mánudagur, 2. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Lúðan í lægð í mörg næstu ár

Svavar Hávarðsson
19. júlí 2021 kl. 14:00

Síðasta árið sem veiðar voru leyfðar komu rúmlega 500 tonn á land. Mynd/Guðlaugur Abertsson

Hafrannsóknastofnun leggur til að áfram verði í gildi reglugerð frá 2012 sem bannar allar beinar veiðar á lúðu í fiskveiðilandhelgi Íslands, og að allri lífvænlegri lúðu sem kemur um borð í veiðiskip skuli sleppt.

Beinar veiðar á lúðu hafa verið bannaðar frá árinu 2012, en Hafrannsóknastofnun hafði þá í mörg ár bent á að viðkomubrestur hefði orðið í stofninum og nýliðun lítil. Fyrir bannið á árunum 2007 til 2011 veiddust 430 til 550 tonn á ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Aflinn datt niður í um 35 tonn fyrsta ár veiðibannsins en hefur verið að aukast síðan jafnt og þétt og var 142 tonn í fyrra. Í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar segir að lúða sem þó veiðist sé „stærstum hluta 3–5 ára ókynþroska fiskur. Þessir aldurshópar hafa verið í mikilli lægð í tvo áratugi og bendir það til að viðkomubrestur hafi orðið í stofninum. Þetta ástand er orðið svo langvinnt að fyrirsjáanlegt er að stofninn muni vera í lægð í fyrirsjáanlegri framtíð.“

Varnaðarorð hunsuð

Hafrannsóknastofnun hafði lagt til allt frá árinu 1997 að bein sókn í lúðu yrði óheimil. Þvert á þessa ráðgjöf jókst bein sókn með haukalóðum stórlega og árið 2010 voru 46% lúðuaflans veidd með haukalóðum. Svo fór að ráðherra setti á laggirnar starfshóp í júní það ár sem fjallaði um stöðu lúðustofnsins.

Í niðurstöðum starfshópsins kom fram að erfitt væri að eiga við lúðuveiðar þar sem ákveðinn hluti landaðs afla væri meðafli þar sem lágt hlutfall landaðs afla væri lúða og því hefðu lokanir á ákveðnum svæðum takmörkuð áhrif til verndunar lúðustofnsins en merkjanleg áhrif á aðrar veiðar. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að vernda lúðustofninn væri að banna beina sókn í lúðu með haukalóðum.

Lokanir útilokaðar

Í júlí árið 2011 óskaði ráðherra eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar um næstu skref í friðun. Einkum tvennt var talið koma til greina. Lokun veiðisvæða þar sem unglúða heldur sig eða sleppingar á allri lífvænlegri lúðu sem veiðist sem meðafli. Stofnunin kallaði reynda skipstjórnarmenn til samráðs. Heildarniðurstaðan var að svæðalokanir væru slæmur kostur þar sem sú aðgerð myndi þýða umtalsverðar hömlur á veiðum annarra tegunda. Sleppingar á lífvænlegri lúðu þóttu skárri kostur, þó að á honum væru gallar.

Veitt og sleppt

Í nýlegu svari sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar þingmanns um lúðuveiðar kemur fram að eftir árið 2016 sýna rafrænar veiðidagbækur sjómanna að sleppingar á lúðu færðust mjög í vöxt. Árin 2018 til 2020 var tæplega 1900 til rúmlega 2.300 lúðum skilað aftur í sjóinn.