miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnan að braggast í Barentshafi

22. október 2021 kl. 10:50

Loðna er að braggast í Barentshafi eins og í íslenskum sjó. Mynd/Þorgeir Baldursson

Loðnukvóti gefinn út í Barentshafi í fyrsta skipti frá árinu 2018.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur birt ráðgjöf sína um veiðar á Barentshafsloðnu. Ráðgjöfin er sú að í fyrsta sinn síðan árið 2018 er gefið grænt ljós á veiðar eða 70.000 tonn fyrir næsta ár.

Niðurstaða mælinga sýna að stofn Barentshafsloðnu hefur braggast umtalsvert og sérstaklega er tveggja ára loðna áberandi. Er um bestu mælingu tveggja ára loðnu að ræða síðan 1991, segir í umfjöllun norsku Hafrannsóknastofnunarinnar. Þar segir að loðnan sé létt og komin stutt í þroska og því muni meirihlutinn af mældri tveggja ára loðnu ekki koma inn í veiðistofninn fyrr en árið 2023.

Eins árs loðna er einnig yfir langtímameðaltali, sem þýðir að nýliðun loðnu í Barentshafi hefur verið góð í tvö ár, og minna þessar fréttir á mælingar á íslenska loðnustofninum frá því núna á dögunum. Telja norskir hafrannsóknamenn að nýjasta mælingin á stofninum sé lofandi til næstu ára og því um algeran viðsnúning að ræða eins og hérlendis.