laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lélegt sumar fyrir austan

Guðsteinn Bjarnason
24. september 2020 kl. 14:00

Kristján HF 100, tveggja ára gamall línubátur með búnaði frá Skaganum 3X. MYND/Jón Steinar Sæmundsson

Nánast sami mannskapurinn verið á nýjum Kristjáni HF þau tvö ár rúmlega frá því veiðar hófust.

Skipstjórinn á Kristjáni HF segir bátinn hafa reynst afskaplega vel, þau tvö ár sem hann hefur verið gerður út. Veiðin fyrir austan land hefur þó verið dræm í sumar en veturinn bíður með betri tíð.

„Sumarið er búið að vera frekar lélegt, frekar dapurt,“ segir Sverrir Þór Jónsson, skipstjóri á Kristjáni HF 100. „Það er eins og veiðin þarna austurfrá sé alltaf að minnka ár eftir ár.“

Kristján HF er tveggja ára gamall bátur, 30 brúttótonn og 14 metrar að lengd, búinn vönduðum kæli- og blóðgunarbúnaði frá Skaganum 3X. Skipstjórar eru tveir og skiptast þeir Sverrir Þór og Atli Freyr Kristjánsson á. Einnig eru tvær áhafnir og jafnan fjórir um borð, að sögn Sverris sem var í landi þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn.

Báturinn er gerður út frá Hafnarfirði en hefur verið að veiðum út af Austurlandi, en þar segir hann veiðina undanfarin sumur hafa verið dræma.

„Við höfum alltaf verið að færa okkur. Þegar við komum þarna fyrir nokkrum árum vorum við að róa út af Stöðvarfirði og þar út í kantinn, en nú er lítil veiði þar. Svo færðum við okkur á Neskaupstað og nú erum við komin á Vopnafjörð. Hann færist alltaf norðar og norðar fiskurinn.“

Hann segir ætið væntanlega eiga þar hlut að máli.

„Það er búið að vera mikið æti þarna, bæði síld og annað, þannig að fiskurinn hefur ekkert verið að taka neitt vel.“

Betri tíð í vændum

Hann er þó býsna bjartsýnn á veturinn.

„Þetta fer að lagast núna um leið og sjórinn fer að kólna. Svo förum við að fá nýja beitu núna líka, og þá lagast þetta oft. Við erum að verða búin með síldina og núna fara síldarbátarnir að veiða í beitu. Það er oft upp úr þessum tíma í október sem það fer að hressast, svo við erum bara þolinmóðir. Þetta slær í takt við þjóðfélagið núna.“

Hann segir ástandið í þjóðfélaginu þó ekki hafa komið harkalega niður á þeim.

„Nei, við erum ekkert með neinar skelfilegar tekjur svo sem, en minna en maður vill vera með. Þetta sleppur alveg til. Við vorum með eitthvað 150-160 tonn í síðasta mánuði, og það má ekki vera neitt mikið minna en það.“

Bátur í góðum málum

Kristján HF er með 2.111 tonna kvóta og er hæstur á nýjum lista frá Fiskistofu yfir aflaheimildir krókaaflabáta.

„Við erum í mjög góðum málum miðað við marga, bæði kvótalega og með góðan bát og góða útgerð, verðum að þakka fyrir það líka,“ segir Sverrir Þór.

„Við höfum alla vega náð að veiða það sem við erum með og ég held eitthvað umfram það. Höfum verið að veiða eitthvað 2200 tonn eða 2100 á ári núna síðan við byrjuðum. Það sleppur alveg til.“

Hann segir áhöfnina afskaplega ánægða með bátinn, enda hefur nánast sami mannskapurinn verið á bátnum þau tvö ár rúmlega frá því veiðar hófust á nýjum Kristjáni HF.

„Þetta hefur allt komið bara mjög vel út hjá okkur. Góður sjóbátur og plássið og nýtingin á öllu reynst mjög vel. Það er fín aðstaða þarna, við erum með sturtu og allir í sérklefa. Það er allt til alls og net og sjónvarp í öllum klefum. Þannig að það er ekkert að því.“