mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lífslíkur línuveidds hlýra töluverðar

9. janúar 2021 kl. 09:00

Engar beinar veiðar eru á hlýra sem fæst í nokkru magni sem meðafli. Mynd/Þorgeir Baldursson

Hafrannsóknarstofnun í samstarfi við sjómenn á Sighvati GK.

Hafrannsóknastofnun rannsakaði í lok síðasta árs, í samstarfi við áhöfn Sighvats GK, lífslíkur hlýra eftir línuveiðar. Sighvatur GK er gerður út af Vísi hf. og byrjar veiðar út af Norðurlandi á haustin og standa þær fram eftir vetri.

Í umfjöllun Hafrannsóknastofnunar segir frá því að á lokadegi í hverri veiðiferð safnaði áhöfnin á Sighvati, annars vegar fimm hlýrum sem fóru hefðbundna leið í gegnum slítara og hins vegar fimm sem leystir voru af króknum með handafli. Þeim var síðan komið fyrir í kari með rennandi sjó og var landað á Siglufirði þar sem starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tóku við þeim.

Á Hjalteyri hefur Hafrannsóknastofnun komið upp rannsóknaraðstöðu þar sem hlýrinn var settur í krabbagildrur sem var komið fyrir á hafsbotni. Fylgst var með hlýrunum næstu fjóra sólarhringa og að því loknu var þeim sem lifðu af, sleppt aftur í hafið.

Til stendur að rannsaka þetta frekar á næsta ári. Þær niðurstöður sem þegar eru komnar benda til að lífslíkur hlýra eftir að hafa veiðst á línu og sleppt séu talsverðar, segir í umfjölluninni.

Í sögulegu lágmarki

Kveikja þessarar rannsóknar er að staða hlýrastofnsins við Ísland er í sögulegu lágmarki og hefur farið minnkandi frá árinu 1996. Hlýri var settur í aflamarkskerfið fyrir nokkrum árum, en sjómönnum hefur gengið illa að veiða ekki umfram kvóta m.a. vegna þess að hlýri veiðist almennt sem meðafli.

Á þessu ári var ákveðið á fundi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunnar, SFA og útgerðarmanna að fá heimild til að sleppa hlýra sem veiðist og gekk sú heimild í gildi um miðjan desembermánuð síðastliðinn.

„Vonast er til með þessari heimild, að sjómenn sleppi þeim hlýra sem þeir veiða umfram kvóta og það dugi til að bæta stöðu stofnsins. Í ljósi þessara aðstæðna hafa menn velt fyrir sér lífslíkum hlýra eftir veiðar, álitið er út frá athugunum að þær séu talsverðar eftir botnvörpuveiðar,“ segir í frétt Hafró en frumathugun hjá Hafrannsóknastofnun sýndi að hlýri sem veiddur var í botnvörpu virtist þola 1-2 tíma í móttöku eða á færibandi áður en honum var sleppt.

Til stendur að rannsaka þetta nánar á þessu ári. Engar rannsóknir hafa hinsvegar verið gerðar á lífslíkum hlýra eftir að hann hafa veiðst á línu.

Merkingar árið 2015

Í Fiskifréttum árið 2015 var sagt frá því að í þá nýafstöðnu vorralli Hafrannsóknastofnunar voru merktir á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni 67 hlýrar. Þar af voru 20 merktir með rafeinda- og slöngumerki en 47 voru einungis merktir með slöngumerki. Hlýrarnir sem voru merktir veiddust aðallega í kantinum úti af Vestfjörðum.

Hlýri hafði þá ekki verið verið merktur áður með rafeindamerki svo vitað væri. Með þessum merkingum voru athugaðar dægursveiflur í fari hlýra og hvort hann fari almennt á dýpra vatn á haustin til að hrygna eins og steinbítur, en þessar tegundir eru náskyldar.