miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Magnið lítið í stóra samhenginu

Guðjón Guðmundsson
16. október 2021 kl. 08:00

Hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, sem og víða um land, eru menn að skipuleggja veiðar og vinnslu á loðnu. Veiðar geta hafist á morgun. Mynd/Þorgeir Baldursson

Loðnuvertíðin gæti skilað 70-80 milljörðum.

Gefin hefur verið út reglugerð um veiðar á loðnu. Alls eru heimilaðar veiðar íslenskra skipa á 662.064 tonnum sem gefur væntingar um að komandi vertíð verði sú stærsta í tæp 20 ár. Loðnuveiðar máttu hefjast í gær - 15. október.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, líst vel á komandi vertíð. Hann segir nóg af íslenskum uppsjávarskipum til að veiða kvótann og afkastageta vinnslunnar standi ágætlega undir þessu magni náist að veiða það allt saman. Ljóst sé að megnið af þessum kvóta fari í mjöl- og lýsisvinnslu og heimsmarkaðsverð á þessum afurðum er í sögulegu hámarki. Hann áætlar að þessi loðnuvertíð geti skilað 70-80 milljörðum króna í útflutningsverðmæti.

„Loðnan heldur sig núna á vestara svæðinu og það hafa verið fréttir af togurum þar sem eru að fá þorsk fullan af loðnu. Það er góðs viti,” segir Friðrik Mar.

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Aðsend mynd

Mikil endurnýjun hefur orðið í  íslenska uppsjávarflotanum undanfarin ár. Þetta eru um 20 skip og mörg þeirra með 2.500 til 3.000 tonna burðargetu og öll með kælitanka sem tryggir betra hráefni til vinnslunnar.

Friðrik Mar telur líklegt að um eða yfir 500 þúsund tonn fari í bræðslu og um 200 þúsund til manneldis. Fiskimjölsverksmiðjurnar í landinu eru tíu talsins. Bræðslurnar séu nægilega afkastamiklar til að anna þessu þótt þeim hafi heldur fækkað undanfarin ár. Afkastageta þeirra er samtals milli 9-10 þúsund tonn á sólarhring.

Hann telur líklegt að mikið framboð geti haft einhver áhrif á markaðinn í frystri loðnu og hrognum.

„Hrognavertíðin stendur yfir í 10-14 daga og veðrið skiptir öllu máli þegar þroskastigið er þannig að hrognataka geti hafist. Sama á við um kvenloðnuna. Þar snýst þetta líka um 10-14 daga. Veðrið, áta og þroski loðnunnar ræður meira í þessum efnum en magnið.”

Lítil áhrif á mjölmarkað

Hann segir að það sem fari til framleiðslu á mjöl og lýsi hafi lítil áhrif á markaðsverð. Magnið sé lítið í stóra samhenginu þótt það sé mikið í íslensku samhengi. Það sem af er þessu ári hefur verið unnið úr 5,8 milljónum tonna af uppsjávarfiski á heimsvísu sem hefur farið í bræðslu. Úr því hafa orðið til 1,3 milljónir tonna af fiskimjöli, þar af um 1 milljón tonn í Chile og Perú. Þótt hér verði framleidd um 100 þúsund tonn af mjöli hafi það lítil sem engin áhrif á heimsmarkaðsverðið sem er núna í sögulegum hæðum. Á síðustu loðnuvertíð fór allur aflinn í manneldi og seldist á hæstu verðum. Vertíðin skilaði nálægt um 20 milljörðum króna í útflutningsverðmæti.

„Til þess að vera með einhverja nálgun myndi ég halda að komandi vertíð gæti skilað á bilinu 70-80 milljörðum kr. í útflutningsverðmætum,” segir Friðrik Mar. Til þess að setja þetta í samhengi námu útflutningsverðmæti þorskafurða á almanaksárinu 2020 um 130 milljörðum króna.

Um 240 þúsund tonn af 904 þúsund tonna heildarloðnukvóta fer til Norðmanna, Færeyinga, Grænlendinga og ESB-ríkja. Friðrik Mar á von á því að meirihluta afla erlendra skipa verði landað á Íslandi.

Hann segir það mjög slæmt að á sama tíma og stefni í stærstu loðnuvertíð undanfarna tvo áratugi skuli gamlir og rótgrónir loðnumarkaðir Íslendinga vera lokaðir og vísar þar til Rússlandsmarkaðar. Helmingi hærra verð fengist fyrir þá loðnu sem færi inn á þann markað, væri hann opinn, en fyrir það sem fer í bræðslu.