sunnudagur, 7. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lífslíkur hlýra eftir veiðar

2. febrúar 2021 kl. 13:00

Sjá skýringar við mynd neðst í greininni. MYND/Hafrannsóknastofnun

Stofnstærð hlýra er í sögulegu lágmarki að mati Hafrannsóknastofnunar

Hlýri er útbreiddur í Norður-Atlantshafi og finnst hann víða umhverfis Ísland, en mest í kantinum út af Vestfjörðum. Hlýri verður kynþroska hér við land að um 83 sentímetra langur og um 9 ára gamall, áður en hann verður kynþroska er árlegur vöxtur hlýra um 6.5 sentímetrar á ári. Hlýri hrygnir hér við land á tímabilinu ágúst til seinnihluta október, en mesta hrygningin mun vera í byrjun september. Samkvæmt gögnum úr haustleiðöngrum Hafrannsóknarstofnunar hrygnir hlýri víða umhverfis Ísland, en mest við Víkurálinn og á Halanum (Mynd 1).

  • Mynd 1. Hrygningarsvæði hlýra samkvæmt haustralli. Hringirnir sýna hvar hrygnur fengust sem komnar voru að hrygningu eða nýhrygndar. Því stærri sem þessir hringir eru því fleiri hrygnur hafa veiðst þar. Rauðu krossarnir tákna stöðvar þar sem engar slíkar hrygnur fengust.

Aldrei mælst minna

Á árunum 1985-1994 var árlegur hlýraafli við Ísland um 900 tonn aðallega í botnvörpu, en á þessum tíma var línuafli hlýra óverulegur eða að meðaltali um 30 tonn á ári. Á þessum árum stækkaði hlýrastofninn við Ísland og náði hann hámarki árið 1996, en hefur síðan þá almennt farið minnkandi og hefur aldrei mælst eins lítill og árið 2020 (Mynd 2).

  • Mynd 2. Stofnvísitala hlýra í togararalli Hafrannsóknarstofnunnar og afli á hlýra við Ísland.

Frá árinu 1994 byrjaði línuveiði á hlýra að aukast og var hún almennt vaxandi til ársins 2006, en þá var hún 2.040 tonn. Upp úr 2000 fer afli á hlýra í botnvörpu líka að aukast og var hann á árunum 2001-2006 um 1.500 tonn á ári. Frá árinu 2006 hefur afli á hlýra almennt farið minnkandi og hefur hann verið þrjú undafarin ár um 1.400 tonn á ári.

Árið 2012 gaf Hafrannsóknastofnun út ráðgjöf um afla á hlýra og fyrstu fjögur fiskiveiðiárin var veiði umfram ráðgjöf rúmlega 100%. Á næstu þrem fiskveiðiárum var hún um 40% og á síðasta fiskveiðiári um 250%. Erfitt er að takmarka sókn í hlýra þar sem hann er almennt veiddur sem meðafli. Stofnstærð hlýra er núna í sögulegu lágmarki og er líklegasta skýringin á því að hann þoli ekki þá veiði sem hefur verið á honum frá árinu 2000.

Merkingar

Hafrannsóknastofnun ráðlagði síðastliðið vor að veitt yrði heimild til að sleppa hlýra og þann 14. desember síðastliðinn veitti atvinnulega og nýsköpunarráðuneytið þessa heimild. Áður en ráðgjöfin var gefin út voru haldnir samráðsfundir með hagsmunaaðilum um tillögunar. Í ljósi þessara aðstæðna hafa menn velt fyrir sér lífslíkum hlýra eftir veiðar. Á árunum 2015 til 2017 voru merktir 102 hlýrar þ.a. 44 með rafeindamerkjum í leiðöngrum Hafrannsóknarstofnunnar. Í þessum merkingum vakti það athygli að hlýrinn virtist þola það vel að vera lengi í móttökunni, reyndar virtist sumir hlýrarnir vera lífvana þegar þeir voru settur í kar með rennandi sjó, en urðu fljótlega líflegir, þess skal getið að endurheimtur úr þessum merkingum hafa verið góðar.

Á árunum 2001 til 2006 var hlýraeldi á Neskaupsstað og var hlýrum til að framleiða seiði fyrir eldið upphaflega safnað á togaranum Bjarti. Þar var honum komið fyrir í lifrarkerum með rennandi sjó, eftir að hann var kominn þangað var lítið eða ekkert um afföll. Í Kanada var gerð rannsókn á lífslíkum steinbíts sem veiddur var í botnvörpu, kom í ljós að steinbíturinn þoldi að vera allt að tvo tíma í röku loftinu í fiskmóttökunni eða í vinnslusalnum áður en hann dó. Lífslíkur steinbíts sem var veiddur og sleppt innan við tveim tímum eftir að hann var veiddur voru metnar yfir 90% í þessari rannsókn og töldu þeir sem gerðu hana að sama ætti við um hlýra.

Frumathugun Hafrannsóknastofunnar, sem fór fram á síðasta ári, á því hvað hlýri þolir að vera lengi í móttöku eða færiböndum eftir veiðar í botnvörpu áður en honum er sleppt benda til að það sé svipað og hjá steinbít, en til stendur að rannsaka það nánar á þessu ári. Á síðasta ári byrjaði Hafrannsóknastofnun að rannsaka lífslíkur hlýra eftir línuveiðar, en engar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hingað til og stendur til að rannsaka það nánar á þessu ári (Mynd 3). Þær niðurstöður sem þegar eru komnar benda til að lífslíkur hlýra eftir línuveiðar séu talsverðar. Það er því margt sem bendir til að lífslíkur hlýra sem er sleppt eftir veiðar séu miklar.

Á árunum 1978 til 1994 minnkað steinbítsstofninn við Kanada um 87% og hlýrastofninn um 96%, þetta leiddi til þess að sett var á löndunarbann á hlýra við Kanada. Talsverð umræða var einnig um hvort setja ætti löndunarbann á steinbít en ákveðið að fara aðra leið eða að hvetja sjómenn til að sleppa honum eftir að leyfilegum afla væri náð, en steinbítur og hlýri veiðast almennt sem meðafli við Kanada.

80% umfram ráðgjöf

Hlýrastofninn við Ísland hefur minnkað um 80% frá árinu 1996 til 2020. Ráðlagður afli Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 er 314 tonn og nú þegar er búið að veiða 560 tonn eða 80% umfram ráðgjöf, þegar um sjö mánuðir eru eftir af fiskveiðiárinu. Í ljósi bágra stöðu hlýrastofnsins við Ísland, hversu erfitt er fyrir sjómenn að forðast að veiða hann og að rannsóknir og athuganir benda til að lífslíkur hlýra séu talsverðar eftir að hafa verið veiddur og sleppt. Hvetur Hafrannsóknastofnun sjómenn til að sleppa hlýra sem er veiddur umfram aflamark í þeirri von að það dugi til að snúa við þeirri þróun síðastliðin 24 ár um minnkandi stofnstærð hlýra.

Í lokin viljum við þakka áhöfn Sighvats GK fyrir samstarfið í rannsókninni á lífslíkum hlýra eftir línuveiðar.

Höfundar eru allir sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun: Ásgeir Gunnarsson, Hlynur Pétursson, Pamela Woods, Bjarki Elvarsson og Guðmundur Þórðarson.

  • Mynd 3. Hlýrinn sem er fjær á vinnslubandinu var látinn vera á því í rúman klukkutíma áður en hann var settur í sjó. Í fyrstu var hann allveg hreyfingalaus en eftir nokkrar mínútur byrjuðu táknlokurnar að hreyfast og eftir um korter var hlýrinn orðinn sprækur og synti líflega um ef stuggað var við honum. Hlýrinn sem er nær á færibandinu var látinn vera á því í rúmlega 2 tíma og lifði hann það ekki af.