjóri Fiskebåt, félags norskra útgerðarmanna, viðri skoðanir sínar á viðræðum um uppsjávarveiðar.

Það er ekki síður mikilvægt að Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja i sjávarútvegi á Íslandi, viðri mótbárur sínar gegn afstöðu Maråks.

Viðræður hafa nú í níu ár staðið stál í stál um skiptingu kolmunna, makríls og norsk-íslensku síldarinnar (NVG).

Þægileg staða

Og staðreyndin er sú að mönnum hefur liðið vel í þeirri stöðu. Í öllum löndunum hefur greininni þótt mjög þægilegt að geta veitt meira án  samnings, meira en verið hefði ef samningur hefði legið fyrir.

Stjórnsýslunni/ráðuneytunum hefur fundist þægilegt að geta árlega endurnýjað veiðiheimildirnar með ábyrgð að leiðarljósi í samræmi við ráðgjöfina frá ICES. Þótt heildarkvótinn hafi í reynd ekki haft neina þýðingu aðra en að vera sú tala sem hvert ríki byggir einhliða kvótaákvarðanir sína á, og vera jafnframt til viðmiðunar við útreikning á ofveiði.

Á tíu ára tímabili frá 2000 til 2010 (já, ég veit að þau eru 11) var ég aðalsamningamaður Noregs í viðræðum um kolmunna og síld. Á þeim árum kom stundum sú ábending frá greininni að ég væri einum of skapandi, svo skapandi að hætta væri á að samningur tækist. Róaðu þig aðeins.

Ónotatilfinning

Að framkvæmdastjórar samtaka útgerðarmanna á Íslandi og í Noregi skuli nú skiptast á skoðunum kýs ég að túlka sem svo að nú sé fólk farið að finna fyrir óþægindum af að liggja kyrrt í sömu stöðu ár eftir ár. Í strandríkjaviðræðunum eru tekin að myndast legusár.

Sem grundvöll að lausn verðum að leggja svæðatengingu stofnanna (no. sonetilhørighet) – og ekkert annað, segir Norðmaðurinn Audun Maråk.

Við getum ekki sætt okkur við að Noregur ákveði forsendur lausnarinnar, segir Íslendingurinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir. Og þar að auki eru mörg önnur viðmið sem þarf að taka til greina, segir Heiðrún Lind, sem telur að einnig þurfi við skiptinguna að byggja á því hversu háðar þjóðirnar eru fiskveiðum.

Hér hafa bæði rétt fyrir sér, og bæði rangt. Ég er mest ósammála Maråk. Það er ekki hægt að byggja einungis á svæðatengingunni.  Ég er líka mest sammála Maråk, það er svæðatengingin sem er grundvallarforsenda þess hvort þú getir gert tilkall til hluta stofnsins eða ekki. Og getir þar að auki, nýtt þetta tilkall með veiðum innan eigin efnahagslögsögu.

Fiskurinn ferðast

Jafnvel þótt þær veiðar hafi ekki verið stundaðar áður, jafnvel þótt við værum alls ekki háð þeim, jafnvel þótt ekkert hafi verið rannsakað – þá syndir fiskurinn inn í lögsögu okkar, og þá erum við strandríki og þá höfum við rétt til að veiða.

Nokkuð nýlegt dæmi í þessum efnum er Grænland og kolmunninn.

Geir Ove Ystmark er forstjóri Sjømat Norge, samtök sem hafa innan sinna vébanda fjölmörg norsk sjávarútvegsfyrirtæki. Skoðanir hans hafa því mikið gildi og vægi, jafnvel þótt í þessari umfjöllun  sé farið að verða talsvert krökkt af framkvæmdastjórum.

Um slíkt er ekki að ræða á Íslandi vegna þess að þar er samþættingin sjávarútvegsfyrirtækja lóðrétt. Í þessum rökræðum kann það að vera kostur, því Heiðrún Lind getur skipst á skoðunum við hvern sem hún kýs, á sjó eða landi, augliti til auglitis.

Fullveldisafsal

Ystmark er í leit að lausn vegna þess að hann telur - eins og ég - að áframhaldandi ofveiði muni leiða til stofnhruns, verðhruns, markaðsbrests og glataðrar viðskiptavildar.

Hann kynnir til sögunnar ákveðna leið til lausnar á þessum ágreiningi. Til þess að hún gangi upp þyrftu aðilar deilunnar að gefa frá sér fullveldi. Sem er algjörlega út í hött. Aðalástæða þess að Ísland og Noregur eru ekki í Evrópusambandinu er sú hvað fullveldisafsal hefði í för með sér hvað fiskveiðar snertir. Og afsal fullveldis er að ég held ekki mjög ofarlega á baugi hjá rússneska utanríkisráðuneytinu.

Hér erum við þá stödd.

Hvernig reiknum við út svæðistengingu stofnanna?

Hvernig reiknum við út hve háðar þjóðirnar eru veiðunum?

Hvernig reiknum við út framlag til rannsókna?

Hvað ætti að ákvarða vægi svæðanna: hversu háð við erum veiðunum: rannsóknir?

Við höfum reynt þetta áður.

Talnaslagur

Þann 16. desember 2006 gerðu ESB, Færeyjar, Ísland og Noregur með sér fyrsta kolmunnasamninginn eftir tuttugu og eitthvað samningafundi. Fyrir fram voru samningsaðilar í sameiningu búnir að fá unnið fyrir sig viðamikil bakgrunnsefni sem áttu að hjálpa okkur að komast að réttri niðurstöðu í samningi um sanngjarna skiptingu og veiðistjórnun.

Þetta var algjörlega andvana fæðing. Fyrstu 10/12 samningafundina köstuðum við tölum hvað eftir annað í hausinn á hver öðrum. Við drógum fram formúlur sem áttu að gefa svarið.  Og allir mættu á fundina með útreikninga sem sýndu að allir áttu tilkall til stærsta hlutans.

Öllum varð smám saman ljóst að þetta leiddi ekki til neins og að rífa þurfti næstu umferðir samningaviðræðna úr viðjum talnanna.

Þegar ný lönd hefja veiðar á alþjóðlegu hafsvæði úr stofni sem strandríkin töldu sig hafa stjórn á, þá er það vandamál fyrir þau sem fyrir eru. Enn verra verður það þegar hinir nýju geta fiskað á eigin hafsvæði því þá er  nýtt strandríki komið til sögunnar.  Velkomin á næsta strandríkjafund. „Allir hugsa um sjálfa sig – ég er sá eini sem hugsar um mig.“ Öllum er sama um hve háður þú ert veiðum. Það er ekki okkar vandamál.

Ísland fékk að reyna þetta strax þegar hættumerki sáust um mikið veiðiálag á íslenska þorskstofninn, árið 1958 var landhelgin færð út í 12 mílur.  Viðbrögð breska heimsveldisins voru engan vegin hófsöm. Átökin stóðu yfir allt til ársins 1976, misjafnlega hörð.

Næsta skref

Óhætt er að segja að Ísland hafi átt mjög stóran þátt í að skapa þá stöðu hafréttarmála sem varð að veruleika með Hafréttarsamningnum 1982.

Fljótt kom í ljós hve erfitt reyndist að stjórna veiðum úr fiskistofnum á borð við kolmunna, makríl og síld, sem flakka á milli hafsvæða einstakra landa og út fyrir efnahagslögsögu þeirra, þannig að árið 1995 gerðum við Úthafsveiðisamning Sameinuðu þjóðanna.

Núna sjáum við því miður, og höfum reynslu af, að Hafréttarsamningurinn ásamt Úthafsveiðisamningnum hefur ekki myndað nægilegan hafréttargrundvöll fyrir alhliða ábyrgri veiðistjórn á stofnum eins og kolmunna, makríl og síld.

Þegar Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES ) hefur þar á ofan misst vægi sitt og aðildarríkin nýta sér ekki Norðaustur Atlandshafsfiskveiðinefndina (NEAFC), þá tel ég óhætt að draga þá ályktun að samningsleysið stafi ekki af heimsku samninganefndanna eða græðgi greinarinnar. Það er vegna þess að stofnanirnar hafa brugðist.

Ísland hefur áður skapað hafrétt.  Þá stóð Noregur á hliðarlínunni og hrópaði húrra.

Gerum það saman í þetta sinn.

Höfundur er fyrrverandi skrifstofustjóri í norska sjávarútvegsráðuneytinu og fyrrverandi forseti NEAFC og fyrrverandi aðalsamningamaður Noregs.