mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuflotinn bíður eftir réttri hrognafyllingu

Guðjón Guðmundsson
11. febrúar 2021 kl. 13:00

Líflegt fyrir austan - skip að landa hjá Loðnuvinnslunni og önnur á leið á veiðar. Mynd/Þorgeir Baldursson

Norðmenn hafa veitt tæplega helming af loðnukvóta sínum.

Íslenski loðnuflotinn bíður þess að hrognafylling aukist sem verður sennilega í lok mánaðar en á meðan veiða Norðmenn sinn hlut úr gagnkvæmum fiskveiðisamningum við Íslendinga og hluta af þeim 9.000 tonnum sem falla í hlut Grænlendinga. Á meðan íslensku loðnuskipin eru ekki á veiðum hafa Norðmenn landað umtalsverðu magni í loðnuvinnslur á Austurlandi. Samtals hafa Norðmenn nú veitt um 19 þúsund tonn við Ísland af þeim 42.000 tonnum sem þeir fengu úthlutað í samræmi við samninga.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, segir úthlutunina nú ekki stóra í sögulegu ljósi og nær að tala um nokkra „innkaupapoka“ í þeim efnum.

„En þessi 127 þúsund tonn skipta miklu máli fyrir markaðinn sem er galtómur af hrognum og kvenloðnu.“

Friðrik Mar segir að þegar Smugusamningurinn var gerður árið 1999 hafi loðnukvótinn verið um 700 þúsund tonn. Samningurinn þá hafi haft minna vægi fyrir íslenskar uppsjávarútgerðir en nú þegar kvótinn er ekki nema 127 þúsund tonn, þar af 70 þúsund tonn í hlut Íslendinga.

Landa sennilega þriðjungi hér

„Búast má við að Norðmenn landi um einum þriðja heildarloðnuafla síns hér við land. Það eru bara góð viðskipti og hafa alla tíð verið. Það er verið að landa núna hjá okkur úr öðru norska loðnuskipinu og eitt til viðbótar er á leiðinni. Þetta eru líklega um eitt þúsund tonn sem við höfum fengið hjá Norðmönnum til þessa. Hrognafyllingin er að slá í 12% og við frystum hverja loðnu og það fer ekki eitt kíló í bræðslu,“ segir Friðrik Mar.

Frést hefur af mikilli samkeppni um loðnu hjá norskum vinnslum sem hafa borgað hæst um 15 krónur norskar fyrir kílóið af loðnu. Friðrik Mar segir að norsku skipin fái mun lægra verð fyrir loðnuna hérna heima. Engu að síður búi menn við talsverða óvissu um hvað loðnumarkaðirnir eru tilbúnir að greiða fyrir afurðirnar. Heilfrysta loðnan fer öll á Asíu þar sem markaðirnir eru tómir. Hann segir að þegar ekkert berist af þessari vöru um lengri tíma geti það skaðað markaðina. Sömuleiðis geti markaðurinn dregist mikið saman ef verðin eru há sem útlit er fyrir að verði á yfirstandandi vertíð.

Aflaði fyrir 1,2 milljarð

„Japansloðnan er verðmætust með 14% hrognafyllingu eða meira. Í framhaldinu tekur við hrognakreisting og það er vitaskuld sá tími loðnuvertíðarinnar sem skilar mestum verðmætum. Norðmennirnir hafa ekki tíma til þess að bíða eftir réttri hrognafyllingu því þeir hafa ekki leyfi til veiðanna nema til 22. febrúar. Þeir mega ekki heldur fara suður fyrir línu 64° 30 mínútur út af Glettingi.“

Hoffellið, uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar, liggur bundið við bryggju, og segir Friðrik Mar það eigi eftir að ákveða hvort áherslan verði á hrognatöku eða kvenloðnu. Hrognataka hefjist ekki fyrr en í lok mánaðar. Það sem falli í hlut Loðnuvinnslunnar sé ekki mikið og rétt dugi í einn túr í hrognatöku og kannski þrjá í kvenloðnu.

Í janúar fór Hoffellið í tvo kolmunnatúra við Færeyjar og kom með alls 4.500 tonn að landi. Í framhaldinu var farið í einn síldartúr vestur af Reykjanesi til að veiða upp í samninga um saltaða síld. Hoffellið hitti þar á stóra torfu og tók það einungis klukkustund að ná 500 tonnum. Á árinu 2020 aflaði Hoffellið alls 29.164 tonn að andvirði 1.200 milljónir króna.